Verkstjórinn Dammar Jang Gurung, sem er oft kallaður DJ (borið fram Dídjey), hleypur til og frá vinnu á hverjum degi. Við störf sín á lagernum hjá MS gengur hann jafnframt rösklega og fer samtals 30 kílómetra á tveimur jafnfljótum á virkum dögum. Hann er fæddur í Nepal en hefur búið á Íslandi síðan 1999.
Verkstjórinn Dammar Jang Gurung, sem er oft kallaður DJ (borið fram Dídjey), hleypur til og frá vinnu á hverjum degi. Við störf sín á lagernum hjá MS gengur hann jafnframt rösklega og fer samtals 30 kílómetra á tveimur jafnfljótum á virkum dögum. Hann er fæddur í Nepal en hefur búið á Íslandi síðan 1999.
Mynd / ál
Viðtal 28. desember 2025

Langhlauparinn á lagernum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Dammar Jang Gurung, aðstoðarverkstjóri á lager Mjólkursamsölunnar (MS) í Reykjavík, hleypur og gengur 30 kílómetra á dag. Hann flutti til Íslands frá Nepal árið 1999 og hefur starfað hjá MS í aldarfjórðung.

Ástæða þess að Dammar flutti til landsins á sínum tíma var að bróðir hans hafði starfað hérlendis í nokkur ár sem leiðsögumaður í flúðasiglingum, var sestur hér að og hvatti bróður sinn til að koma líka. „Fyrst byrjaði ég að vinna í fiski í Grindavík með vini mínum en eftir eitt ár kom ég hingað í Mjólkursamsöluna, en bróðir minn var kominn með vinnu hér á þeim tíma. Í kjölfarið sótti ég fjölskylduna mína og eru allir hérna á Íslandi,“ segir Dammar, sem er oftar en ekki kallaður DJ.

Hleypur meira en 3.000 km í ár

Dammar er mikill hlaupagarpur, en hann skokkar til og frá vinnu og gengur rösklega við störf sín á lagernum. Hann er með skrefamæli og segist labba og hlaupa samtals um þrjátíu kílómetra á virkum dögum. „Vinur minn byrjaði að labba og hlaupa í frítíma sínum árið 2017 og bauð mér að vera með. Ári síðar hlupum við hálft Reykjavíkurmaraþon. Árið 2019 fórum við svo heilt maraþon sem ég hef endurtekið fimm sinnum.

Ég jók við æfingarnar árið 2023 þar sem ég byrjaði að hlaupa til og frá vinnu. Þetta eru fimmtán til sautján kílómetrar á dag, en ég bý í Kópavogi og það eru sjö og hálfur kílómetri að hlaupa hvora leið og stundum tek ég aukalega lítinn hring.“

Dammar segist hlaupa jafnvel þó svo að veðrið sé slæmt. „Ef það er mikil hálka nota ég neglda skó til að hlaupa. Á veturna er ég líka með höfuðljós. Ég lenti einu sinni í vandræðum í mikilli hálku í desember á síðasta ári, en þá var ég ekki í negldum skóm og endaði á því að detta. Það var ekki stórt mál og gat ég labbað heim þann daginn.“ Á síðasta ári hljóp hann 3.000 kílómetra og stefnir hann að því að ná 3.200 kílómetrum í ár.

Í vöruhúsi MS gefst starfsfólki færi á að ganga umtalsverðar vegalengdir á meðan gengið er frá pöntunum.

Frá sama héraði í Nepal

Starfið á lagernum snýst mikið um að taka saman pantanir frá verslunum. Starfsmenn fá útprentaða nótu og raða í vagnana sem fólk kannast við að sjá í mjólkurkælum verslana. „Á blaðinu stendur hversu marga vagna þarf. Svo stendur við hvaða dyraop á að skilja vagninn eftir. Einn starfsmaður fer svo yfir vagninn til að staðfesta að tínt hafi verið rétt magn. Að því loknu geta bílstjórarnir tekið við pöntuninni og dreift í búðir.“

Fyrir utan bílstjóra eru fimmtíu manns sem starfa í vöruhúsi MS í Reykjavík. „Hérna er fólk frá Taílandi, Filippseyjum, mikið frá Víetnam og eitthvað af Pólverjum. Eins tveir frá Nígeríu. Mjög fáir Íslendingar eru hérna á lagernum. Oftast endast Íslendingarnir ekki nema í einn eða tvo daga, en hætta þegar þeir finna kuldann.“

Dammar veit af rúmlega tvö hundruð samlöndum sínum sem eru búsettir á Íslandi. Þar af eru fimmtán Nepalar starfsmenn á lager Mjólkursamsölunnar og allir nema tveir af þeim koma frá sama héraðinu. „Við þekktumst öll áður en við komum til Íslands,“ segir Dammar.

Íslenskur vetur erfiður

„Núna hef ég starfað hér í tuttugu og fimm ár, er búinn að kaupa mér íbúð og er með góða vinnu. Öll fjölskyldan er hér, en það er mjög gott að búa á Íslandi. Við erum hérna ég og Askur [Ash Kumar Gurung] bróðir minn sem vinnum báðir hjá MS.“

Dammar segir samfélag Nepala hérna á Íslandi halda úti félagsstarfi með því að skipuleggja minni samkomur í hverjum mánuði og einu sinni á ári er haldin stór veisla í kringum helstu trúarhátíð hindúa í kringum mánaðamót septemberoktóber.

„Það er rosalega gott að búa á Íslandi, en það eina sem er slæmt er að í desember og janúar er mikið rok og snjór,“ segir Dammar. Þá læðist stundum að honum sú hugsun að flytja aftur til átthaganna, en þegar fer að vora tekur hann landið aftur í sátt. Veturinn á Íslandi er verri en á heimaslóðum Dammars í Chitwan í Nepal. „Héraðið mitt er í 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Hitinn þar nær allt að 48 gráðum á sumrin og eins getur verið mikið frost á veturna. Það getur verið mikil rigning í Nepal, en sjaldan eins mikið rok og á Íslandi.“ 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f