Hlutfall innlendrar grænmetisframleiðslu dregst saman
Samkvæmt nýrri skýrslu um stöðu fæðuöryggis á Íslandi sem atvinnuvegaráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda, hefur hlutfall innlendrar grænmetisframleiðslu af innanlandsþörf lækkað um tíu prósent á síðustu tíu árum.
Þar segir að ljóst sé að sjálfsaflahlutfall í greininni sé lágt og fari lækkandi. Vísað er til gagna Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna frá síðasta ári þar sem þetta komi fram. Grænmetisframleiðslan fari úr 37% af innanlandsþörf árið 2014 í um 27% árið 2024. Skammvinn viðspyrna áranna 2019 til 2021 hafi ekki enst og undirstriki að landið sé í síauknum máli háð innflutningi.
Stuðningskerfið notað til að styrkja grænmetisframleiðslu
Í skýrslunni segir að vannýtt tækifæri séu í garðyrkjuframleiðslu á Íslandi. Full ástæða sé til að kanna hvort og hvernig hægt væri að beita stuðningskerfi landbúnaðarins til að styðja frekar við grænmetisframleiðslu með það að markmiði að efla hana og stækka hlutdeild innlendrar framleiðslu.
Í skýrslunni segir enn fremur að vegna sterks sjávarútvegs og lagareldis flytji Íslendingar meira út af matvælum en þeir flytja inn. Innlend búvöruframleiðsla sé nálægt því að uppfylla innanlandsþörfina en hún sé mjög háð innfluttum aðföngum. Takmörkuð kornframleiðsla og litlar olíubirgðir séu kerfisbundnir veikleikar í innlendri matvælaframleiðslu
Meira en 95% af kornvörum, ávöxtum og jurtaolíum sé innflutt, auk verulegs hluta grænmetis. Sama eigi við um lykilhráefni eins og kjarnfóður, áburð, olíu, vélar og lyf. Þessi staða gerir Ísland viðkvæmt fyrir ytri áföllum, hvort sem þau stafa af pólitískri spennu eða loftslagsbreytingum.
Treysta alþjóðlegum mörkuðum
Mikilvægt sé að styrkja birgðakeðjur, efla kornrækt og byggja upp viðeigandi birgðahald til að auka viðnámsþol. Flestir Íslendingar njóti góðs aðgengis að matvælum á viðunandi kjörum. Hækkandi matvælaverð geti hins vegar valdið erfiðleikum fyrir lágtekjuhópa, sem undirstrikar mikilvægi þess að fylgjast með verðþróun og tryggja félagslegt stuðningskerfi.
Enn fremur segir í skýrslunni að Ísland treysti á alþjóðlega markaði til að tryggja stöðugt framboð af ýmsum lykilhráefnum fyrir fæðuframleiðslu og fyrir marga fæðuflokka, svo sem korn, ávexti, sykur, olíur og grænmeti.
Fæðuframboð á heimsvísu sé í sögulegu hámarki, og lítil, efnuð þjóð eins og Ísland er því vel í stakk búin til að afla nauðsynlegra matvæla og aðfanga. Mikilvægt sé þó að fylgjast með heimsframleiðslu, viðskiptastraumum og alþjóðastjórnmálum, svo hægt sé að bregðast við mögulegum áföllum í tíma.
Ræktað land stækkar
Varðandi innlenda matvælaframleiðslu segir aukinheldur að íslenskur landbúnaður nýti að mestu leyti graslendi, aðallega til gróffóðurframleiðslu og beitar. Ræktað land hafi aukist úr um 87.000 hekturum árið 2017 í um 94.000 hektara árið 2024, en kornrækt sé enn mjög lítil og nemi aðeins um 4,4% af heildarræktun.
Samkvæmt skýrslunni hefur sauðfé fækkað um nær 30% á síðasta áratug, á meðan nautgripum hefur fjölgað lítillega, einkum vegna aukins fjölda holdagripa. Lagareldi hefur tvöfaldast síðastliðinn áratug og framleiðir verulegt magn af dýrapróteini. En greinin byggir líkt og önnur búfjárframleiðsla á innfluttu fóðri og öðrum aðföngum.
Kornbirgðir duga í fjórar til sex vikur
Stöðug aukning er í innflutningi á fóðri. Hlutfall innlends fóðurs hefur minnkað úr 85% árið 2014 í 73% árið 2023. Meginhluti innlends fóðurs er rúllubaggar og innlend kornframleiðsla vex hægt. Í skýrslunni segir að til viðbótar þessum áskorunum í framleiðslu skorti skipulagt birgðahald.
Kornbirgðir dugi einungis í fjórar til sex vikur og birgðir af annarri matvöru séu takmarkaðar. Olíubirgðir séu mældar í vikum, ólíkt því sem gerist í helstu samanburðarlöndum. Samþjöppun helstu hafna og flutningsinnviða á Suðvesturlandi, ásamt viðkvæmu flutningskerfi raforku og fáum gagnasæstrengjum, undirstriki mikilvægi viðnámsþols og viðbúnaðaráætlana fyrir íslenskt fæðukerfi.
