Hreinleikamat nautgripa er einfalt í framkvæmd.
Hreinleikamat nautgripa er einfalt í framkvæmd.
Mynd / Kennslubókin í Nautgriparækt
Á faglegum nótum 9. desember 2025

Hreinir nautgripir!

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Nú þegar innistaða kúa og flestra nautgripa er komin vel á veg þennan veturinn er gott að rifja upp nokkur atriði sem lúta að hreinleika kúa enda getur verið krefjandi fyrir bændur að halda gripum sínum hreinum á innistöðunni. Það er þó gríðarlega mikilvægt og víða er hreinlega óheimilt fyrir bændur að vera með óhreina gripi á húsi, t.d. í gæðakerfinu Arlagaarden.

Á búum sem eru með slíka vottun mega t.d. ekki sjást gripir með læraskít svo dæmi sé tekið. En af hverju er svona mikilvægt að vera með hreina nautgripi og sérstaklega kýr?

Dýravelferð

Fyrsta atriðið sem má nefna er einfaldlega dýravelferð, en hreinleiki nautgripa er mikilvægur þáttur í velferð þeirra þar sem hann hefur bein áhrif á velferð, atferli og almenna vellíðan. Hreinir og þurrir gripir eru t.d. betur fallnir til þess að leggjast og hvíla sig og slíkir gripir eru oftar en ekki streituminni en aðrir. Líklega vegna álags sem fylgir því að vera þar sem undirlagið er óhreint eða illa hannað. Hrein legusvæði og gott undirlag stuðla þannig að atferli nautgripa innan fjóss, sem minnir meira á atferli á útigöngu.

Heilbrigði

Hreinlæti er auðvitað lykilþáttur varðandi heilsu nautgripa og hefur bein áhrif á útsetningu þeirra fyrir sýklum og öðru umhverfisálagi. Þurrir og hreinir nautgripir eiga því síður á hættu að lenda í veikindum en aðrir, auk þess sem hreinn feldur stuðlar að bættri hitastjórnun gripanna.

Það er alþekkt beint samhengi á milli hreinleika kúa og júgurheilbrigðis og margar rannsóknir hafa sýnt fram á að lægri frumutala fylgir hreinni kúm þó svo að vissulega séu margir samverkandi þættir sem geta haft áhrif á það hvort kýr fái júgurbólgu eða ekki. Það er þó ljóst að smitefnin leynast víða í fjósum nú til dags og sérstaklega í nærumhverfi kúnna, s.s. á gangsvæðum, legusvæðum kúnna, í drykkjarkerjum eða á fóðrunarsvæði. Það telst því vart til tíðinda að kýrnar geta „náð“ í smitefnið á þessum stöðum og því þarf að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að draga úr líkunum á því að slíkt geti gerst.

Ímynd

Þriðja atriðið sem má nefna er einfaldlega ímynd búskaparins þ.e. að framleiðsluhættir búvaranna sé með þeim hætti að neytendum líki við það og kunni að meta að vel sé staðið að framleiðslunni frá haga í maga.

Matskerfið

Til þess að auðvelda bændum að gera úttekt á eigin búum er einfaldast að nota fyrir fram þekkt matskerfi við mat á hreinleika gripa. Það er nefnilega ekki svo að allir gripir geti alltaf verið tandurhreinir, það eru hreinlega inni á milli gripir sem eru sóðar og alltaf skítugir og því þarf að meta þetta hlutlægt og horfa á heildarmyndina. Því nota bændur matskerfið sem er alþekkt, og notað um allan heim, og byggir á því að gripunum eru gefnar einkunnir fyrir hreinleika á mismunandi svæðum líkamans.

Sé um kýr að ræða er júgur innifalið auk afturfóta/klaufa og læra/kviðs en sé um aðra gripi að ræða eru eðlilega einungis síðustu tveir þættirnir teknir inn í matið. Sjá nánar á meðfylgjandi mynd.

Nautgripum ætti alltaf að halda hreinum ef þess er nokkur kostur. Mynd / Aðsend

Matsferlið

Það fer eftir fjölda gripa á viðkomandi búi, hvað ábúandinn ákveður að meta marga gripi. Sé heildarfjöldi þeirra undir 50 ætti að skoða og meta alla gripi en upp frá því mætti draga úr tíðninni, enda líklegt að gripirnir séu allir að upplifa svipaðar aðstæður í fjósinu. Þetta þarf þó að meta frá búi til bús enda aðstæður mismunandi.

Í stuttu máli sagt er gripunum einfaldlega gefnar einkunnir á bilinu 1–4 eins og sjá má á skýringarmyndinni. Svo þegar búið er að meta ástandið, eru niðurstöðurnar teknar saman. Þá ættu að hámarki 10% kúnna að fá einkunnina 3–4 fyrir hreinleika júgurs. Ef það er hærra bendir það t.a.m. til þess að skafa þurfi oftar bása og bera betur undir kýrnar. Þá ættu að hámarki 20% gripanna að fá einkunnina 3–4 fyrir afturfætur/ klaufir en ef hlutfallið er hærra bendir það til dapurs ástands gangsvæða.

Þá ætti hlutfall gripa með einkunnirnar 3–4 fyrir læri/kvið ekki að fara yfir 10%. Ef það gerist bendir það til þess að þeir nái að liggja í óhreinindum og þarf e.t.v. að skoða hönnun innréttinga eða aðbúnaðar í heild sinni, tíðni og magn undirburðar o.þ.h. Þá gæti þessi einkunn einnig gefið til kynna að gripir nái að draga upp á sig óhreinindi með halanum og því þarf e.t.v. bæði að bæta þrif og halasnyrtingu.

Að halda hreinu

Það er alþekkt að það er betra að halda hreinu en að þrífa eftir að ástandið er orðið slæmt og að verkefnið eitt og sér er auðvitað ekki einfalt og krefst töluverðrar vinnu. Þetta getur t.d. falist í því að skafa básana oft á dag, láta sköfukerfi fjarlægja skít af rimlum eða sléttum flórum oftar yfir daginn, þrífa drykkjarker oftar en ekki eða nota undirburð reglulega og í ríkulegu magni og þar fram eftir götunum. En það er hægt að gera meira til þess að létta sér þessa vinnu. Þannig hefur t.d. loftræsting fjósa bein áhrif og með góðri loftræstingu og lægra rakastigi innan fjóss eru líkurnar minni á því að óhreinindi safnist upp. Þá er um að gera að skoða vel hönnun innréttinga og hvort eitthvað varðandi uppsetningu þeirra skýri það að gripir verði óhreinir. Þá er auðvitað sjálfsagt að klippa alla gripi, svo háralengdin sé ekki að spilla fyrir.

Krefjandi verkefni

Það dylst væntanlega engum að það er töluvert mikið verk að halda nautgripum hreinum í nútímafjósum en jafnframt má hverjum vera ljóst að það, að gera það ekki, getur kostað mikið og dregið úr arðsemi búrekstursins vegna verra heilsufars og líðan gripanna. Þess utan er það spurning um góða ímynd búskaparins að vera með hreinan og sællegan bústofn. Þegar allt framansagt er tekið með í reikninginn ætti því að vera auðvelt fyrir hvern og einn að reikna út arðsemi þess að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir í fjósum sem gera það að verkum að gripirnir haldist hreinir.

Benda má áhugasömum á skylt efni í fyrri tölublöðum Bændablaðsins, t.d. 10. tölublaði 2015, þar sem fjallað er um þrif á spenaendum og einkunnagjöf hreinleika spenaendanna.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...