Eins og flestir vita byggir Aðventa á frásögn af raunverulegri fjallaferð Benedikts Sigurjónssonar sem nefndur var Fjalla Bensi. Hann hafði með sér hundinn Leó og forystusauðinn Eitil.
Eins og flestir vita byggir Aðventa á frásögn af raunverulegri fjallaferð Benedikts Sigurjónssonar sem nefndur var Fjalla Bensi. Hann hafði með sér hundinn Leó og forystusauðinn Eitil.
Líf og starf 28. desember 2025

Jól á fjöllum

Höfundur: Kristján B. Jónasson

Íslendingar eiga sannkallaða jólasögu sem er Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson. Hún byggir á ævi og starfi manns sem gerði það að lífsstefnu sinni að bjarga skepnum ofan af öræfum og varði frekar jólunum þar en í hlýjunni heima.

Hægt og bítandi hefur Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson unnið sér sess sem helsta jólasaga okkar. Ungum sem öldnum finnst sem engin jól séu nema þeir lesi um þrenninguna sem heldur upp í óbyggðir þegar dagana styttir svo koma megi til byggða því fé sem eftir sat að loknum síðustu göngum. Sagan hefur á sér blæ ævintýrisins. Aðalsöguhetjan, Benedikt, á lítið undir sér niðri í byggðum, stendur hvorki fyrir búi né hefur fyrir krökkum og konu að sjá, en í félagi við forystusauð og hund umbreytist hann óðar og öræfin taka við. Verður að sönnu mikilmenni. Þar uppi eiga stormar og ofankoma sitt kjörland. Eina skjólið er hráslagalegur gangnakofi, sæluhús sem veitir póstinum skjól á hraðferð sinni milli sveita og síðan lítið fylgsni langt inni í óbyggðum, hálfa leið milli sæluhúss og jökuls, sem Benedikt útbjó í upphafi ferils síns sem eftirleitamaður.

Þetta er grýtan, jarðhúsið sem gleypir þrenninguna þegar skjóls er mest þörf eftir langan gang í stórhríð og blindu. Hún verður líka næstum því að gröf þeirra en Benedikt sýnir þar enn og aftur sterkustu eðliskosti fjallamannsins: rósemi og glögga dómgreind. Hann dregur réttar ályktanir af því sem hann sér og reynir, er yfirvegaður þótt eitthvað bjáti á. Þar kemur í góðar þarfir kvæðiskorn sem hann tautar fyrir munni sér á göngunni um hvernig skuli haga sér á fjöllum: „Far með gætni, far með ró / flýt þér hægt, en öruggt þó.“

Speki og spenna

Benedikt kemst því ekki aðeins lífs af úr eftirleitinni þrátt fyrir margháttuð vandræði. Honum tekst einnig að bjarga fé úr öræfasvelti, inna af hendi „þjónustuna“ sem sögumanni verður svo tíðrætt um þegar hann segir söguna af Benedikt og félögunum tveimur, forystusauðnum Eitli og hundinum Leó. Ekki finnst öllum þó varið í þetta mas í sögumanni.

Lesendum Aðventu má nefnilega skipta gróflega í tvo flokka. Annar hópurinn lætur sér fátt finnast um hugleiðingar Gunnars Gunnarssonar um „þjónustuna sem inna þarf af hendi“, um einsemdina og þrána eftir henni á fjöllum uppi. Þessi hópur er allur upp á aksjónina. Vill fá að heyra af baráttunni við ofviðrið, af því þegar Benedikt grefur sig í snjó og brýst svo þaðan út aftur svo honum renni ekki í brjóst, af því þegar hann deilir ísköldum brauðmolum og freðnum kjötbitunum með hundinum Leó, hristir tuggu úr heypokanum sínum í sauðinn, hvikar aldrei, æðrast ekki, lætur áföll aldrei koma sér úr jafnvægi. Er nánast eitt með fjöllunum, þekkir umhverfið eins og lófann á sér og ratar jafnt í blindu sem skæra tunglsljósi.

Hinn hópurinn er hins vegar meira upp á spekina. Í einverunni, á ferðinni heiman að frá sér upp að síðasta byggða bóli áður en haldið er til óbyggða, sem og í öllu því vafstri sem Benedikts bíður á aðventunni, gefast næg tækifæri til að ígrunda tilgang þessa alls. Þar er Gunnar Gunnarsson við heygarðshorn sem sannarlega mátti kallast hans. Því má njóta sögunnar á þeim grundvelli að hún sé um ástæðurnar fyrir því að við gerum það sem við gerum, hvort verk okkar hafi eitthvað að segja og hvað það er sem fær okkur til að feta erfiða slóð. Er æðsta hlutverk okkar og það eina sem fyllir okkur vissu um tilgang okkar á jörðinni að „fórna okkur“? Ja, þegar stórt er spurt.

Aðventa verður til

Eins og flestir vita byggir Aðventa á frásögn af raunverulegri fjallaferð Benedikts Sigurjónssonar sem nefndur var Fjalla-Bensi. Sú ferð var farin fyrir einni öld, á aðventu 1925, og Þórður Jónsson í Laufahlíð í Reykjahverfi skráði hana síðan og birti í Eimreiðinni 1931. Þar rakst Gunnar Gunnarsson á hana, heillaðist af henni og notaði sem grunnstoð að verki sínu.

Fyrsti vottur þess var sagan Góði hirðirinn sem birtist á dönsku í safnriti sem hét Julesne og ætlað var að hækka hitann undir jólastemningunni meðal Dana 1931. Aðventa eins og við þekkjum hana kom síðan fyrst út á þýsku í litlu, þunnu og ódýru útgáfum Recklam-forlagsins haustið 1936 og danska útgáfan fylgdi síðan á hæla henni árið 1937. Íslensk þýðing Magnúsar Ásgeirssonar kom út árið 1939 en gerð Gunnars Gunnarssonar sjálfs birtist hins vegar ekki fyrr en árið 1976, að Gunnari látnum, í því bindi heildarútgáfu verka hans sem Almenna bókafélagið gaf út sem ber titilinn Fimm fræknisögur.

Fjalla-Bensi

Óhætt er að segja að frægð Fjalla-Bensa hafi verið innsigluð með útkomu Aðventu. Hann var hátt á sjötugsaldri þegar sagan loks kom út á íslensku 1939, en var þá þegar kunnur fyrir eftirleitarferðir sínar á jólaföstu. Frægð hans jókst svo enn þegar sögur af volki hans á heiðum voru skrásettar um og upp úr 1940 og birtust í riti Ólafs Jónssonar, Ódáðahraun, sem út kom í þremur bindum á Akureyri árið 1945 og er gullnáma fyrir hvern þann sem vill kynnast sögu Mývatnsöræfa og öræfanna suður af Herðubreið og Öskju.

Benedikt Sigurjónsson fæddist á Syðri-Neslöndum í Mývatnssveit 1876, sonur fátækra hjóna og var sendur barn að heiman í fóstur á Arnarvatni þar sem hann vandist smalamennsku og fjárgæslu uppi á Fljótsheiði. Um fermingu fór hann á prestssetrið Skútustaði við Mývatn þar sem hann var lengi vinnumaður og þar var hann þegar hann, 54 ára gamall, hélt af stað í eftirleitir á Mývatnsöræfum 8. desember 1925 og endaði með því að halda jól á fjöllum.

Hann var á fleiri bæjum í Þingeyjarsýslum, þar á meðal Grímsstöðum á Fjöllum, en endaði ævi sína á Akureyri þangað sem hann kom árið 1942. Þar náði Ólafur Jónsson í skottið á honum. Benedikt lést á Akureyri vorið 1946, varð bráðkvaddur úti á götu.

Hörmuleg örlög á heiðum

Í þáttum Ólafs Jónssonar af FjallaBensa er frásögn af því þegar Benedikt uppgötvar hvaða örlög þeim skepnum eru búin sem ekki næst að smala heim á haustin. Benedikt hafði þá oft farið í eftirleitir á heiðum en enn hafði hann ekki bitið í sig þá föstu stefnu sem hann síðan tók. Þetta var raunar ekki um haust, heldur vor, og Benedikt þá vinnumaður á Grímsstöðum á Fjöllum. Síðla maí 1913 fór hann við annan mann að tína gæsaegg í Grafarlöndum sem eru skammt vestan Jökulsár á Fjöllum og norður af Herðubreiðarlindum. Grafarlönd voru þá í landi Reykjahlíðar í Mývatnssveit, sem jafnan hefur verið talin stærsta bújörð landsins, og höfðu Grímsstaðamenn leyfi landeigenda til eggjatínslunnar.

Þar blasti hins vegar við þeim Benedikt óhugnanleg sjón. Lágu þar dauðir tveir lambhrútar, sinn hvorum megin við sömu þúfuna, „en saman með hausana, svo að snoppurnar víxllögðust,“ eins og segir í frásögn Benedikts. Þetta voru eftirlegulömb sem þrátt fyrir að hafa reynt að berja gadd og krafsa eftir víðilaufi og fjalldrapa um veturinn höfðu ekki haft hann af. Skammt frá hrútslömbunum lá svo dauður gemlingur en yfir hræi hans stóð félagi hans, að vísu lifandi, en vart meira en það. Var hann „skinhoraður, genginn úr reyfinu, mannsber, og skreið færilús við færilús eftir hárlausum bjórnum“. Svo sterkur strengur var milli þessa ræfilsgreys og þess sem nú lá dauður að lúsétinn gemlingurinn hafði vart rótað sér af blettinum og því lágu ullartægjurnar sem færilúsin hafði kroppað af holdinu þarna úti um allt. Á meðan þeir Benedikt dvöldu í Grafarlöndum sáu þeir gemlinginn aldrei fikra sig lengra en spölkorn frá félaganum, kroppa eilítið í heiðagróðurinn en ganga svo aftur að hinum dauða til að leggjast hjá honum.

Sagði Benedikt sjálfur við Ólaf að þarna á bökkum Grafarlandsár hefði hann einsett sér að gera allt sem í sínu valdi stæði til að varna því að fé þyrfti að svelta til bana á öræfum á vetrum.

Samlíðan með dýrum

Ekki er að efa að fyrir þann sem finnur til með dýrunum er átakanlegt að horfa upp á þau veslast upp úr hungri vegna þess eins að enginn hafði nennu til að bjarga þeim. Á árunum kringum aldamótin 1900 vöknuðu sterkar hugsjónir með Íslendingum, enda töldu þeir sig sjá að þeim væri unnt að ráða örlögum sínum sjálfir um svo ótalmargt. Ein þessara hugsjóna var dýravernd. Tryggvi Gunnarsson bankastjóri með meiru hafði heillast af því hvernig danskir dýraverndunarsinnar höfðu bundist samtökum og átti upptök að því að Íslendingar létu sig örlög ómálga skepna varða.

Í tímaritinu Dýravininum, sem byrjað var að gefa út 1885 undir handarjaðri „Dýraverndunarfélags danskra kvenna“ en kom síðan út á vegum Hins íslenska þjóðvinafélags, birtust sögur eftir marga fremstu rithöfunda þjóðarinnar sem fjölluðu um illan aðbúnað dýra eða greindu frá einstöku metfé. Raunsæisstefnan með áherslu sína á lækningu þjóðfélagsmeina með uppskurði orðsins féll eins og flís við rass boðunar nýrra tilfinninga gagnvart samferðarverum okkar. Það varð heilög skylda hvers þess sem las þessar sögur og skildi inntak þeirra að leggja sitt af mörkum til að bæta líðan og aðbúnað málleysingjanna. Hvort sem það var að tíma aðeins meiri mat í hundinn eða fara betur með reiðhestinn þá vann dýravinurinn að framförum samfélagsins í átt til betri vegar. Við eigum að vera góð við dýr og gæta þeirra var boðskapur sem ótrúlega margir tóku nú alvarlega, brýndir af sögum og kvæðum.

Í fáum sveitum landsins var hugsjón dýraverndarinnar tekin jafnföstum tökum og í SuðurÞingeyjarsýslu. Bættist dýraverndin þar við langan listann framfaramála sem íbúar sýslunnar tóku upp á sína arma á því leysingavori hugsjóna og framfara sem þá ríkti. Einn öflugasti penni Dýravinsins var Mývetningurinn Þorgils gjallandi, sem þrátt fyrir að hafa hafið ritferil sinn kominn vel á fullorðinsár var í senn afkastamikill og frumlegur í öllu sínu sköpunarstarfi. Þorgils gjallandi, eða Jón Stefánsson eins og hann hét réttu nafni, var rómaður dýravinur í reynd. Til eru sögur af því hvernig hann faðmaði og kyssti reiðhross sín og hversu natinn hann var við alla fjárgæslu og fóðrun. Ein áhrifamesta saga hans, Heimþrá, sem raunar birtist ekki í Dýravininum, heldur í safni dýrasagna hans, segir frá merinni Stjörnu sem seld er til bónda fjarri heimahögum sínum en er gripin slíku óyndi að hún strýkur, lendir í ógöngum uppi á öræfum og ber þar beinin í orðsins fyllstu merkingu, grafin í sand og möl á gróðurvana rana við jökulfljót: Hún „þjáðist og píndist; ein, horfin og gleymd“ eins og þar segir.

Þessi lýsing á vindblásnum hrossabeinum uppi á heiðum var raunar – líkt og Aðventa – sótt til veruleikans. Í ágúst 1880 fóru nokkrir Mývetningar í könnunarför upp á hálendið og birtist frásögn þeirra í Norðlingi á Akureyri nokkru síðar. Fóru leiðangursmenn upp að jaðri Vatnajökuls, sáu upptök Kreppu og Jökulsár, reyndu að finna haga fyrir hrossin sín í auðninni og átta sig á landinu, hvar væri snöp að finna. Í Hvannalindum rákust þeir á „hrossbein á hrauntagli“ og töldu að þarna hefði hestur farið um þegar lindirnar hefði lagt að vetri, síðan orðið innlyksa og drepist að endingu úr hungri.

Harðfylgni á fjöllum

Sögurnar af eftirleitarferðum Fjalla-Bensa segja frá einstaklega harðgerðum manni, sem knúinn er áfram af hugsjón um að koma skepnum aftur til byggða, og væntanlega líka að fá fundarlaunin, sem námu um helmingi virðis hvers gripar. Sögurnar af volki hans segja ítrekað frá hvernig föt hans verða einn stokkur í frostinu eftir að hann hefur blotnað, til að mynda við að liggja í fönn. Svo heiftarlega frjósa þau að ísinn slítur þau í sundur þar sem mest mæðir, til að mynda við hné, en það bjargar honum að hann er jafnan í blessuðum ullarnærfötunum næst sér.

Benedikt kelur alltaf annað slagið á tám og höndum, en jafnar sig. Þolgæði hans er einstakt. Stundum þarf hann að þoka fénu áfram allan daginn til þess eins að sjá það stika til baka sömu leið meðan hann sefur og þarf hann þá að endurtaka leikinn næsta dag. Þolinmæði hans gengur næst sjálflausu striti japanskra munka sem dunda sér við að raka harpaða möl heilu dagana í von um að hitta á hárréttu munstrin. Benedikt er þannig sannkölluð skáldskaparpersóna í lifanda lífi og engin furða að Gunnar Gunnarsson hafi hrifist af afrekum hans.

Í Aðventu koma jólin þegar Benedikt er enn að þoka fénu til byggða. Hann gefst ekki upp fyrr en allt er þrotið til matar og hann sjálfur algerlega úrvinda. Þá eru það byggðamenn sem halda loks af stað annan í jólum og koma fénu heim. Eina ferðina enn er skepnunum bjargað frá því að verða skinin bein á beru hrauntagli við kolmórautt jökulfljót, víðsfjarri allri björg. Benedikt er sáttur, kominn aftur til manna en aðeins enn „um sinn“, eins og stendur í Aðventu.

Gleðileg jól, kæru lesendur, og munið að víkja góðu að skepnunum

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...