Fischersetri fagnað
Fischersetrið á Selfossi varð tíu ára þann 9. júlí síðastliðinn.
Af því tilefni lögðu þeir Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari okkar Íslendinga, og Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands, blómsveig að gröf Bobby Fischers í kirkjugarði Laugardæla. Eins og flestir ef ekki allir vita þá varð Fischer heimsmeistari í skák í Reykjavík sumarið 1972 þegar hann lagði að velli ríkjandi heimsmeistara, Boris Spassky, frá Sovétríkjunum. Einvígi þeirra er alla jafna kallað einvígi aldarinnar. Bobby Fischer lést 17. janúar 2008, 64 ára að aldri. Hann var jarðsettur í nokkur hundruð metra fjarlægð frá Fischersetrinu.
