Við það að fimm loðdýrabú á Suðurlandi hætta starfsemi leggst loðdýrarækt nærfellt af á Íslandi.
Við það að fimm loðdýrabú á Suðurlandi hætta starfsemi leggst loðdýrarækt nærfellt af á Íslandi.
Mynd / Bbl
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginlegri fóðurstöð á Selfossi. Verið er að ljúka slátrun á dýrunum og skinnin verða seld á næsta ári til að hafa upp í fóðurkostnað. Eitt loðdýrabú stendur eftir á Íslandi, í Mosfellssveit.

Björn Harðarson, formaður deildar loðdýrabænda hjá Bændasamtökum Íslands og loðdýra- og kúabóndi að Holti I, er einn fimm loðdýrabænda á Suðurlandi sem standa nú í að slátra öllum sínum minkum, í Holti, 1.500 læðum og hvolpum. Eftir stendur eitt minkabú í Mosfellssveit og má því segja að loðdýrarækt hafi nærfellt lagst af í landinu.

„Við byrjuðum í þessu árið 2012, ég og tengdasonur minn, í gömlum fjárhúsum, þarna í góðærinu, byggðum hús fyrir þetta 2014 og eftir það lækkuðu verðin,“ útskýrir Björn. Í Holti I er einnig rekið kúabú og hann segist reikna með að þau geti haft einhverjar tekjur af eldishúsinu sem geymsluplássi. Loðdýrabændur geti illa nýtt húsin í annað en geymslur, enda séu þetta stórir skálar og óeinangraðir. Hinir fjórir loðdýrabændurnir sem hætta nú loðdýraeldi eru ýmist að vinna utan býlis, með kindur eða kýr, eða við það að hætta sökum aldurs.

Björn kveður enn verulega eftirspurn eftir skinnum á heimsmarkaði „Kínverjar kaupa mest og eru markaðsráðandi. Svo virðist sem óhemjumikið af skinnum sé til á lager frá síðasta hruni, árið 2014, þá datt verðið niður og hefur ekki náð sér á strik síðan. Svo kom auðvitað Covid, þá sáust Kínverjar ekki í tvö ár á markaðnum, og síðan brast á stríð í Úkraínu, þannig að allt hefur borið að sama brunni,“ segir hann.

Grundvöllurinn brostinn

Bjarni Stefánsson, loðdýra- og kúabóndi í Túni I, segist við það að ljúka slátrun, á um 2.000 læðum og svo hvolpum, og hefur verið að mestan hluta nóvember. „Já, þetta kom svolítið bratt því að aðrir voru að hætta og grundvöllurinn undir fóðurstöðinni því brostinn og búið að loka henni. Annars hefði ég verið í þessu eitthvað áfram,“ segir hann og bætir við að reksturinn hafi verið erfiður undanfarin ár. Hann sleppi þó með skrekkinn fjárhagslega þar sem hann sé með kúabúið en þessi hluti rekstursins hverfi.

Á Selfossi er því búið að loka Fóðurstöð Suðurlands sem framleiddi fóður fyrir fimm af sex minkabúum landsins. Hráefnið var að stærstum hluta fisk- og sláturúrgangur sem nú gæti mögulega farið í kjötmjölsvinnslu, að sögn Bjarna.

Hann er búinn að stunda loðdýrarækt í 34 ár og hefur gengið á ýmsu á þeim tíma. „Mér finnst bara mjög vont að loðdýrabúin hætti. Við höfum verið að búa til fóður úr úrgangi og náttúruafurð í klæði. Þetta hefur verið verðmætasköpun hérlendis og mikil sérhæfni. Segja má að þetta sýni hvernig landbúnaðarvörur með langt framleiðsluferli ganga á óheftum markaði,“ útskýrir hann.

Ekki án eftirsjár

Rekstrarumhverfið fyrir loðdýrarækt sé ekki gott hér á landi. „Krónan hefur styrkst sem er vont fyrir útflutninginn og vextir eru svakalegir. Laun eru síðan hærri hér en gerist í flestum samkeppnislöndum. Ef bændur hafa ekki laun í búgreininni, sem á við um fleiri búgreinar og jafnvel landbúnaðinn í heild hér á landi, þá veikist greinin. Svo kemur að þeim tímapunkti að hún hrynur,“ segir Bjarni. Hann er því að kveðja yfir þriggja áratuga starf og ekki án eftirsjár. Að slátra öllum dýrunum sé bæði sárt og erfitt.

Með því að greinin leggst nærfellt af í landinu gætu verið að tapast um tvö til þrjú störf á hverju af búunum fimm, og fleiri sé skinnaverkunin tekin inn í dæmið, en hún hefur farið fram í Túni I. Þá tapast tvö til þrjú störf í fóðurstöðinni.

Skylt efni: loðdýrarækt

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f