Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Vatnajökulsþjóðgarður rekur gestastofu í húsnæði sem áður hýsti Hótel Gíg og skóla þar áður.
Vatnajökulsþjóðgarður rekur gestastofu í húsnæði sem áður hýsti Hótel Gíg og skóla þar áður.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 9. janúar 2024

Náttúruvernd helsti fókusinn

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Fjölbreytt starfsemi er á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs. Mesta álagið er á sumrin, en veturnir eru ekki dauður tími fyrir heilsársstarfsmenn. Landverðir sinna náttúruvernd náttúrunnar vegna.

Stefanía Eir Vignisdóttir.

„Við erum uppi á hálendi þangað til við þurfum ekki að vera lengur. Við förum gjarnan til byggða þegar snjórinn kemur og það verður ófært,“ segir Stefanía Eir Vignisdóttir, aðstoðarþjóðgarðsvörður á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Það sé alltaf matsatriði hvenær landverðir fari af svæðinu, því það sé oft svokölluð jaðartraffík langt fram eftir hausti. Í ár var svæðið yfirgefið í lok september, en lengst hafi landverðir verið fram í miðjan október. Síðustu dagarnir fari í að loka húsum, setja hlera fyrir glugga, blása úr lögnum, tæma moltusalernin og standsetja allt fyrir vorið svo starfsemin geti hafist um leið og landverðir komi næsta sumar.

Stefanía er ekki eini aðstoðarþjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs, heldur er hvert svæði með sinn þjóðgarðsvörð og aðstoðarmann. Þetta eru heilsársstörf og segir Stefanía veturinn ekki vera rólegheitatíma því þá sé nóg að gera í utanumhaldi, á meðan sumrin snúist um að halda sér á floti. Nú sé til að mynda verið að uppfæra stjórnar- og verndaráætlun, gera ný upplýsingaskilti, vinna að uppbyggingu nýrrar gestastofu og fleira. Hennar starfssvæði er hálendið norðan Vatnajökuls og er hún með starfsaðstöðu við Mývatn.

Gestastofa í gamla Skútustaðaskóla

Lengi stóð til að byggja nýtt hús undir gestastofu við Mývatn, en árið 2021 keypti ríkið Hótel Gíg, sem áður var Skútustaðaskóli, með því sjónarmiði að nýta húsnæðið undir starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs, Umhverfisstofnunar og fleiri stofnana á svæðinu.

Stefanía segir sumarið hafa heilt yfir gengið vel. Eitthvað var um utanvegaakstur og var merkilega mikil aukning á ferðafólki á mótorhjólum. Nokkur slys hafi orðið á vélhjólafólki, enda yfirborð veganna oft sendið og alls ekki auðvelt yfirferðar á bifhjólum.

Veðrið hafi verið einstaklega gott í byrjun sumars, en þegar hitabylgjan gekk yfir hafi tíðarfarið verið hálf dapurlegt. Í sumar hafi verið aukning á ferðamönnum eftir að fjöldi þeirra féll í heimsfaraldrinum. Þó sé ekki eins mikil aukning uppi á hálendinu eins og á láglendi. „Það var nóg af fólki, en ekkert brjálæði.“

Landverðir hafsjór upplýsinga

Stefanía starfaði sjálf sem landvörður frá 2009 til 2020. Aðspurð um hvernig upplifunin sé af starfinu segir hún að það sé ólíkt eftir svæðum, sérstaklega á milli þeirra sem starfi á láglendi eða hálendi.

„Eins og ég upplifði mig, þá er þinn helsti fókus náttúruvernd,“ segir Stefanía, þótt starfið feli líka í sér að gæta að öryggi fólks. Hún vill hvetja fólk sem ferðast um þjóðgarða landsins til þess að tala við landverði þar sem þeir búi yfir miklum upplýsingum. Þá séu skipulagðar reglulegar fræðslugöngur yfir allt sumarið og sé hægt að nálgast dagskrána á heimasíðu þjóðgarðsins.

Landverðirnir á norðursvæðinu eru með aðsetur í Öskju og Herðubreiðarlindum þar sem mesta aðsóknin er. Til að sinna betur Gæsavatnaleið, Dyngjufjallaleið og Dyngjufjalladal eru jafnframt einn eða tveir landverðir sem fari um svæðið á bíl með tjaldi á pallinum og gisti í tvær nætur.

Að jafnaði eru fimm til sex landverðir að störfum í einu, en samtals eru þrettán á norðursvæðinu sem skipta með sér vöktum. Vinnutarnir séu að hámarki tuttugu og einn dagur í einu, en yfirleitt eru þær tvær vikur. Áður fyrr var fólk oft lengur á vaktinni, en Stefanía segir starfið geta verið slítandi.

Lítið samfélag

Stefanía segir aðstöðu landvarða í Dreka, rétt hjá Öskju, vera sérstaklega góða. Landverðirnir reyni að halda uppi sínu litla samfélagi, ýmist með að elda eða fara í göngur, en svo sé fólk líka oft uppgefið í lok dags. „Við erum svo fjarri allri þjónustu að við getum ekki gert annað en að njóta umhverfisins og hvert annars.“ Landverðir hverfi svo til misjafnra starfa á veturna. Þetta sé fólk á öllum aldri og sumir séu nemar, á meðan aðrir eru kennarar eða sjálfstætt starfandi í ýmsum geirum.

Einkennisfatnaður landvarða minnir að sumu leyti á klæðnað viðbragðsaðila. Aðspurð segir Stefanía nokkuð blendnar tilfinningar um einkennisbúninginn, enda skjaldarmerkið mjög áberandi og ekkert endilega augljóst að sá sem honum klæðist sé landvörður en ekki lögregla. Stefanía segir þá ekki hafa valdheimildir, en taki skýrslur af fólki sem sé staðið að utanvegaakstri, sem séu svo sendar til lögreglu, sem vinni málið áfram.

Landverðir eru með fræðslugöngur mjög reglulega yfir sumartímann.

Hægt að tryggja innviði

Aðspurð af hverju þjóðgarðar séu mikilvægir, segir Stefanía að með þeim sé hægt að tryggja að allir innviðir séu í lagi, að það sé utanumhald og einhver yfirbygging. Hún nefnir sem dæmi að ef eitthvert náttúrufyrirbrigði verður skyndilega ofurvinsælt, þá geti þjóðgarðurinn stokkið inn og byggt upp innviði til þess að vernda náttúruna.

„Þjóðgarður er ekki ferðaþjónustubatterí. Það allra síðasta sem þjóðgarðar fara að gera er að búa til einhvern massatúrisma. Þetta snýst meira um að náttúran sé þarna og svæðið sé verndað náttúrunnar vegna,“ segir Stefanía.

Nokkrir hópar hafi verið sérstaklega gagnrýnir á stækkun þjóðgarðs á hálendinu, en hún segir samhljóm andstæðra fylkinga vera meiri en flestir telji.

Geimfarar við æfingar

Þótt venjulegt ferðafólk sé stærsti hópurinn sem komi í Öskju og Herðubreiðarlindir, þá segir Stefanía líka algengt að vísindafólk sinni störfum þarna. „Það er svo skemmtilegt við norðurhálendið hvað þetta er mikið rannsakað svæði, og ekki minna núna þegar Askja er að rísa.“

Undanfarin ár hafi verið mikið af starfsfólki NASA við geimrannsóknir. Í fyrrasumar hafi könnunarjeppi, sem er ætlað að ferðast um yfirborð Mars, verið við prófanir og í sumar voru gerðar tilraunir með flygildi sem muni vinna með áðurnefndum jeppa. Bíllinn var látinn keyra um í sandi á meðan honum var fjarstýrt úr mikilli fjarlægð.

„Í fyrra voru þau sem eru í þjálfun til að fara til geimsins með geimbúninga. Þau voru að æfa sig í að ganga, taka sýni og bera hitt og þetta,“ segir Stefanía. Þessi NASA- teymi gefi jafnframt mjög mikið af sér og var starfsfólkinu á svæðinu boðið í grillveislu þar sem þau fengu fræðslu um hvað þau væru að gera. Þá var geimfarinn Jasmin Moghbeli við þjálfun við Dreka fyrir tveimur árum, en núna er hún við störf í Alþjóðlegu geimstöðinni. Stefanía segir þetta skemmtilegt í ljósi þess að tunglfararnir æfðu þarna á sjöunda áratugnum og sagan sé því orðin löng.

Mars-Rover jeppi við prufanir á hálendinu í nágrenni Öskju

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...