Erla Björnsdóttir sálfræðingur er ábyrgðarmaður undirskriftalista þar sem kallað er eftir því að klukkunni verði seinkað varanlega um 60 mínútur.
Erla Björnsdóttir sálfræðingur er ábyrgðarmaður undirskriftalista þar sem kallað er eftir því að klukkunni verði seinkað varanlega um 60 mínútur.
Mynd / ál
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er barist fyrir því að seinka klukkunni á Íslandi um einn klukkutíma og hins vegar hvatt til þess að engar breytingar verði gerðar.

Eftir að hætt var að skipta á milli sumar- og vetrartíma árið 1968 hefur Ísland verið á sama tímabelti og Bretland. Því er sólin hæst á lofti í Reykjavík þegar klukkan er í kringum 13.30. Umræða um þetta mál hefur aukist nokkuð undanfarin ár og 2018 var skipaður starfshópur af heilbrigðisráðherra sem átti að skoða hver ávinningurinn væri fyrir lýðheilsu og vellíðan landsmanna að leiðrétta klukkuna til samræmis við gang sólar.

Ekki breytt eftir samráð

Ákvörðun um þetta mál er í höndum forsætisráðuneytisins og eftir víðtækt samráð árið 2020 var ákveðið að halda klukkunni óbreyttri. Á þeim tíma sat Katrín Jakobsdóttir í embætti forsætisráðherra og segir hún í skriflegu svari að í samráðinu hafi komið fram góð og gild rök með því að breyta klukkunni en líka að halda henni óbreyttri. „Þau veigamestu að breytingin myndi fækka birtustundum milli klukkan sjö að morgni og ellefu að kvöldi um 13 prósent yfir árið. Með því myndi dagsbirta skerðast seinnipart dags, sem valda myndi minni útiveru og fela í sér aukna slysahættu. Þá myndi slík breyting sérstaklega skerða lífsgæði þeirra sem búa á stöðum sem eru umluktir háum fjöllum, svo sem á Austfjörðum og Vestfjörðum.

Rökin með breytingunni voru hins vegar að staðartími ætti að vera í takt við líkamsklukku og að aukin morgunbirta myndi hafa í för með sér að börn og unglingar sæktu skóla í dagsbirtu nær allt skólaárið. Þess vegna var ráðist í að ræða við sveitarfélög um að skólar myndu seinka upphafi kennslu í tilraunaskyni og menntamálaráðuneytinu falið að fylgjast með þeim tilraunum,“ segir í svari Katrínar.

Ekki sumar- og vetrartími

Í áðurnefndum starfshópi sat Erla Björnsdóttir sálfræðingur, sem hefur sérhæft sig í svefnleysi. Hún er jafnframt ábyrgðarmaður undirskriftalistans þar sem kallað er eftir því að seinka klukkunni um eina klukkustund. Hún segir í samtali að birtustundir yrðu þær sömu þrátt fyrir að klukkunni yrði breytt, en þær bæru upp á öðrum tíma. Eins sé ekki kallað eftir því að taka upp sumar- og vetrartíma, heldur einni breytingu sem væri í gildi allt árið.

„Ég skil alveg að fólk sem stundar útivist seinnipartinn hugsi um síðdegisbirtuna, en ef við leiðréttum klukkuna erum við með birtu þegar börnin ganga í skólann klukkan átta á morgnana sex vikum lengur,“ segir Erla. „Þetta skiptir máli upp á umferðaröryggi, enda mikil og þung umferð þegar fólk er að fara til vinnu og börn að labba í skólann.“

Hún bendir á að árið 1968 hafi þekking um mikilvægi líkamsklukkunnar ekki verið til staðar. Á síðustu árum hafi rannsóknir hins vegar sýnt fram á hversu mikið fólk stjórnast af gangi sólar og rannsakendur á því sviði hafi fengi Nóbelsverðlaunin í læknavísindum árið 2017. „Sterkasta merkið sem líkamsklukkan stillir sig eftir er morgunbirtan og allur annar taktur fylgir henni,“ segir Erla. Með aukinni morgunbirtu framleiði fólk melatónín fyrr á kvöldin og eigi auðveldara með að sofna.

Unglingar vaktir um miðja nótt

Erla bendir á að unglingar séu sérstaklega viðkvæmur hópur þar sem þeirra líkamsklukka sé allt að tveimur tímum á eftir öðrum aldurshópum. „Þegar við erum að vekja unglinga klukkan sjö á morgnana er þeirra lífklukka kannski fimm eða sex. Ef við bætum við skekkjunni erum við í raun að vekja þau klukkan hálf fjögur um nótt miðað við þeirra líkamsklukku,“ segir hún. Þetta sé mögulega einn af áhrifaþáttunum sem valda miklu brottfalli úr framhaldsskóla.

Mörg sveitarfélög hafi seinkað skólabyrjun sem Erla segir að hafi gefið góða raun. Þá hafi verið framkvæmd rannsókn á svefni unglinga í tveimur skólum í Reykjavík yfir heilt skólaár þar sem annar skólinn seinkaði skólabyrjun um fjörutíu mínútur. Samkvæmt niðurstöðum sváfu þeir unglingar sem byrjuðu seinna í skólanum nánast fjörutíu mínútum lengur í staðinn fyrir að vaka lengur á kvöldin.

Getum lært af nágrönnum okkar

Erla segir að það að seinka klukkunni um sextíu mínútur þjóni landinu nokkuð jafnt. Á vesturhelmingi landsins sé skekkjan í kringum 90 mínútur en um 60 mínútur í austustu byggðum landsins. Með breytingunni yrði klukkan því nánast hárrétt á Austurlandi en skekkjan færi niður í 30 mínútur á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir búa.

Aðspurð af hverju hún ákvað að vekja máls á klukkunni aftur í ljósi þess hve stutt er síðan stjórnvöld ákváðu að gera engar breytingar, segir hún að grænlensk stjórnvöld hafi ákveðið að flýta klukkunni hjá sér um eina klukkustund árið 2023 til þess að færa landið nær Evrópu í tíma. „Þarna erum við með nágrannaþjóð sem er raunverulega að finna fyrir neikvæðum afleiðingum af þessum breytingum,“ segir hún, en til stendur að taka málið aftur upp á þinginu í Nuuk. „Því held ég að tíminn sé núna og ég finn miklu meiri meðbyr í þessari umræðu en áður.“

Í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort ráðist verði í vinnu við mögulegar breytingar á klukkunni. Eins hefur málið ekki verið rætt í ríkisstjórn.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...