Ár öryggis og frelsis
Líf og starf 28. desember 2025

Ár öryggis og frelsis

Völva bændablaðsins hefur nú kastað beinunum enn á ný og lesið í stjörnurnar fyrir komandi ár. Verndarhjúpur umlykur stjörnumerkin á árinu 2026 sem helst í hendur við þær tilfinningar sem dýrmætastar eru öllum lifandi verum. Öryggi og frelsi. Frelsi til að vera maður sjálfur, frelsi til að fallast hendur, frelsi til að finna það sem maður leitar að. Öryggið til að taka af skarið, öryggið til að vita að maður verður gripinn og öryggið til að standa keikur. Lagt er til að sem flestir endurmeti líf sitt, láti af gömlum mynstrum sem þjóna þeim ekki lengur, en tileinki sér fremur nýjar leiðir til að tengjast sjálfum sér og öðrum. Orka nýs árs er bæði spennandi og krefjandi en býður að sama skapi upp á tækifæri til persónulegs þroska. Vera leiðandi í eigin lífi, óhræddur og þora að kanna ýmsa óhefðbundna möguleika.

Bon Voyage!

Vatnsberi

Vatnsberinn mun leika á als oddi á nýju ári, hopp og hí verða hans einkunnarorð. Hann mun gleðja alla í kringum sig, bæði með galsalátum en einnig munu hans nánustu sjá að lífið leikur svo sannarlega við hann. Nú er upplagt að gera drög að öllu því ævintýralega sem Vatnsberinn sér fyrir sér að gera á æviskeiðinu hvort sem það er að uppfylla persónulega drauma eða draga upp penslana og herma eftir Bob nokkrum Ross sem frægur er fyrir vatnslitun – og má m.a. finna á netinu. Nú, engin lognmolla verður í kringum vatnsberann en öll verkefni munu takast með hreinum ágætum, hvort sem um ræðir stór eða smá. Ástarmálin eru á uppleið eftir svolitla stöðnun í þeim málum, þeir einhleypu munu finna sálufélaga sinn án þess þó kannski að þeir geri sér grein fyrir því – en það er brýnt fyrir þeim að hafa bæði augu galopin. Lofaðir vatnsberar eiga eftir að dýpka tengslin enn frekar við ástvini, en einnig þá sem standa þeim næstir. Árið 2026 verður vatnsberanum, í bland við ærslin, ár umbreytingar, sjálfstæðis og dýpri tengsla við sín innstu gildi og koma því á framfæri fyrir hvað hann stendur. Einhverjir vatnsberar munu stíga inn í ævintýrin sem gerð verða drög að og ákveða að ganga inn í skóginn án þess að hafa brauðmola í vasanum – því þó um einhverja óvissu sé að ræða þegar kemur að framtíðinni veit maður aldrei hvað hún ber í skauti sér! Og ekki er hægt að njóta þess vel að vera njörvaður niður á sama stað að ævilokum. 

Fiskur

Traust er orð ársins. Fiskarnir mega treysta því að guðir náttúru, himins eða helvítis haldi í höndina á þeim og leyfi þeim að standa og falla að vild. Fiskarnir verða gripnir og bornir í gegnum þær breytingar sem munu eiga sér stað, sama á hvaða æðri mátt þeir trúa. Jafnvel þó þeir trúi ekki á annað en sjálfa sig. Eitthvað verður um uppróstur eða hnökra á árinu sem er að hefjast en aðalatriðið er að fiskarnir slaki á og treysti því að lífið falli í réttan jarðveg. Einföldun allra mögulegra hluta þarf að íhuga og helst ganga í eftir fremsta megni. Til að mynda þegar kemur að mat og drykk, samböndum hvers lags, þankagangi, líkamsrækt, ferðalögum – bara ekki vera að flækja það sem þarf ekki að flækja. Losaðu þig við hluti sem eiga ekki lengur við, hættu að tala við þá sem veita þér ekki hamingju. Það gerir engum gott hvorki á sál né líkama. Elskaðu heitt þá sem eru þér kærir, borðaðu góðan og einfaldan mat, njóttu stundarinnar. Jarðtenging er svo annað sem þarf að hafa bak við eyrað enda öllum lifandi verum nauðsynleg. Því ættu fiskarnir að þramma berfættir í mjúkri gróðurmold eða vaða læki. Standa um stund í snjóskafli eða jafnvel taka upp sjósund. Árið og þær breytingar sem nú ganga í garð verða hvað giftusamlegastar á lífsferli fisksins. Þetta gæti komið nokkrum á óvart, enda fiskarnir eitt heilladrýgsta merkið, en vei, ó vei, ævintýrin eru rétt að byrja. Stjörnurnar skína skært, nú 2026, og skulu fiskarnir baða sig í skini þeirra, jafnvel með stjörnuljós í hendi til að auka á bjarmann. Jafnvel berfættir. 

Hrútur

Þolinmæði birtist völvunni hér fyrir árið 2026. Sem er ein leiðinlegasta dyggðin að mati hrúta, enda einna óþolinmóðasta merkið. Hrútar líta svo á að málin eigi að ganga upp án þess að þeir þurfi mikið fyrir því að hafa – sem gengur oftast eftir – enda hrúturinn einkar skýrt og útsjónarsamt merki. Það kemur þó að því líkt og hjá almúganum að þeir þurfa að staldra við og taka stöðuna. Sjá fyrir sér hver útkoman á að verða – í stað þess hvert hún í rauninni stefnir. Útkoman á hinum ýmsu málum í byrjun árs er nefnilega ekki á leiðinni í rétta átt því hrúturinn hefur í gassagangi sínum hlaupið yfir einhverja kafla síðastliðið ár. Því þarf hann að æfa sig í að stoppa. Svo þarf hann að æfa sig í að anda djúpt og fara vel yfir málin. Þetta á við flest svið lífsins, bæði í vinnutengdum verkefnum hrútsins sem og í samskiptum við hans innsta hring. Hrúturinn mun þó upplifa stöðugleika og festu í ástarmálunum þetta árið sem hann hefur þráð lengi og verður að gæta þess að þó hann upplifi einhvers konar leiða eða óvissu er það bara hluti af því að vera til. Hluti af því að elska annan en sjálfan sig. Hrútnum er nefnilega sjálfselskan svolítið töm og þyrfti helst að hlaupa nokkrum sinnum á vegg til að hrista upp í heilabúinu. Með orð ársins, þolinmæði, í huga eru ýmis verkefnin sem þarf að ganga í gegnum. Fyrst og fremst að fikra sig niður af stallinum, næst væri gott að líta yfir farinn veg og hvað hefði mátt betur fara, laga það sem hægt er og leyfa sér að skalla vegginn við og við. Hrútarnir eru þó allra merkja velviljaðastir og munu stjörnurnar launa þeim góðverkin.

Naut

Nautið þarf að hverfa aftur til upprunans. Á lífsleiðinni hefur það gengið í gegnum ýmsar þrautir og þungstigið sem það er, vilja leiðindin oft festast við iljarnar á þeim. Í jógafræðunum og fræðum ljóss og lífs er kurteislega bent á að iljarnar séu upphaf alls og sem flestum ráðlegt að gæta þess vel hvar stigið er niður fæti. Losa sig við sokka og skó sem oftast og vaða í lækjum eða njóta þess að finna jörðina kjarna sjálfið. Nú, aftur að upprunanum. Nautið þarf að finna gleðina í hjartanu og leikinn, leyfa sér að láta eins og barn. Leyfa sér að verða hrifið, hlæja og gleðjast, allt hið góða áður en það festist í því formi sem það nú er. Form eru nefnilega gerð af umhverfinu í kringum okkur og móta einstaklinginn eins og hann á að vera. Sitja og standa á vissan hátt með forug leiðindin upp að ökklum. En nú er lag. Nautið, sem er reyndar eitt meðvirkasta merkið, á mjög erfitt með að hegða sér ekki eins og öðrum þykir, en stendur nú frammi fyrir þeim ósköpum að verða að þvo fæturna vel og finna gleðina streyma um líkamann. Muna og tileinka sér allt hið góða og gleðilega sem fór um hugann á yngri árum og velja lífið á ný. Velja sjálft sig og bursta rykið af öllum ævintýrunum. Einhverjir draumar eru örugglega geymdir í aftursætinu líka þannig nú er bara að duga eða drepast! Enga lognmollu lengur, naut, finndu allar skemmtilegu sparitilfinningarnar og spúlaðu á þér iljarnar. Ástarmálin, peningarnir, gæfan og gamanið eru tilbúin að banka upp á ef þú bara hleypir þeim inn. Frelsaðu sjálft þig.

Tvíburi

Einkunnarorð tvíburanna á komandi ári er ró. Þeir þurfa að vera heimakærari og hætta að vera svo ofvirkir að litlu hlutirnir í lífinu fari gjörsamlega fram hjá þeim. Nú er kominn tími til að temja öll ærsl og læti en velja fremur ró í sálu og hjarta. Þetta hljómar drepleiðinlega í eyru 80% tvíbura, en þeir geta huggað sig við að á árinu 2027 verða ærsl og læti í forgrunni. Nú, á komandi ári, þurfa þeir hins vegar að kippa í taumana á sjálfum sér og tileinka sér kundalinimöntruna Ong namo guru dev namo (eða skv. google translate: „Ég beygi mig fyrir hinum fíngerða guðdómlega kennara innra með mér.“) Taka eitt skref aftur á bak fyrir hver tvö sem þeir æða áfram og hreinlega æfa sig í að vera rólegir, nægjusamir og athugulir – algerlega öfugt við þeirra náttúrulega eðli. Þeim tvíburum sem tekst þetta sem skyldi munu fá óvænt verðlaun. Engan skafmiða samt, heldur felast verðlaunin í dýpri og lengri svefni, lægri blóðþrýstingi og allt í einu munu þeir finna lyklana akkúrat þar sem þeir lögðu þá frá sér í stað þess að þjóta um æpandi á sína nánustu í tíma og ótíma við leitina. Ýmislegt sem þeir töldu glatað ratar til þeirra, bæði hlutir, almenn vellíðan og ekki síst viska hins þögla. Þeir tvíburar sem ná að mastera þennan áfanga munu fara leikandi létt með lífið fram undan. Kunna að stramma sig af í ólgusjó og sjá lífið í skýrara ljósi. Tvíburarnir eru eitt líflegasta, skarpasta og skemmtilegasta merkið, ekki síst ef þeir ná stjórn á hvirfilbylnum innra með sér – og bestu verðlaunin eru að með innri ró brennur lífskertið hægar.

Krabbi

Krabbinn líkt og nautið þarf að leyfa sér að vekja aftur þær góðu tilfinningar sem hann upplifði hér áður fyrr, frelsi til að vera nákvæmlega eins og hann vill án nokkurs efa. Lífið er stutt þannig nú er ágætt að gefa blessaðri rútínunni svolítið rafmagnsstuð. En ekki líst öllum á þetta við fyrstu lesningu. En það er allt í lagi. Krabbinn þarf svolítið að gera upp við sig hvernig hann vill að lífssagan hans sé. Innbundin bók með bröndurum á hverri síðu, dramatísk hrollvekja eða metsölubók ársins. Mörgum kröbbum þykir þægilegast að hjakka í sama farinu, grafa sig í sandinn en það má velta fyrir sér hvort hægt sé að taka einhver hliðarspor hér og þar. Hvar býr frelsið? Hvað get ég leyft mér? Hvað vil ég leyfa mér? Þetta þarf að finna út úr, ekki seinna en um miðjan aprílmánuð því þá fara stjörnurnar að snúa á aðra braut. Krabbinn skal þó gefa sér tíma til að velta þessu vandlega fyrir sér, en hreinskilnislega sagt ætti hann bara að láta slag standa. Láta reyna á hvernig fer. Nú, það verður mikið um að vera á framabraut krabbans á nýju ári þannig það er því miður ekki hægt að segja að 2026 verði rólegt. Allar ákvarðanir um að skipta um vinnu fara vel, öll skref til framgangs skal stíga og krabbarnir mega einnig eiga von á ríkulegri fjárhag þegar líða tekur á árið. Heilt yfir þarf krabbinn að losa um einhverja ósýnilega fjötra, stíga hliðarsporið, stinga fingrunum í rafmagnsinnstunguna og lita aðeins í lífssögubókina sína. Ekki síst út fyrir.

Ljón

Ljónið þarf að æfa traust. Ljónið hefur gaman af sviðsljósinu eins og marg oft hefur verið sannað en á það til að missa tökin vegna þess að ljósin á sviðinu eru farin að grilla þau svolítið. Það er óskaplega slæmt að verða blindur á báðum en bera samt ábyrgð á sjálfum sér. Ljónið þarf að hafa þetta einstaka spakmæli í huga. Annars hefur það staðið sig með ágætum þetta ár sem er að líða, en þarf að hleypa öðrum að sér og treysta því að um það standi stærri hringur en ætla mætti. Þótt ljónið sé konungur dýranna getur það lítið eitt og sjálft. En nóg um það. Árið 2026 verður viðburðaríkt, líkt og ljónið sé aðalpersónan í bíómynd þar sem plottið breytist á fimm mínútna fresti. Nýja árið verður sem sé róttækt en uppbyggilegt, með stöðugum breytingum sem koma misskemmtilega á óvart – en heilt yfir hjálpa því að efla sjálfstraustið. Aukin einbeiting og þolinmæði ljónsins koma því einnig að óvörum, það verður bara alveg hlessa með sjálft sig … en nær að setja skýrari mörk gagnvart fólki og verkefnum sem tæma lífsorkuna úr því. Dramatíkin er nefnilega ekki langt undan hjá þessu blessaða kattardýri sem þarf að æfa sig í því að hlutirnir eru ekki bara ofsalega svona eða ofsalega hinsegin. Það er þarna alls konar annað inn á milli. Jæja, eins og kom fram í byrjun þarf ljónið að setja traust í forgang. Treysta öðru fólki, treysta sjálfu sér og þora að vera heiðarlegt við sjálft sig og aðra. Fjármálin verða í skárra jafnvægi ef ljónið sleppir öllum skyndiákvörðunum. Heilt yfir mun ljónið skapa sér meiri stöðugleika, klárar árið á því að verða sterkara og öruggara en áður í sjálfu sér sem mun þá gefa á báða bóga.

Meyja

Meyjan er eins og nýútsprungin rós þetta árið, hún er loksins að ganga inn í tíma jafnvægis og festu þess hver hún virkilega er og fyrir hvað hún vill standa. Undanfarna mánuði hefur meyjan verið að máta sig í ýmis hlutverk, finna sjálfa sig svolítið hér og þar og nú komin að niðurstöðu. Árið 2026 gefur henni kjark til þess að stíga föstum skrefum til framtíðar, keik og stolt og í raun gefa sér leyfi til þess að vera sú sem hún sjálf vill vera. Þarna gefst óskaplega gott tækifæri til að finna sjálfstraustið fylla hjartað. Meyjan er æði. Það er í raun ekkert flóknara. Hún þarf ekki að láta neinn bilbug á sér finna, hún má vera alls óhrædd, vita að um hana er verndarhringur öryggis og einu skrefin sem hún þarf að stíga eru áfram og það á þeim hraða sem hentar best. Meyjan þarf líka að njóta þeirrar vissu að hennar nánustu standa henni afar nærri ef eitthvað bjátar á. Meyjan hefur verið dugleg að tjá tilfinningar sínar nú á árinu sem er að líða og skal halda því áfram, ekki síst að leyfa öðrum að heyra hversu mikils hún metur þá. Hún fær þetta allt tífalt aftur með tilkomu karmans sem umlykur þá sem trúa … og reyndar einnig þá sem trúa ekki. Árið sem brátt hefur göngu sína verður eitt hið besta í lífi meyjunnar, hún stígur inn í sjálfa sig sem aldrei fyrr og þó hún hrasi í pilsfaldinum eru ótal hendur í kring sem milda fallið. Það verður allt allt í lagi. Meyjan má í raun líta á sig sem Súperman, og þó hann fari nú í nærbrækurnar yfir allt annað, þá er hann einmitt nákvæmlega eins og hann vill vera. Enda veit hann nákvæmlega hver hann er og fyrir hvað hann stendur. (Það kemur kannski ekki á óvart að Súperman er akkúrat í meyjarmerkinu, fæddur 22. september.)

Vog

Vogin hefur gengið í gegnum einhverjar þrautir á árinu og hún þarf eiginlega að leyfa sálinni sinni að fá svolitla ró. Friður og næði innra með sér er eitthvað sem vogin þarf að leggja áherslu á, á nýju ári, enda gengur lífið erfiðlega með stein í hjartanu eða maganum. Ekki síst ef hinn ærslafulli hugur vogarinnar vill fá að njóta sín. Vogin má, líkt og fleiri stjörnumerki, trúa því að um hana er vernd og hún getur því óhrædd slakað á og verið hún sjálf. Vogin er bæði fyndin og sjarmerandi þegar best lætur auk þess að vera óskaplega blíð og góð, helst við alla sem hún umgengst. Því er henni óskiljanlegt hvers vegna heimurinn getur verið grimmur. Þessu er víst lítið hægt að breyta, en best væri að vogin væri bara algerlega eins og hún helst vill vera, sama hvað öðrum finnst. Elska hennar og undur munu smita út frá sér og það er mjög mikið frelsi að geta leyft sér að vera til. Vogin mun auðgast á árinu, bæði munu fjármunir streyma að henni, en einnig flykkjast að henni vinir og aðdáendur. Hreyfing verður nauðsynleg og gæti dans komið þar sterkur til greina, þar sem ærsl hennar fá útrás, en einnig hin fíngerða ára. Heilt yfir þarf vogin að muna að hún er elskuð af vinum og fjölskyldu, aðdáendur hennar eru fleiri en hún getur talið og best af öllu, fyrir utan að dansa eins og vitleysingur, er að æfa sjálfstraustið. Trúa á sjálfa sig því hún er best. Og ástarmálin ganga auðvitað alveg dásamlega!

Sporðdreki

Sporðdrekinn telur sig gjarnan vita hlutina best. Hann jafnvel dáist svo innilega að sjálfum sér að unun væri á að hlýða – ef það væri eitthvert vit í öðru en að sækja spennitreyjuna. Jú, líkt og annar hver maður hefur Sporðdrekinn ýmislegt til brunns að bera. Að vera alvitur eða í guðatölu er annað og ekki á færi margra, jafnvel ekki þeirra sem fæddir eru í þessu merki. Árið 2026 mun koma sporðdrekanum virkilega á óvart í þessum efnum en að sama skapi mun hann reka sig á þá neyðarlegu staðreynd að hann hefur ekki alltaf rétt fyrir sér. Því er honum hollast að staldra við strax í upphafi nýs árs og taka stöðuna. Hætta að taka mark á já-fólki og gera heiðarlegt uppgjör við sjálfið. Gera það svo aftur. Jæja, neyðin kennir naktri konu að spinna eins og máltækið segir og þótt sporðdrekinn hafi verið í hlutverki keisarans í nýju fötunum um stund eru miklara líkur á að hann átti sig og finni rokkinn. Bljúgur og auðmjúkur eru orð sem hann ætti að tileinka sér þegar hann situr við spunann og þá mun honum vel farnast á komandi ári. Þegar sporðdrekinn hefur tekið stöðuna þarna í upphafi árs mun einlægur kraftur hans aukast og hugmyndir hans hafa raunveruleg áhrif á aðra, sérstaklega þegar kemur að hópum eða verkefnum sem miða að framtíðinni. Ef vel er haldið á spöðunum mun seinni hluti ársins færa honum aukna innri ró og skýrari sýn á hvert stefnir, jafnvel aukið sjálfstraust og trú á að hann sé loks á réttri leið.

Bogmaður

Bogmaðurinn mun upplifa ástina, djúpt og innilega, á nýju ári. Þetta er spennandi enda er ástin til á svo marga vegu, í svo mörgum litum, gerðum og stærðum. Þarna getur hann fundið djúp tengsl við vini, hafið ástarsamband við sér eldri konu, fengið sér gæludýr eða elskað sjálfan sig svolítið meira. Reyndar er það skynsamlegasta og gæfulegasta ástarsambandið sem nokkur getur átt í og þarf að vera í forgangi. Tilfinningaríkur bogmaður getur notað næmni sína til að skilja sjálfan sig dýpra, en einnig til að skapa tengsl sem styrkja sjálfsálit hans í stað þess að draga það niður. Að elska sjálfan sig er ævintýri í sjálfu sér, og fyrir bogmanninn felst það í jafnvægi milli frelsis, tilfinninga og eigin sannfæringar. Hann þarf að muna að það er mikilvægt að læra að taka inn tilfinningar sínar, bæði þær ljúfu og þær erfiðu auk þess sem dagleg sjálfsumönnun er nauðsynleg. Og þá er spurningin, „BOGMAÐUR, hvernig sýnir þú sjálfum þér hversu elskuverður þú ert?“ Margir bogmenn eru matgæðingar og hugsa sér nú gott til glóðarinnar. En þá flækjast málin, því er það nú hollt og gott fyrir líkamann? Öðrum líður best fyrir framan spegilinn en verða að átta sig á því að útlitið er því miður ekki eitthvað sem endist. Kannski er þetta of snúið. En fyrir þolinmóða bogmenn er rétt að koma því að, að margt sem virðist ekki auðvelt í fyrstu, er bara æfing. Það má til dæmis skrifa niður ýmislegt til að koma auga á eigin gildi og styrkleika, setja mörk og þá frekar sjálfan sig í forgang þó það gefi manni stundum sting í magann. En það venst.

Steingeit

Steingeitin, öfugt við líðandi ár má nú anda léttar, því árið 2026 verður auðveldara en mörg áður – og hvernig allt fellur í réttar skorður mun koma henni skemmtilega á óvart. Gömul höft og allt sem hefur hamlað henni á einn hátt eða annan er best að sópa burt, EKKI undir teppi. Steingeitin mun líklegast þrjóskast við og vilja samt sópa alls konar drasli undir alls konar teppi. Það hefur virkað illa hingað til og hún veit það vel enda nokkuð skýr að eðlisfari. Erfitt líka þegar rykagnirnar fara að þyrlast upp undan teppinu. Nú jæja, steingeitin veit að fólk lifir sínu lífi alveg eins og hún sjálf og hún þarf ekkert að stjórnast af því sem öðrum finnst. Henni fer best að gera það sem henni finnst, hún veit hvað henni kemur best, en mætti vera aðeins meira til í tuskið í þegar kemur að sveigjanleika. Steingeitin mun svo eiga von á óvæntum uppákomum yfir komandi ár, öllum stórskemmtilegum nema einni þegar fer að hausta. Þá er gott að geta sest niður með allt hið góða sem árið hefur annars boðið upp á og festa hugann frekar við það. Hringur ástvina hennar er stærri en hún e.t.v. vill vona og þeir sem hafa á henni matarást eru enn fleiri. Ef til vill væri því ekki úr vegi að bjóða jafnöldrum sínum upp á matarbita við tækifæri því Amor skýtur víst örvum sínum oftar yfir mannsævina en mætti ætla. Allavega, með tilliti til nýs upphafs árið 2026 er ráð að grípa sópinn, losa sig við öll teppi og hreinsa út. Þá er hægt að taka stöðuna og sjá lífið fyrir sér að nýju. Hvernig mætti mögulega raða upp hlutunum. Parketleggja jafnvel.

Naðurvaldi

Stjörnufræðingar víða um heim, bæði hjá NASA og eins og lesa má á vefsíðu Stjörnufræðivefsins, vilja meina að í raun séu stjörnumerkin þrettán. Kemur það til vegna stöðu mönduls jarðar, eða pólveltunnar sem tekur um 26.000 ár og því eru stjörnumerkin sem sjá má á himni ekki lengur á sama stað og fyrir þúsundum ára. Upphaflega höfðu Babýlóníumenn stjörnumerkin þrettán talsins og var naðurvaldi, stjörnumerki á miðbaug himins, eitt þeirra. Myndgerð naðurvalda er maður haldandi á höggormi, samanber grísku goðsögnina um guðinn og lækninn Asklepíos. Er naðurvaldi ríkjandi frá 30. nóvember til 17. desember, þekktur fyrir eigingirni og öfundsýki, en einnig er hann litríkur og skemmtilegur persónuleiki auk þess að vera afar vel gáfum gæddur. Ef honum væri úthlutað varanlegt sæti meðal merkjanna myndu sæti hinna skarast sem svo svarar; Vatnsberi 16. febrúar til 12. mars, Fiskar 12. mars til 18. apríl, Hrútur 18. apríl til 14. maí, Naut 14. maí til 21. júní Tvíburi 21. júní til 20. júlí, Krabbi 20. júlí til 10. ágúst, Ljón 10. ágúst til 16. september, Meyja 16. september til 31. október, Vog 31. október til 23. nóvember, Sporðdreki 23. nóvember til 29. nóvember, Naðurvaldi 29. nóvember til 18. desember, Bogmaður 18. desember til 19. janúar, Steingeit 19. janúar til 16. febrúar. Eins og kemur hér glögglega fram eru tímatöl stjörnumerkjanna þrettán ekki jöfn að lengd, líkt og þau tólf sem nú ríkja – en í þeim virðist sólin ríkja um mánuð í senn.

Myndflöturinn logar
Líf og starf 28. desember 2025

Myndflöturinn logar

Bjart er yfir sýningu Eggerts Péturssonar í Hafnarborg. Sýningin heitir Roði en ...

Feðgin skrifa um réttir á Íslandi
Líf og starf 28. desember 2025

Feðgin skrifa um réttir á Íslandi

Feðginin Anna Fjóla og pabbi hennar, Gísli B. Björnsson, eru nú á fullum krafti ...

Húsfreyjan í Ytri-Hlíð lyfti grettistaki
Líf og starf 28. desember 2025

Húsfreyjan í Ytri-Hlíð lyfti grettistaki

Vopnfirðingurinn Oddný Aðalbjörg Methúsalemsdóttir vann á sinni tíð ötullega að ...

Ár öryggis og frelsis
Líf og starf 28. desember 2025

Ár öryggis og frelsis

Völva bændablaðsins hefur nú kastað beinunum enn á ný og lesið í stjörnurnar fyr...

Jól á fjöllum
Líf og starf 28. desember 2025

Jól á fjöllum

Íslendingar eiga sannkallaða jólasögu sem er Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson. Hú...

Hera og Gullbrá
Líf og starf 23. desember 2025

Hera og Gullbrá

Barnabókin hugljúfa, Hera og Gullbrá er eftir rithöfundinn Marínu Magnúsdóttur, ...

Sóknarrit fyrir húmanisma
Líf og starf 23. desember 2025

Sóknarrit fyrir húmanisma

Hlaðan eftir Bergsvein Birgisson er tímabært sóknarrit fyrir húmanisma (enda of ...

Aðstæður almennings á 19. öld
Líf og starf 23. desember 2025

Aðstæður almennings á 19. öld

Út er komin bókin Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld, ef...