Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hörður Bender, hvítlauksræktandi í Austur-Landeyjum. Hann mun vera sá fyrsti þeirrar tegundar á Íslandi, með um fimm hektara undir ræktunina. 
Hörður Bender, hvítlauksræktandi í Austur-Landeyjum. Hann mun vera sá fyrsti þeirrar tegundar á Íslandi, með um fimm hektara undir ræktunina. 
Mynd / smh
Líf og starf 27. október 2020

Fyrsti íslenski hvítlauksakurinn er á Efri-Úlfsstöðum í Austur-Landeyjum

Höfundur: smh

Á Eftri-Úlfsstöðum í Austur-Landeyjum var á dögunum einu og hálfu tonni af hvítlauksgeirum plantað út í fimm hektara land, sem vonast er til að skili 10 tonnum næsta sumar.  Þetta mun vera fyrsta hvítlauksræktunin hér á landi sem er af slíkri stærðargráðu.

„Já, það er rétt – ég er með vottorð upp á það frá RML að þetta er tímamótaverkefni,“ segir Hörður Bender hrossa- og ferðaþjónustubóndi þegar hann tekur á móti blaðamanni. 

Uppskeran úr matjurtagarðinum er falleg frá því í sumar. Mynd / Aðsend

Hvítlauksræktun var áhugamál áður

Þegar halla fór undan fæti í ferðaþjónustunni, skaut hugmyndinni um hvílauksræktun upp í huga Harðar og konu hans, Þórunnar Jónsdóttur, en kjöraðstæður eru fyrir slíka ræktun í Landeyjum. Þau hjónin búa að svolítilli reynslu af hvítlauksræktun og annarri garðyrkju – sem gaf þeim góðar vonir fyrir slíka ræktun á stærra landsvæði.  

„Við hjónin höfum lengi haft áhuga á garðrækt og höfum verið að fikra okkur áfram á því sviði.  Svo er það einn daginn að konan fer á fyrirlestur um hvítlauksrækt hjá Garðyrkjufélagi Íslands og kemur heim með hvítlauk til útsæðis.  Við settum þessa lauka niður í lífræna grænmetisgarðinn okkar og fengum þessa ágætis uppskeru.  Okkur fannst þetta bæði spennandi og skemmtileg ræktun fyrir utan hvað okkur fannst bragðið af þeim svo miklu betra og meira en af þeim kínverska hvítlauk sem fæst í kjörbúðinni,“ svarar Hörður þegar hann er spurður um ástæður þess að hann fékk áhuga á þessari tegund akuryrkju.  

Útplöntun hvítlauksgeira á akrinum á Efri-Úlfsstöðum. Agnar Páll Pálsson á traktor og Hörður Bender fylgist með.

Búinn að undirbúa jarðveginn

„Það var svo þegar COVID-19 skellur á og það varð ljóst að dagar mínir sem ferðaþjónustubónda væru taldir, í bili að minnsta kosti, að ég fór að hugsa út fyrir rammann. Upp kom í hugann mikilvægi sjálfbærni Íslands í matvælaframleiðslu og um leið öll þau tækifæri sem landgæði Landeyjanna hafa upp á að bjóða. Þá þróaðist þessi hugmynd um tilraun til hvítlauksræktunar fyrir íslenskan markað.

Þegar við hjónin vorum að skoða þennan möguleika þá sökktum við okkur í rannsóknarvinnu og höfum lesið allt um hvítlauksræktun í Skandinavíu sem við höfum komist yfir, auk þess að leita ráða hjá hvítlauksræktendum í Svíþjóð, Danmörk og Frakklandi. 

Það situr í mér fyrirlestur sem forstjóri stærsta ráðgjafarfyrirtækis heims hélt hér á landi fyrir nokkrum árum og talaði um þau mögnuðu tækifæri sem Ísland hefði til matvælaframleiðslu.  Eftir að ég fór að skoða þetta af alvöru sé ég tækifæri alls staðar í útiræktun og vona að með þessu frumkvæði eigi fleiri eftir að prófa aðrar tegundir sem við höfum ekki verið að rækta að ráði áður. Það er ljóst að Íslendingar vilja borða íslenskt grænmeti og með fjölbreyttara framboði frá bændum munum við styrkja ferlið frá bónda til borðs.“

Vélina til útplöntunarinnar keypti Hörður frá Póllandi, en hún er að hans sögn afar skilvirk og þarf mannshöndin lítið að koma þar til aðstoðar.

Sex yrki til prófunar

Hörður segir að ætlunin sé að prófa sex mismunandi yrki af hvítlauk í þessum tilraunaáfanga, sem þau hafa keypt frá Svíþjóð, Danmörku og Frakklandi. „Þetta eru allt harðgerð yrki sem við höfum valið og munum svo velja áfram þau sem standa sig best hér á Íslandi. Það eru til yfir 500 yrki af hvítlauk í heiminum þannig að þessi tilraun er rétt að byrja og eflaust til fleiri yrki sem virka vel á Íslandi. Við stefnum á að hafa hluta ræktunarinnar lífræna en það er hægara sagt en gert að komast yfir góðan lífrænan áburð,“ segir hann. 

Honum finnist hvítlaukurinn sem þau ætli að rækta mun bragðbetri en sá sem fæst í íslenskum verslunum. Við erum ekki komin svo langt að ákveða verðið á lauknum en það verður í samræmi við aðrar vörur á grænmetismarkaðinum. Já, við eigum nóg land til að rækta allan þann hvítlauk sem Íslendingar vilja.“

Hestamennska og ferðaþjónusta

„Hörður er uppalinn í Breiðholti og kynntist konunni sinni strax í barnaskóla.  „Við eigum fimm börn sem enn búa öll hjá okkur. Eftir menntaskóla fór ég í háskólanám til Bandaríkjanna þar sem ég lærði fjölmiðla- og stjórnmálafræði og tók svo meistaranám í alþjóðaviðskiptafræðum í Heidelberg, Þýskalandi.  Strax sem ungur maður hafði ég mikinn áhuga á sveitinni og réð mig strax 12 ára sem hestasvein að Ögmundarstöðum í Skagafirði.  Það var þó ekki fyrr en við Þórunn fórum að búa saman að ég byrja í hestamennsku af fullum krafti.  Konan mín hefur verið viðloðin hestamennsku alla tíð.  

Eftir námið starfaði ég hjá Icelandair í Skandinavíu en árið 1999 stofnaði ég mitt fyrsta fyrirtæki sem var internet ferðaskrifstofa í Svíþjóð.  Það var í frumkvöðlaumhverfinu í Stokkhólmi sem ég fann mína köllun sem frumkvöðull og hef starfað sem slíkur síðan. Í Skandinavíu starfaði ég bæði innan ferða-, tækni- og fjármálageirans. Eftir að ég flutti til Íslands hef ég meðal annars komið að stofnun Hvalasafnsins á Granda, fjármálafyrirtækisins Faktoria og ferðafyrirtækisins MrIceland sem ég hef starfað við undanfarin ár.  Á vegum ferðafyrirtækisins fór ég með fólk í fjallgöngur og jóga en svo einnig hestaferðir.  Ég fékk marga frábæra gesti til mín sem hvöttu mig til að tengja meira saman jóga og hestamennskuna, sem ég gerði og varð til þess að ég fór að bjóða upp á ferðir þar sem við fórum bæði í innra jafnt sem ytra ferðalag.  

Eins og ég hafi alltaf verið hér

„Það var í raun tilviljun að við festum kaup á jörðinni Efri-Úlfsstöðum en skyldmenni konunnar minnar eru hér víða í kring og við þekktum svæðið því vel. Þó að heimilið okkar sé enn í Mosfellsdalnum þá starfa ég hér á Efri-Úlfsstöðum og held að það sé ljóst að okkur var ætlað að vera hérna í Landeyjunum – stundum finnst mér eins og ég hafi alltaf verið hérna.“ 

Í fyrstu atrennu slíkrar ræktunar er hjálp frá fjölskyldunni ómetanleg við það að brjóta upp hvílauksgeirana fyrir útplöntunina. Hér eru Ragnhildur Bender og Karl Kristján Bender.

Ásta Kristjánsdóttir lét ekki sitt eftir liggja.

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...