Leitin að norrænum mönnum á Grænlandi
Valur Gunnarsson, rithöfundur og sagnfræðingur, gaf út fyrir skemmstu bókina Grænland og fólkið sem hvarf. Þar segir hann frá ferðalagi sínu til nágranna okkar í vestri á sama tíma og hann reynir að svara þeirri spurningu hvað orðið hafi um byggð norrænna manna á Grænlandi.
Hann er þekktastur fyrir bækur þar sem hann fjallar um lönd í austanverðri Evrópu, eins og Bjarmalönd, Stríðsbjarmar og Berlínarbjarmar. Í samtali segir Valur það bæði hafa verið tilviljun, en einnig rökrétt framhald að vinda sér til Grænlands við gerð bókar. „Allt tengist þetta, því að annars staðar hef ég fjallað um allt það svæði sem víkingar byggðu, sem nær allt frá Grænlandi og niður til Kænugarðs.“
Þáði heimboð á Grænlandi
Valur segir hinn íslenska Stefán, sem stundar hreindýrabúskap á Grænlandi, hafa lesið bókina Stríðsbjarma og hrifist svo mikið að hann bauð Vali í heimsókn án þess að þeir hafi þekkst áður. Í áðurnefndri bók talar Valur mikið um baráttu sína við aukakílóin, reykingar og aðra ósiði og sagði Stefán afskekktan sveitabæ á Grænlandi kjörinn stað til að venja sig af slíku. Nýtti Valur þetta boð til að kanna nágranna okkar í vestri nánar.
„Það hlaut að koma að því fyrr eða síðar að ég myndi takast á við þessa mestu ráðgátu Norðurlandasögunnar. Það er mjög hæpið að hún verði einhvern tímann fyllilega leyst,“ segir Valur um þá spurningu um hvað hafi orðið um norræna menn á Grænlandi. „Það var mögulega efnahagshrun – kannski aðallega af því að eftirspurn á verslunarvörum minnkaði svo mikið í Noregi út af svartadauða þar. Það gæti hafa komið plága, en það er mjög hæpið að svartidauði hafi komist yfir til Grænlands, en þá hefði hann átt að koma frá Íslandi og svartidauði gengur yfir hérna 1404 og þá er enn þá byggð á Grænlandi,“ segir Valur.
Spor norrænna manna ófundið
Eins sé fræðilegur möguleiki að norrænir menn hafi tekið sig upp og siglt frá Grænlandi. „En Íslendingar skrifuðu allt niður í annála og finnst mér líklegt að það hefði spurst út ef einhver nokkur hundruð manns hefðu komið til Íslands. Reyndar verður að fylgja sögunni að það er gat í annálunum frá 1430 til 1560 sem þeir hefðu mögulega getað smeygt sér í gegnum. Þá er líka spurning hvort þeir hafi farið eitthvert annað. Þeir vissu af Kanada og sigldu þangað til að sækja við,“ segir Valur en telur hæpið að sannanir fyrir því finnist úr þessu.
„Það er búið að framkvæma DNA prófanir og norrænir menn runnu ekki saman við inúíta.“ Valur bendir á að til sé tilgáta um að norrænir menn hafi blandast saman við kanadískan þjóðflokk sem sjálfur þurrkaðist út í farsótt á 19. öld og þannig hafi sporið horfið þar og hæpið að einhverjar sannanir finnist sem staðfesti það.
„Þegar norræna fólkið, sem kallaði sig Grænlendinga, settist að á Suður-Grænlandi á svæði sem nær frá Nuuk til Narsarsuaq, var enginn þar. Þetta voru tvær byggðir, Eystribyggð sem er stærri og er fyrir sunnan, og Vestribyggð sem er norðar og þar sem Nuuk er núna,“ segir Valur. Hann bendir þó á að í rituðum heimildum sé minnst á minjar um fyrri siðmenningu. „Norræna fólkið var þarna út af fyrir sig, en upp úr 1200 og 1300 kom nýr hópur inúíta sem kallaðir var Thulefólkið. Sá hópur var útþenslusamur og bjó yfir mun betri tækni til þess að komast af. Þeir voru með skutla til að veiða hval og þurftu ekki að bíða eftir hvalreka eins og frændur okkar. Á endanum var það Thulefólkið sem komst af og afkomendur þeirra byggja Grænland í dag.“
Sönn saga í formi skáldsögu
Grænlandsbókin er rituð á sambærilegan hátt og fyrri bækur Vals þar sem hann segir mikið frá sínu ferðalagi og því sem drífur á hans daga á meðan hann kannar viðfangsefnið. „Þetta er það sem kallast á ensku „creative non-fiction“ sem hefur verið kallað sannsögur á íslensku. Allt þarf að vera eitthvað sem gerðist og ég hef enga heimild innan þessa forms að breyta neinu. Ég er frekar að ritstýra og velja það sem er tekið með og skiptir máli. Þetta er skapandi að því leyti að þú skrifar þetta í stíl skáldsögu, en samt þannig að öll atvikin þurfa að vera rétt. Þórbergur Þórðarson var að gera þetta að einhverju leyti fyrir hundrað árum.
Ég hef lengi átt í basli með þetta. Ég hef tekið gráður í sagnfræði og bókmenntafræði, en mér finnst leiðinlegt að skrifa akademískar ritgerðir. Á sama tíma hef ég skrifað skáldsögur sem mér finnst erfitt. Ég enda því á milli skáldskaparins og fræðimennskunnar – of rokkaður fyrir poppið og of poppaður fyrir rokkið.
Síðan fór ég í ritlistarnám og sá að þetta má,“ segir Valur. Hann hafi allt eins búist við því að útgefandinn bæði hann um að fella niður persónulegu kaflana í bókinni Bjarmalönd, sem fjallar um Evrópulönd á áhrifasvæði Rússlands, en svo var ekki. „Síðan kom stríðið og bókin sló í gegn, og þá var þessi stíll samþykktur.“ Inntur eftir því hvað sé á döfinni segist Valur vera að vinna að tíundu bók sinni sem eigi að koma út á næsta ári. Það sé skáldsaga sem gerist á tímum Haralds hárfagra í Noregi.
