Fjölmargir krýndir í yngri flokkum
Dagana 29. og 30. nóvember fóru fram tvö Íslandsmót. Annars vegar Íslandsmót einstaklinga í fimm aldursflokkum, eða frá 8 ára og yngri og upp í aldursflokk 15 til 16 ára, en tveir árgangar kepptu í hverjum flokki.
Mótið var fjölmennt og fór fram í Miðgarði í Garðabæ. Þegar greinarhöfundur var yngri voru aðeins tveir aldursflokkar á þessum Íslandsmótum en flestir eru sammála um að þetta kerfi sé langtum betra. Sérstaklega í yngstu flokkunum. Gallinn er þó að elstu flokkarnir geta oft verið fámennir, enda mesta brottfallið í skákíþróttinni á síðustu árum grunnskóla og byrjun menntaskóla.
Eftirfarandi snillingar unnu titla á mótinu, Íslandsmeistarar (efstir í flokknum), og Íslandsmeistarar stúlkna (efst stúlkna í flokknum): u8 ára: Róbert Heiðar Skúlason og Emilía Klara Tómasdóttir. u10 ára: Pétur Úlfar Ernisson og Þóra Kristín Jónsdóttir. u12 ára: Haukur Víðis Leósson og Katrín Ósk Tómasdóttir. u14 ára: Jósef Omarsson og Emilía Embla Berglindardóttir. u16: Mikael Bjarki Heiðarsson og Guðrún Fanney Briem. Hér með hafa þau skráð nöfn sín á spjöld sögunnar! Greinarhöfundur var skákstjóri í flokki u10 ára og tók sérstaklega eftir því að 12 af 27 keppendum hafa alþjóðleg skákstig. Það er mín tilfinning að krakkarnir séu að verða betri yngri, en það er samt sem áður enn vandamál fyrir hreyfinguna hve margir hætta eða minnka taflmennsku stórlega á unglingsárum.
En samkvæmt tölfræðinni ætti það smám saman að breytast á næstu árum, í krafti fjöldans!
Daginn eftir fór fram Íslandsmót barna- og unglingasveita í skák á sama stað. Mótið svipar til Íslandsmóts skákfélaga, nema fyrir börn á grunnskólaaldri. Teflt er í þremur flokkum, einum opnum og tveimur yngri flokkum, frá 1.–3. bekk og frá 4.–7. bekk. Sterkir ungir skákmenn tefla þó oft með sínum félögum í opna flokknum ef því er að skipta. Skákdeild KR vann C-flokkinn, 1.–3. bekk, og er þetta þeirra fyrsti Íslandsmeistaratitill í liðakeppni í skák. KR-ingar hafa byggt upp öflugt starf á undanförnum árum og uppskera nú! Taflfélag Reykjavíkur vann B-flokkinn eftir spennandi keppni gegn Fjölni, en aðeins munaði einum vinningi á þeim. Skákdeild Breiðabliks vann opna flokkinn og varði titilinn frá því í fyrra. Ef lesendur Bændablaðsins luma á áhugaverðum skákum geta þeir haft samband.
