Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Heilnæmar afurðir og virðing fyrir náttúru, umhverfi og samfélagi
Mynd / Susanne Friis Pedersen, NIBIO
Á faglegum nótum 27. desember 2023

Heilnæmar afurðir og virðing fyrir náttúru, umhverfi og samfélagi

Höfundur: Ingólfur Guðnason, brautarstjóri garðyrkjuframleiðslu, Garðyrkjuskólanum á Reykjum/FSu.

Framleiðsla lífrænt ræktaðra matvæla hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum í nágrannalöndum okkar.

Ingólfur Guðnason.

Heildarframleiðsla lífrænt vottaðra matvæla í Danmörku telur nú yfir 10% af heildarframleiðslu þeirra sem nálgast að vera heimsmet. Svipaða sögu er að segja af aukinni framleiðslu lífrænna landbúnaðarafurða í flestum Evrópulöndum. Íslendingar eiga langt í land með að komast nærri þeirri tölu, allt of fáir framleiðendur sinna þessari hlið matvælaframleiðslu og er garðyrkjan þar engin undan- tekning. Talsvert er flutt inn af lífrænu grænmeti og ávöxtum sem hægt væri að framleiða hér á landi því markaðurinn fer ört vaxandi með aukinni umhverfisvitund neytenda.

Lífrænt ræktaðar matjurtir eru ekki aðeins framleiddar til að gefa neytendum kost á heilnæmu grænmeti án notkunar á tilbúnum áburði, kemískum varnarefnum og erfðatækni. Vakin hefur verið athygli á því að lífrænar ræktunaraðferðir stuðla að bættu umhverfi á svo margvíslegan hátt, til dæmis með nýtingu á lífrænu hráefni sem næringargjafa og aukinni kolefnisbindingu með heilbrigðri jarðvegsrækt. Virðing fyrir náttúrulegum ferlum og verndun líffræðilegrar fjölbreytni eru atriði sem lífrænar ræktunaraðferðir taka mið af og skiptir meðvitaða neytendur sífellt meira máli.

Garðyrkjuskólinn býður upp á nám í lífrænni matjurtaframleiðslu

Í Garðyrkjuskólanum á Reykjum, sem nú er starfræktur sem deild innan Fjölbrautaskóla Suðurlands, er kennd sérstök námsbraut um lífræna matjurtaræktun svo fjölga megi menntuðum garðyrkjufræðingum í þeirri grein. Þessi námsbraut hefur verið starfrækt frá árinu 2014 og nýtur sívaxandi vinsælda enda ótal tækifæri til framtíðar fyrir þá sem tileinka sér þekkingu á lífrænum framleiðsluaðferðum.

Fjölbreytni einkennir námið. Kenndir eru grunnáfangar garðyrkjunáms eins og grasafræði, plöntulífeðlisfræði og almenn ræktunarþekking en einnig lífrænar ræktunaraðferðir í gróðurhúsum og garðlöndum. Nemendur fá fræðslu um umhverfismál, grundvallaratriði vistfræði, verndun lífríkis og ábyrga jarðvegsræktun ásamt sjálfbærni. Lögð er sérstök áhersla á umhverfis- og samfélagslega ábyrgð framleiðenda, jafnt gagnvart neytendum og náttúru. Kennd er býflugnarækt til hunangsframleiðslu, gæðamál, dreifing og úrvinnsla afurða. Kennslan er að hluta til verkleg og er í boði bæði í staðarnámi og fjarnámi.

Grunnstoðir lífrænnar ræktunar eru fjölmargar og áherslur hafa breyst með aukinni þekkingu. Horft er til heilnæmis afurðanna sjálfra á öllum stigum ræktunarinnar en fjölmörg önnur áhersluatriði eru höfð til grundvallar:

  • Lífrænir næringargjafar
  • Ræktun í lifandi jarðvegi
  • Líffræðileg fjölbreytni
  • Uppbygging lífrænnar langtímafrjósemi jarðvegs og verndun hans
  • Endurnýting lífrænna efna, t.d. með jarðgerð og efnahringrás innan býlis
  • Kolefnisbinding
  • Skjól fyrir erfðabreyttum lífverum
  • Eiturefnalaus ræktun
  • Velferð búfjár
  • Virðing og umhyggja gagnvart samfélagi og mannauði
  • Sjálfbærni
  • Áherslur lífrænnar framleiðslu allt frá frumframleiðslu til endanlegrar afurðar
  • Vottun þriðja aðila til að tryggja trúverðugleika framleiðslunnar

Ný aðgerðaáætlun matvælaráðuneytis um stórauknar áherslur í lífrænni framleiðslu vekur vonir.

Í aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar matvælaframleiðslu sem matvælaráðuneytið kynnti fyrir skemmstu er lagt til að ráðist verði í metnaðarfullar aðgerðir til aukinnar lífrænnar framleiðslu með því að örva eftirspurn, tryggja traust neytenda, styðja við aðlögun að lífrænum búskaparháttum og styrkja alla virðiskeðjuna. Áætlunin felur meðal annars í sér að bjóða fjárfestinga- og tækjastyrki, sérstakan stuðning við afurðastöðvar, aukið úrval lífrænna næringargjafa til ræktunar, að styrkja nýsköpun, vöruþróun og rannsóknir ásamt öðrum tillögum. Þessu fagnar Garðyrkjuskólinn og býður fram krafta sína til að ná þessum markmiðum með samstarfi og þróun þekkingar ásamt ráðuneyti og hagaðilum lífrænnar garðyrkjuframleiðslu.

Finna má upplýsingar um garðyrkjunámið á heimasíðu Fjölbrautaskóla Suðurlands: https://www.fsu.is/

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...