Mest fer á Vesturland
Eins og á undanförnum mörkuðum með greiðslumark mjólkur var ásókn í mjólkurkvóta mun meiri en framboð á markaði sem haldinn var 3. nóvember. Jafnvægisverð helst óbreytt í 250 krónum á lítrann.
Jafnvægisverðið hefur haldist stöðugt frá nóvembermarkaði á síðasta ári, en hámarksverð er sem fyrr 419 krónur á lítrann.
Mest fór af kvótanum á Vesturland að þessu sinni, eða rúmir 155 þúsund lítrar af þeim rúmu 613 þúsund lítrum sem heildarviðskiptin náðu yfir. Næstmest fer í Skagafjörðinn, eða tæpir 142 þúsund lítrar. Salan er einnig mest frá Vesturlandi, eða 406.556 lítrar.
Óskað var eftir 1.217.100 lítrum en í boði voru 866.812 lítrar. Alls bárust 38 gild tilboð um kaup og sölutilboð voru 13. Þrjú kauptilboð voru undir jafnvægisverði og tvö yfir jafnvægisverði.
Seljendur með tilboð á jafnvægisverði eða lægra eru 11 talsins og selja 100% af sínu framboðna magni. Kaupendur með tilboð á jafnvægisverði eða hærra eru 35 talsins og fá 52% af eftirspurðu magni í sinn hlut. Eitt kauptilboð fær úthlutun úr forgangspotti nýliða.
