Lífsfylling að vera bóndi
Viðtal 28. desember 2025

Lífsfylling að vera bóndi

Höfundur: Sigríður Huld Blöndal

Það er sólríkur dagur í Tórshavn í Færeyjum. Leiðin liggur í heimsókn til stórbónda sem býr á Vatnaskørðum í Hoyvík. Sveitabær sem liggur efst í hæðinni yfir Tórshavn og ber nafnið Hoyvíksgarður.

Ég fæ far upp að bænum en læt staðnæmast neðst við bæjarhliðið því ég hafði hugsað mér að taka röltið eftir malarveginum upp að bænum og njóta hins stórkostlega útsýnis á leiðinni. Sólin læðist meðfram fjöllunum og umvefur náttúruna í kring. Ég nálgast bæjarstæðið og kem fyrst að stóru fjósi og bæjarhlaði. Því næst liggur leiðin upp að íbúðarhúsinu, sem er steinlagað með grasþaki (torfþaki), eins og einkennir svo mörg hús í Færeyjum.

Hjónin á Hoyvíksgarði, þau Sigert og Alika.

Ég banka létt á hurð en enginn virðist vera inni, því næst hringi ég í Sigert, bóndann á bænum, og hann er í fjósinu. Hann kemur út á hlað og tekur vel á móti mér og byrjar á að sýna mér fjósið. „Þetta fjós byggðum við árið 2012 og hér erum við með 68 mjólkurkýr og samtals með um 130 nautgripi á bænum,“ segir Sigert Patursson, en hann hefur verið bóndi á Hoyvíksgarði síðan um aldamótin 2000. Fyrst einn en býr þar nú með konu sinni og þremur börnum. „Það að vera bóndi er lífsstíll.“ Landbúnaður og bændaáhugi liggur í blóðinu en Sigert ólst upp á hinum sögufræga stað Kirkjubø í Færeyjum.

Nýtt fjós byggt

„Í gamla fjósinu á Hoyvíksgarði var ég með um 22 kýr þegar ég hóf búskap minn hér á bænum. Nú eru komin þrettán ár síðan nýja fjósið var tekið í notkun og mjaltaþjónar notaðir til að mjólka þær 68 kýr sem eru í fjósinu. ,,Maður er ekkert atvinnulaus þó mjaltaþjónar hafi tekið við, þú vinnur bara öðruvísi í fjósinu með alla þessa tækni.“ Þróunin í Færeyjum hefur verið sú að kúabúum hefur fækkað mikið. ,,Þegar ég byrjaði voru 67 kúabú en nú eru þau þrettán talsins í Færeyjum. Þau eru á stöðum eins og í Havnardali, Syðradali, Gøtudali, Leirvík og fleiri stöðum í Færeyjum. Nú mega þau ekki verða færri, þetta er mikil fækkun síðustu ár,“ segir Sigert. Mjólkurframleiðslan sé þó sú sama með færri kúabúum en þau séu orðin ansi fá.

Sauðfjárbúskapur er einnig á bænum hjá Sigert á Hoyvíksgarði. ,,Ég var með 500 kindur en hef fækkað niður í 300. Ég sel eitthvað af kjöti til veitingastaða. Mikið af kjötinu er ræst kjöt sem selt er í einkasölu og svo fer kjöt einnig í matvöruverslanir. Kindurnar ganga úti allt árið og snjórinn liggur sjaldan lengi yfir vetrartímann, hann kemur og fer, í Færeyjum eru veturnir frekar hlýir og ekki svo heit sumur.“

Hver morgun hefst í fjósinu, fyrst er að blanda saman fóðri og gefa hey, síðan tekur við að hreinsa bása, gefa kálfunum og stundum þurfa einhverjar kýr hjálp við mjólkurþjóninn. Eftir þetta taka önnur störf á bænum við og svo um kvöldið er það að gefa aftur í fjósinu og sinna því. Yfir daginn standa kýrnar í röð að komast á mjólkurbásinn og þannig gengur það fyrir sig allan daginn. Kýrnar hafa það gott í svona fjósi, þær ganga lausar og hafa mikið pláss. Jú, Sigert viðurkennir að þetta er sannarlega orðið tæknilegt og það þarf að fylgjast vel með að allt virki. ,,Mér líkar vel við mjólkurþjóninn, en stundum hugsar maður um gamla tímann, síminn getur hringt um nóttina ef eitthvað bilar varðandi tæknina í fjósinu, sérstaklega varðandi mjólkurþjóninn, og þá þarf að bregðast strax við.“ Tæknin hafi sína kosti og galla.

Þegar kemur að fóðri fyrir kýrnar er mest notast við súrhey (vothey). ,,Það er ekki góður þurrkur hér í Færeyjum á sumrin og þetta er venjan hér. Síðan blanda ég brauði, hálmi og öðru við súrheyið. Ég fæ dagsgamalt brauð frá bakaríi í Tórshavn. Þannig hef ég lengi gert það, þetta tíðkast einnig í Danmörku, að blanda svona heyinu. Fólk leggur mikið upp úr því að fá nýbakað brauð og kaupir næstum ekki dagsgamalt brauð í bakaríum en það fæ ég svo og nota sem fóður. Hér áður fyrr voru bakarí næstum í hverjum bæ í Færeyjum og mjólkurbú en þannig er það ekki lengur.“

Hlaðan er stór og þetta tekur nokkuð mikið pláss. Hér er notast við brunna eins og voru notaðir á Íslandi fyrr á dögum. Súrheyið fer ofan í brunnana og er blandað saman þar. Núna er hann með brunna ofan í gólfinu í hlöðunni en einn gamall brunnur er einnig í fjósinu og bóndinn fær blaðakonu til að klifra hátt upp í stiga að skoða ofan í brunn.

Næst göngum við út á hlað og förum yfir í gamla fjósið. Sólin gyllir fagurt þennan daginn, hér blasir við fjallasýn, sjávarsýn, Tórshavn og eyjan fagra Nólsoy. Þegar inn í gamla fjósið er komið standa nokkrir hestar og einnig Íslandshestar. ,,Börnin okkar hafa gaman af hestum og elsti sonur minn kannski mest. ,,Hér þarf ég að fara að laga þak og veggi, þetta er orðið ansi gamalt. En ég safna svo miklu dóti og næ einhvern veginn ekki að henda, þetta er smá vandamál hjá mér að safna gömlu dóti,“ segir Sigert léttur í bragði. 

Kemur af mikilli bændafjölskyldu

Næst röltum við út í garð á þessum blíðvirðisdegi. Við spjöllum dágóða stund úti en færum okkur svo inn í bæinn, fallegt eldri íbúðarhús, og setjumst niður í björtu og rúmgóðu eldhúsi. Spjallið heldur áfram og Sigert segir mér frá rótunum, hvar áhuginn á bændastarfinu kviknaði. ,,Ég er alinn upp á hinum sögufræga stað Kirkjubø, nefndur „Heima á Garði í Kirkjubø“ og bróðir minn er bóndi þar núna. Þar ólst ég upp á stóru bændaheimili. Eftir barnaskóla þurfti maður að finna út úr hvað tæki við og eins og allt ungt fólk þarf maður að finna út úr hvað maður vill í lífinu eftir grunnskólagöngu. Á þessum tíma var kreppa í Færeyjum og ekki hægt að komast í læri í iðnnámi. Ég hafði ætlað mér að læra húsasmiðinn en það var ekki í boði akkúrat þá. Ekki var tekið við nýjum nemendum í því. En svo kom möguleiki að fara í Tækniskóla og það gerði ég bæði í Tórshavn og Klaksvík og kláraði stúdent frá Tækniskólanum í Klaksvík. Eftir þetta voru tímarnir orðnir betri í Færeyjum. Ég vann í eitt ár eftir þetta og sótti svo um á landbúnaðarskóla í Noregi, því áhuginn á landbúnaðarmálum var mikill og bændalífið togaði alltaf í mig.“

Örlagaríkt símtal

Einn daginn þegar Sigert var á skólanum í Noregi fær hann símtal frá móður sinni sem segir að bróðir sinn, Hanus, móðurbróðir Sigert, sé orðinn svo slæmur af gigt að hann geti ekki séð um búskap á bóndabænum sínum, þá Hoyvíksgarði. Sigert segir þá að gamni sínu við móður sína að ef hann gæti tekið við bóndabænum myndi hann koma heim. Tveimur dögum seinna fær hann örlagaríkt símtal frá móður sinni og Hanus. Þar er Sigert boðið að taka við bóndabænum af móðurbróður sínum á Hoyvíksgarði. Sigert segist ekki hafa hikað eina sekúndu og tók strax ákvörðun um að taka við sveitabænum og flutti því fljótlega aftur heim til Færeyja þegar skólanum lauk. Þarna var því framtíðin ráðin, Sigert var orðinn bóndi 24 ára gamall og þetta var því örlagaríkt símtal til hans, ungs nema á landbúnaðarskóla í Noregi. Kona Sigert, Alika, kemur inn og sest hjá okkur við eldhúsborðið í fallegu húsi þeirra. Við fáum okkur te og köku saman. ,,Ég kynntist Aliku milli jóla og nýárs árið 2007 og hún flutti til Færeyja árið 2008 og við giftum okkur árið 2009,“ og það ljómar af Sigert og Aliku. Þau eiga þrjú börn saman. Alika er ættuð frá Grænlandi og ólst upp á Grænlandi til tíu ára aldurs en bjó í Kaupmannahöfn þegar hún og Sigert kynntust. ,,Það er gaman að segja frá því að ég hafði alltaf dálæti af húsum með grasþaki sem ung stelpa og langaði að búa í þannig húsi og örlögin hafa síðan valdið því að ég bý núna í Færeyjum, gift færeyskum manni og hér búum við saman á sveitabæ í húsi með grasþaki.“

Möguleikar í landbúnaði

Færeyjar var áður fyrr að mestu landbúnaðarland og svo tók sjávarútvegurinn við en Færeyingar eru allmargir tengdir landbúnaði á einhvern hátt. Eftir kristnitöku var eignarhald jarða í Færeyjum í höndum kirkjunnar og síðan voru þetta konungsjarðir, þegar danski kóngurinn yfirtók það frá kirkjunni. Nú eru það stjórnvöld sem eiga mestan part af jörðunum. ,,Þó að margt sé breytt þá eru það yfirvöld sem oft hafa síðasta orðið varðandi jörðina og það er eitthvað sem mér líkar ekki við og myndi vilja breyta og vil meina að sá sem ber ábygð á jörðinni, bóndinn sjálfur, ætti að hafa meira að segja í ákvörðunum.“ Talið berst að því hvar möguleikar liggi í nýjungum tengdum landbúnaði í Færeyjum. Sigert nefnir að um tíma var farið af stað með gróðurhúsaframleiðslu í Færeyjum, þar sem meðal annars voru ræktaðar gúrkur, tómatar og annað grænmeti ,,en það bar sig ekki því erfitt var fyrir grænmetisræktendur að keppa við ESB-styrkt innflutt grænmeti í matvöruverslunum og því lagðist það af, því miður. En þar eru svo sannarlega möguleikar, framtíðarmöguleikar.“

Nú til dags í Færeyjum eru mestir styrkir til mjólkurframleiðslu, þ.e. til kúabúa. Mjólkin er styrkt um 50–60 aura á per lítra, og sömuleiðis er ræktun á heyi styrkt að einhverju leyti. Aftur á móti eru engir styrkir í sauðfjárrækt.

Sigert hefur til margra ára verið formaður Bóndafélags Føroya og fylgist því vel með gangi mála í Færeyjum og í löndunum í kring. Framleiðslustyrkir séu til staðar eins og er á hinum Norðurlöndunum. Bændur í Færeyjum fá enga styrki frá Evrópusambandinu, enda ekki meðlimir í ESB. Sjóðir eru til staðar í Færeyjum fyrir bændur að sækja styrki í. Þegar ríkið selur land fer hluti sölunnar í sjóð sem bændur geta sótt styrki í til framkvæmda við býli sín, til viðhalds og bygginga á jörð eða til ræktunar.

Talið berst aftur til lífsins á sveitabænum í Hoyvíksgarði. ,,Ég hef alltaf mikla ánægju af bóndastarfinu og því að sjá þá vinnu sem maður leggur inn verða að einhverju, að sá vinnunni og síðan uppskera. Þetta er gefandi starf, hér er afar gott að ala upp börn og við njótum þess að vera bændur og búa hér í þessu fallega umhverfi.“ Börnin hafa gaman af hestamennsku og Sigert segist brosandi hafa reynt að sjarma Aliku með hestatúr þegar þau voru að kynnast. Það að fara á hestbak á góðum sumardegi eða sumarkvöldi norður eftir fjalllendinu er engu öðru líkt, yndislegt og mikil lífsgæði.“

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f