Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum á nýársdag.
Í þeim hópi var Ingólfur Guðnason garðyrkjufræðingur sem var heiðraður fyrir frumkvöðlastörf í lífrænni ræktun og kennslu.
„Veiting fálkaorðunnar var mikill heiður og hvatning fyrir mig persónulega og okkur hjónin bæði því Sigrún ætti í raun að deila henni með mér. Líka hvatning fyrir þá sem hafa unnið við lífræna garðyrkjuframleiðslu eða hafa hug á því,“ segir Ingólfur og vísar hér til Sigrúnar Reynisdóttur, en saman stýrðu þau garðyrkjustöðinni Engi í Laugarási á árunum 1985 til 2017, þegar þau seldu hana og fluttu í Hveragerði.
Lífrænt vottuð ræktun
Ingólfur og Sigrún voru í þeim fámenna hópi garðyrkjubænda á Íslandi sem fór óhefðbundnar leiðir og hófu lífrænt vottaða ræktun þegar vottunarferli var sett á fót hér á landi í kringum 1995. „Á Engi stunduðum við hefðbundna ræktun frá því við stofnuðum Engi árið 1985 en fórum yfir í lífræna vottun þegar henni var komið á,“ segir Ingólfur. „Við vorum þá farin að stunda talsverða kryddjurtaræktun og líka nokkuð af heilsujurtum, svo okkur fannst ekki annað vera í boði fyrir neytendur en að fá hreina vöru sem tryggt var að væri framleidd eftir aðferðum lífrænnar ræktunar. Síðan hefur öll okkar framleiðsla verið lífrænt vottuð, bæði matjurtir, blóm og garðplöntur.“
Spurður um stöðu lífrænt vottaðrar grænmetisframleiðslu í dag miðað við þann tíma þegar þau voru í búrekstri, segir Ingólfur að gróðrarstöðvar í lífrænni ræktun hafi allar verið reknar af hugsjón og áhuga auk þess að vera starf og lifibrauð. „Staða lífrænnar framleiðslu er viðkvæm vegna þess hversu fáir framleiðendur eru í þeim geira garðyrkjunnar. Stuðningur var ekki mikill frá hinu opinbera við lífræna ræktun þótt stundum hafi yfirvöld lofað öllu fögru. Það er ekki fyrr en með „Aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar matvælaframleiðslu“ sem gefin var út af matvælaráðuneytinu í ágúst 2024 sem framleiðendur í lífrænum landbúnaði hafa í höndunum opinbert plagg sem tiltekur tímasett markmið um stuðning til þeirra til aðlögunar- og rekstrarstyrkja, rannsókna, ráðgjafar, kynningar, fræðslu og annarra atriða sem fela í sér raunverulegan opinberan stuðning. Framleiðendur geta samkvæmt þessari opinberu stefnumótun sótt um margvíslegan stuðning, til dæmis vegna tækjakaupa og annarra fjárfestinga til að byggja upp sinn rekstur. Ég vona að hér eftir verði stefnunni fylgt af festu, til að tryggja að uppbygging lífræna geirans verði tryggð.“
Góð aðsókn í garðyrkjunámið á Reykjum
Að sögn Ingólfs hefur hann verið fastráðinn kennari við Garðyrkjuskólann á Reykjum frá 2018 en áður sinnti hann stundakennslu frá árinu 2011, með áherslu á lífræna ræktun en einnig í öðrum fögum – aðallega ræktun og umhverfistengdar námsgreinar.
„Garðyrkjukennslan stendur á gömlum merg hér á Reykjum. Aðsókn í námið er góð, en aðstöðuleysi er farið að há okkur verulega því flestar byggingar eru orðna lúnar og henta ekki vel fyrir kennslu í nútímagarðyrkju. Kennarar og annað starfsfólk leggja sig fram um að halda í horfinu en það reynir á velvilja fjárveitingavaldsins að byggja upp aðstöðuna. Nú er verið að ljúka endurbyggingu skólahússins en gróðurhús og önnur verknámsaðstaða kallar á verulegar endurbætur. Nemendur eru farnir að finna fyrir aðstöðuleysinu en þeir hafa sýnt ótrúlega biðlund og þolinmæði og við hlökkum til útskriftar í vor.
Skólinn heyrir nú undir stjórn Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem er mikil bót frá því við vorum undir hatti Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Hér ríkir þrátt fyrir allt mikil bjartsýni og samstaða um að efla fagþekkingu í öllum greinum garðyrkjunnar.“
