Glæsileg hrútasýning á Flúðum
„Sýningin tókst mjög vel, hér var mikið af fólki að fylgjast með og bændur og búalið komu með brot af því besta úr fjárhúsunum sínum á sýninguna.
Allur áhugi á sauðfjárrækt hér í sveitinni og víðar um landið er greinilega að vaxa mjög mikið, sem er algjörlega frábært,“ segir Árni Þór Hilmarsson, formaður Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna, en félagið stóð fyrir glæsilegri hrútasýningu í reiðhöllinni á Flúðum laugardaginn 16. október.

Jökull Helgason á Ósabakka og Sigurfinnur Bjarkarson voru dómarar dagsins.

Stjórnarmenn í Sauðfjárræktarfélagi Hrunamanna klæddu sig upp á í tilefni dagsins. Frá vinstri, Atli Geir Scheving, Óskar Hafsteinn Óskarsson og Árni Þór Hilmarsson, formaður.

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra í Syðra Langholti, og presturinn í sveitinni, Óskar Hafsteinn Óskarsson í Hruna, voru að sjálfsögðu mættir á hrútasýninguna.
