Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Leita að fæðingarsögum feðra úr sveitum landsins
Líf og starf 29. mars 2021

Leita að fæðingarsögum feðra úr sveitum landsins

Parið Ísak Hilmarsson og Gréta María Birgisdóttir eru að vinna að verkefni þessi misserin sem heitir Fæðingarsögur feðra. Verkefnið gengur út á að koma hlutverki og upplifunum feðra af fæðingum í umræðuna. Ætlunin er að gefa sögurnar út í bók.

Þau fóru af stað með verkefnið á feðradaginn 10. nóvember árið 2019. Tilgangurinn með verkefninu er tvenns konar. Annars vegar vilja þau fá feður til þess að ræða um upplifanir sínar og reynslu af fæðingum barna sinna. Hins vegar óska þau eftir því að feður skrifi niður sínar sögur og sendi þeim til birtingar í bók sem þau hyggjast gefa út. Þannig vilja þau varðveita sögurnar og gefa fleirum tækifæri á að lesa þær. Sögurnar í bókinni verða nafnlausar en við hverja sögu mun koma fram fæðingarár föður og barns sem og fæðingarstaður. Hugsunin með því er að gefa lesandanum smá innsýn í aðstæður.

Gréta María er ljósmóðir og vinnur á Landspítalanum og Ísak vinnur sem þjónustustjóri í hugbúnaðarfyrirtæki í Kópavogi. Saman eiga þau tvö börn, 3 ára stelpu og dreng fæddan í ágúst á síðasta ári. Hugmyndin að verkefninu kviknaði hjá þeim sumarið 2019.

Sögur strax á fyrsta sólarhringnum

Gréta og Ísak voru búin að undirbúa verkefnið í nokkrar vikur áður en þau opnuðu verkefnið með Facebook-síðunni ,,Fæðingarsögur feðra“. Þau vildu vanda til verka frá fyrsta degi.

,,Það er ýmislegt sem þarf að huga að þegar farið er af stað með jafn persónulegt verkefni og þetta. Það er sennilega fátt sem er jafn persónulegt fyrir fólki og að ræða um fæðingar barna sinna,“ segir Ísak og bætir við: ,,Við vorum ákveðin í því frá upphafi að hafa sögurnar í verkefninu nafnlausar svo að áherslan yrði á sögurnar og innihald þeirra en ekki persónurnar.“ Ísak segir að þau hafi viljað hafa verkefnið opið og sýnilegt fyrir öllum hvaða fólk stæði á bakvið það. Það kom því ekkert annað til greina en að Ísak myndi skrifa sína fæðingarsögu og birta á Facebook-síðunni undir nafni. ,,Ég vildi opna á umræðuna með sögunni minni og það verður eina sagan sem mun koma undir nafni í verkefninu, þó svo að hún verði nafnlaus í bókinni sjálfri. Ég hugsaði það út frá mér að ef ég ætti að senda einhverjum mína fæðingarsögu þá yrði ég að vita hver stæði að baki verkefninu.“ Þeim fannst mikilvægt að verkefnið væri á persónulegu nótunum og allt uppi á borðum varðandi tilgang verkefnisins.

Eins og áður sagði þá opnuðu Gréta og Ísak verkefnið á Facebook-síðu sinni. Ekki liðu nema nokkrir klukkutímar frá því að síðan var opnuð og þar til að fyrsta sagan kom inn í verkefnið.

,,Viðbrögðin sem við höfum fengið frá fyrsta degi hafa verið algjörlega frábær. Við vissum ekki hvernig fólk myndi taka þessu verkefni þar sem samfélagið er ekki vant að ræða mikið um hlið feðra í fæðingarferlinu. Það segir ansi mikið um verkefnið finnst mér að fyrsta sagan kom inn eftir aðeins nokkra klukkutíma. Það var faðir sem átti söguna til og hafði skrifað hana niður fyrir nokkrum árum.“

 Þau taka við öllum tegundum af sögum frá feðrum og er eina skilyrðið að sagan sé um hlið föðurins. ,,Við hvetjum alla til þess að ræða saman um hlið feðra í fæðingum. Gildir þá einu hvort það er par að ræða um sitt eigið barn eða hvort fólk ræðir við foreldra sína um eigin fæðingu.“ Sjálfur vissi Ísak ekki hvort faðir hans hafi verið viðstaddur sína fæðingu fyrr en að þau fóru af stað með verkefnið og hann spurði föður sinn út í það. Þau nefna einnig að það sé algengt í vinahópnum þeirra að báðir aðilar hafi verið viðstaddir fæðingar barnanna og að það sé óalgengt að pör ræði saman eftir fæðingar um upplifanir sínar.

,,Það kom okkur í raun á óvart þegar við fórum að spyrjast fyrir um þetta hjá foreldrum í kringum okkur hversu fáir hafa rætt sín á milli um fæðingar barna sinna. Það að eignast barn er eitthvað það merkilegasta sem hægt er að upplifa í lífinu og okkur þykir mikilvægt að við ræðum meira saman um þennan atburð. Það á bæði við um góðu stundirnar þar sem allt gengur vel upp og einnig þær sem fara ekki eins og við vonuðumst eftir í upphafi.“

 Allar tegundir af sögum

Gréta og Ísak taka það skýrt fram að þau taki vel á móti öllum tegundum af sögum.

,,Við viljum fá sem flestar sögur í verkefnið. Við leitum eftir stuttum, löngum, skemmtilegum, fyndnum, erfiðum og öllum hinum sögunum líka. Við viljum heyra af hefðbundnum fæðingum, heima­fæðingum, keisaraskurðum, fæðingum í bílum, nýjum sögum, eldri sögum og sögum úr sveitum þessa lands, svona eins og þær voru hér áður fyrr. Það er svo sannarlega pláss fyrir allar sögur í verkefninu,“ segir Ísak.

Ísak kemur úr Stykkishólmi en amma hans og hafi bjuggu á Þingvöllum í Helgafellssveit.

,,Við vitum að það eru til margar áhugaverðar sögur sem tengjast sveitum og fæðingum barna, bæði nýjar og eldri sögur, og okkur langar mikið til þess að heyra slíkar sögur frá feðrum og fá inn í verkefnið,“ segir Ísak.

Á Facebook og Instagram

Ísak og Gréta halda úti Facebook síðunni Fæðingarsögur feðra ásamt Instagram-reikningi með sama heiti. Feður geta ýmist sent inn sínar sögur á samfélagsmiðlana eða í gegnum tölvupóst á faedingarsogurfedra@gmail.com

Að lokum hvetja þau alla til að ræða fæðingar barna sinna og velta fyrir sér hlið feðranna og sjá þannig hversu mismunandi upplifunin getur verið frá sama atburði þar sem foreldrarnir gegna auðvitað mismunandi hlutverkum í fæðingum. Eins getur verið áhugavert og dýrmætt að skrifa niður eigin reynslu af fæðingum barna sinna til þess að eiga, þar sem sumir hlutir gleymast með tímanum. Það væri síðan algjör bónus ef viðkomandi myndi senda söguna inn í verkefnið.

Hefur þú heyrt söguna af því þegar þú komst í heiminn, kæri lesandi?

 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f