Jöklar hörfa hratt
Vísindamenn telja að meira en hundrað jöklar í Ölpunum verði horfnir árið 2033. Áratug síðar er því spáð að brotthvarf jökla í vestanverðri Norður-Ameríku nái methraða þar sem meira en 800 hverfa á ári.
Á heimsvísu eru til um 200 þúsund jöklar og hverfa að jafnaði 750 á ári hverju. Samkvæmt rannsóknum er því spáð að mun fleiri hverfi árlega eftir því sem losun gróðurhúsalofttegunda eykst. Frá þessu er greint í Guardian.
Miðað við þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa ráðist í til að draga úr losun kolefnis er því spáð að hlýnun nemi um 2,7 °C miðað við meðalhita fyrir iðnbyltingu. Mun þetta auka á öfga í veðurfari og verða til þess að 3.000 jöklar glatast á heimsvísu árið 2040. 80 prósent af þeim jöklum sem til eru í dag gætu verið horfnir við lok aldarinnar.
Takist þjóðum heims að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og koma í veg fyrir að loftslag hlýni meira en 1,5 °C telja vísindamenn að 2.000 jöklar hverfi á ári hverju í kringum 2040. Eftir það myndi hægja á bráðnun jökla.
