Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Eyjólfur Ingvi í Ásgarði í Dölum: „Ég sé ýmislegt jákvætt í stefnu ESB en þegar á hólminn er komið finnst mér við vera orðin of höfuðborgarmiðað samfélag. Ég óttast því að málefni landsbyggðar, ef myndi reyna á alvöru viðræður, yrðu síðastar á dagskrá.“
Eyjólfur Ingvi í Ásgarði í Dölum: „Ég sé ýmislegt jákvætt í stefnu ESB en þegar á hólminn er komið finnst mér við vera orðin of höfuðborgarmiðað samfélag. Ég óttast því að málefni landsbyggðar, ef myndi reyna á alvöru viðræður, yrðu síðastar á dagskrá.“
Viðtal 11. júlí 2025

Ekki sjálfsagt að sauðfjárrækt sé stunduð í sjálfboðavinnu bænda

Höfundur: Þröstur Helgason

Eyjólfur Ingvi Bjarnason er formaður búgreinadeildar sauðfjárbænda og býr í Ásgarði í Dölum. Honum finnst Ísland vera orðið of höfuðborgarmiðað samfélag. Með réttu samtali og skýrri framtíðarsýn sé hins vegar hægt að skapa raunverulegan kraft í sauðfjárrækt og í leiðinni leggja grunn að sterkari byggð í sveitum landsins.

„Ásgarður er má segja hefðbundið sauðfjárbú,“ segir Eyjólfur Ingvi um búskap sinn, „hér hafa verið um 400 vetrarfóðraðar kindur nokkuð lengi en við tökum við búinu hérna um áramótin 2016–2017 af foreldrum mínum, ég hef þó verið viðloðandi búskapinn hér mun lengur og sama ættin búið hér síðan 1810, að ég best veit. Eiginkona mín er Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir og við eigum þrjár dætur. Það var lengi vel þríbýli hér en langafi minn, Bjarni Jensson, kaupir og sameinar alla partana í eina jörð meðan hann bjó hér á árunum 1890–1942. Síðasta hlutann kaupir hann af biskupsskrifstofu árið 1915 en kirkja var hér í Ásgarði til 1882.

Árið sem við tökum við, þ.e. 2017, verður mikið verðfall á sauðfjárafurðum þannig við fórum strax að hugsa hvernig hægt væri að styrkja tekjugrundvöll búsins. Það höfum við gert með því að bæta afurðir eftir hverja kind með bættri meðferð bæði vor og haust. Við leggjum mikið upp úr því að fá féð snemma heim á haustin, koma þyngri lömbum í sláturhús og nýta yfirborgunarálag en geyma léttari lömbin og hafa á góðri beit sem samanstendur af grænfóðri, áborinni há og nýræktuðum túnum. Einnig höfum við tekið í heimtöku talsvert af kjöti og látið vinna úr því ýmsar vörur sem við seljum síðan sjálf. Samhliða þessu byrjuðum við í útiræktun grænmetis árið 2022 og komum upp sjálfsafgreiðsluskýli síðasta sumar við afleggjarana að bænum þar sem neytendur geta afgreitt sig sjálfir. Þessi aukna jarðrækt, hvort sem er fyrir grænfóður eða garðrækt, styður við endurræktun túna og þannig eigum við meira af betra fóðri sem er einn lykillinn af auknum afurðum hjá ánum. Þetta hefur styrkt tekjupósta búsins og við lítum á þetta sem lið í því að þola betur sveiflur í rekstri ef yrði aftur verðfall á sauðfjárafurðum. Jafnframt gerðum við skógræktarsamning árið 2021 og hófum að planta lerki, stafafuru og sitkagreni með það að markmiði að hafa beitarskóg fyrir sauðfé en hann verður nú líklega ekki tilbúinn fyrr en næsta kynslóð bænda tekur við jörðinni.

Það eru ótal tækifæri í búskap en það skiptir miklu máli að hafa skýra framtíðarsýn og þróast í takt við tímann – við lítum þannig á að okkar tækifæri felist í því að hafa fjölbreytta tekjupósta á búinu en stærsta áskorunin er að hafa tíma til að sinna öllum verkefnum vel en við stundum bæði vinnu utan bús ásamt því að ég er í félagsstörfum bænda og hef setið í sveitarstjórn Dalabyggðar frá árinu 2018.“

Hefur ákveðnar áhyggjur af því að fé haldi áfram að fækka

- Það hefur fækkað talsvert í hópi sauðfjárbænda síðustu áratugi og meðalbúið stækkað. Telurðu að enn muni fækka? Þurfa búin að verða enn stærri?

„Það er rétt að frá árinu 2017 hefur vetrarfóðruðum kindum í landinu fækkað um 100 þúsund en meðalbústærðin er svipuð og ef eitthvað er hefur meðalbúið minnkað miðað við niðurstöður í skýrsluhaldi sauðfjár. Ég er að vona að við förum að spyrna okkur frá botninum hvað fækkun fjár snertir en hef ákveðnar áhyggjur af því að fé haldi áfram að fækka. Þar er tvennt sem ræður, kuldakastið sem kom í byrjun júní sl. snerti marga mjög illa og ýfði upp minningar frá síðasta ári og mér kæmi ekki á óvart þó einhverjir sem nálgast búskaparlok ákveði jafnvel að hætta eða draga enn meira saman.

Það er hætt við að sauðfjárbúum fækki og eflaust mun einhver stækka en ég er enginn sérstakur talsmaður slíkrar þróunar vegna þess að samfélagsleg þýðing sauðfjárbúskapar er límið víða í dreifbýlinu líkt og kom vel fram í skýrslu RHA árið 2015. Það þarf að horfa á sauðfjárræktina út frá forsendum stærðarhagkvæmni samhliða samfélagslegu mikilvægi hennar, því hver hlekkur í samfélagskeðju dreifbýlis skiptir meira máli en í þéttbýli. Aukin tækni mun leiða af sér stærri bú á komandi árum en síðan má spyrja þeirrar spurningar hvort það sé hægt að ætlast til þess að landbúnaður og sauðfjárrækt standi ein atvinnugreina undir byggðafestu í dreifbýli.

Önnur áskorun í starfsumhverfi sauðfjárbænda er einnig sú þróun sem er að verða á uppkaupum aðila sem kaupa jarðir í öðrum tilgangi en til landbúnaðar. Þó að í flestum tilvikum sé fólk velviljað landbúnaði þá þekkjum við dæmi um að fólk vill loka að sér og helst ekki vita af samfélaginu sem var fyrir á svæðinu og í raun ýta þeirri starfsemi sem var fyrir á svæðinu burt þannig að svæðið verður fátækara af mannauð en það var fyrir. Í þessu gildir að átök og upphrópanir þjóna ekki tilgangi en fólk þarf að geta rætt saman og fundið leiðir til að efla samfélagið og búa í sátt og samlyndi þrátt fyrir misjafna sýn á hlutina.“

Rekstaraðstæðurnar þurfa að batna

- Hverjar eru rekstraraðstæður sauðfjárbænda? Geturðu lýst afkomunni í þessum búskap?

„Frá því verðfall varð á afurðum sauðfjár árið 2017 hefur rekstrarumhverfi sauðfjárbænda verið mjög krefjandi. Í nýlegri samantekt úr rekstrarverkefni RML fyrir árið 2023 sést að afkoman batnaði og reksturinn fór að skila hagnaði – sérstaklega hjá þeim búum sem hafa meiri afurðir eftir hverja kind. Búin sem eru að ná meiru en 30 kg á hverja kind eru að standa sig best og þar sjást líka merki um bestu framlegðina á hvert framleitt kíló. Það sem skiptir mestu máli í þessu er að það hafa verið hækkanir á afurðaverði til bænda allra síðustu ár en eins hafa komið einskiptisgreiðslur frá hinu opinbera sem hafa skipt máli. Munurinn er þó mikill milli bæja og ljóst að mörg bú geta sótt fram í því að auka afurðir eftir hverja kind.

Aftur á móti er launagreiðslugetan í þessum búskap mjög lág og langt undir því sem gengur og gerist annars staðar í þjóðfélaginu. Mánaðarlaun sauðfjárbónda árið 2023 voru um 45% af meðallaunum í landinu sem segir okkur að það er enn langt í land að þetta sé aðlaðandi starf fjárhagslega. Annað sem sést í rekstrarverkefnunum er að skuldsetningin er minni en í öðrum búgreinum sem er ekkert endilega gott því það er líklega til marks um að fjárhagsleg geta til fjárfestinga er ekki til staðar, t.d. til viðhalds bygginga til að bæta aðstöðu og létta vinnu eða til annarra fjárfestinga til framþróunar.

Um og upp úr 2000 horfðu Norðmenn mjög til Íslendinga varðandi tækni við fóðrun sauðfjár en gjafgrindur ganga undir nafninu „Islandskasse“ á norskum sauðfjárbúum. Norsku búin hafa hins vegar haft úr meiri peningum að ráða til stuðnings síðustu ára m.a. vegna uppbyggingar búvörusamninga þar. Þar hefur tækni við fóðrun þróast enn Ekki sjálfsagt að sauðfjárrækt sé stunduð í sjálfboðavinnu bænda meira og íslensk bú gætu líklega farið að horfa í auknum mæli til Norðmanna varðandi fóðrunartækni en til þess þarf rekstrarumhverfið að batna enn frekar og sérstaklega fjárfestingargetan.

Oft og tíðum heyrist líka frá stjórnmálamönnum að það vanti meira frelsi og fólk eigi að ráða hvað það gerir eða fara að gera eitthvað annað. Þá verðum við að hafa hugfast að mjög víða er sauðfjárrækt hentugasta atvinnugreinin og sú besta til nýtingar á landi. Á þeim svæðum þarf að styðja sérstaklega við greinina svo hún geti vaxið og dafnað. Það eru ekkert allir að fara í útiræktun grænmetis þó ég hafi fengið þá flugu í hausinn og hún gangi þokkalega á mínu búi.

Það er alveg ljóst að rekstraraðstæðurnar þurfa að batna enn frekar í þessari búgrein – það getur ekki verið sjálfsagt mál að sauðfjárrækt sem frumframleiðsluatvinnugrein sé stunduð í sjálfboðavinnu bænda. Í auknum mæli stunda sauðfjárbændur líka aðra vinnu með búskap sem hefur ýmsar neikvæðar afleiðingar, til dæmis á tíma til að sinna fjölskyldu eða eigin heilsu. Síðan er það staðreynd að þegar maður er í vinnu annars staðar þá eru einhver verkefni sem sitja á hakanum heima sem hafa áhrif á afkomu búsins með einum eða öðrum hætti.“

Fleiri neytendur vilja eiga bein samskipti við bændur

- Lambakjötsneysla hefur minnkað. Hefurðu áhyggjur af þeirri þróun?

„Ég hef hóflegar áhyggjur af þeirri þróun. Framleiðsla lambakjöts er kostnaðarsöm samanborið við margar aðrar kjöttegundir sem endurspeglast að hluta í verði vörunnar á markaði. Á sama tíma verðum við einnig að hafa það hugfast að neyslan á Íslandi er með því mesta í heiminum og fólk velur yfirleitt lambakjöt þegar það vill gera vel við sig.

Ég held að þessi þróun tengist frekar samfélagsbreytingum – hraðari lífsstíl, meiri fjölbreytni í mat og minni tími til eldunar – frekar en því að fólk hafi misst áhugann.

Það sem skiptir máli núna er að við sofnum ekki á verðinum. Markaðssetning er verkefni sem þarf að sinna alla daga og má eflaust bæta í því, það má ekki treysta á að lambakjöt seljist af gömlum vana.“

- Þurfa sauðfjárbændur að sækja fram á markaði? Hefur vöruþróun til dæmis verið nægilega hröð og í takti við þarfir neytenda?

„Já – við verðum að sækja fram – bæði í markaðssetningu og vöruþróun. Neytendur breytast og við þurfum að laga okkur að aðstæðum hverju sinni. Það er fullt af tækifærum í því að þróa vörur – hvort sem það eru minni einingar eða nýjar útfærslur á hefðbundnum réttum. Sjálfur hef ég tekið þátt í fjölda markaða síðustu ár á vegum Beint frá býli og átt bein samskipti við neytendur. Þar skynja ég að ákveðið gat er á markaðinum, þ.e. vaxandi hópur neytenda vill eiga bein samskipti við bændur vegna þess að þeir treysta ekki versluninni og að merkingar matvæla séu réttar. Sama hversu oft þetta er rætt virðist ganga hægt að bæta regluverkið varðandi merkingar.

Eins tel ég að það séu tækifæri í meira framboði á fersku kjöti yfir lengra tímabil – þar þarf að koma til ódýrari slátrun utan hefðbundins sláturtíma og síðan að tryggja aðbúnað og fóðrun gripa til slátrunar. Víða erlendis taka bændur að sér að ala lömb í rétta sláturstærð og mögulega eru þar tækifæri fyrir bændur að prófa – en svona framleiðsla kostar meira en þessi hefðbundna framleiðsla okkar frá vori til hausts. Við vorum með verkefni sem þetta á árum áður með sláturtíma frá júlí til desember sem gekk ekki upp þá. Aðstæður eru breyttar núna og ég held að eftirspurnin gæti verið til staðar í dag. Hins vegar er þetta ekki fyrir alla og því þarf þetta að vinnast í samvinnu afurðastöðvar og þeirra bænda sem taka þetta að sér.“

Sauðfjárbændur vilja áfram sambærilegt kerfi

- Nú eru búvörusamningar fram undan og ráðherra talar um nýtt stuðningskerfi eins og fram hefur komið. Hvernig orkar það á ykkur sauðfjárbændur?

„Það kemur okkur sauðfjárbændum spánskt fyrir sjónir því ef nýtt stuðningskerfi verður vanfjármagnað líkt og núverandi kerfi mun það ekki ná fram markmiðum sínum um að viðhalda eðlilegum fjölda bænda og stuðla að tækniþróun og framförum. Sauðfjárbændur vilja áfram sambærilegt kerfi og þeir hafa starfað í sbr. samþykkt deildarfundar í febrúar en það vantar meiri fjármuni inn í kerfið. En það má alltaf endurskoða hlutina með það markmið að bæta þá en það þarf ekki að breyta breytinganna vegna.“

- Líklega verður tekist á um það hvort framleiðslustyrkir verði áfram meginþáttur í stuðningi við bændur eða stuðningurinn verði með öðrum hætti. Hver er þín skoðun?

„Sú umræða hefur verið nokkuð hávær undanfarin árin. Kostir framleiðslustyrkja eru að þeir lenda hjá þeim sem sannarlega eru að framleiða matvæli og lækkar þar með verð á vörunni til neytenda. Það styður líka við meginmarkmið á aðgerðaáætlun um loftslagsmál með því að framleiða vöru og stuðla að sem minnstri losun á hverja framleidda einingu. Hin leiðin og sú sem er verið að kalla eftir skilar ekkert endilega peningum til þeirra sem eru að framleiða matvæli því í einhverjum tilvikum myndu peningarnir enda hjá landeigendum sem eru ekki endilega bændurnir. Sú leið stuðlar að aukinni sóun á skattfé og er jafnframt til þess fallin að draga úr þeim árangri sem er ætlast til að landbúnaður nái samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Stuðningskerfið þarf að vera blanda af framleiðslutengdum styrkjum og óframleiðslutengdum því það þarf að vera einhver fyrirsjáanleiki með tekjustreymi þegar ytri aðstæður eru óhagstæðar og má þar nefna kuldakastið í byrjun júní í fyrra og aftur í ár. Slíkt tíðarfar leiðir af sér minni afurðir að hausti. Það má í raun hugsa þetta þannig að óframleiðslutengdi stuðningurinn sé vísir að afkomutryggingu en sá framleiðslutengdi hvatning til að framleiða sem mest og losa sem minnst kolefni á hverja framleidda einingu.“

Þarf aukið fjármagn

- Þurfa sauðfjárbændur meiri stuðning, meiri pening inn í greinina frá ríkinu?

„Já, ég tel svo vera. Til að kjör sauðfjárbænda verði í sem nánustu samræmi við aðrar stéttir í landinu líkt og kveðið er á um í markmiðakafla búvörulaga þarf aukið fjármagn. Það er ekki hægt að velta allri hækkunarþörfinni út í verðlag og það að laun sauðfjárbónda séu 45% af meðallaunum í landinu segir allt um það bil sem þarf að brúa. Fyrir fáum árum sagði eldri bóndi við mig að við værum ekki nógu nægjusöm, þetta unga fólk í dag. Það má vel vera en yngra fólk mun ekki velja þessa starfsgrein með nægjusemi að leiðarljósi á komandi árum ef næga vinnu er að fá annars staðar sem býður upp á meiri frítíma með fjölskyldu og almennt betri lífskjör.“

- Hvert finnst þér að eigi að vera meginmarkmið nýrra samninga?

„Meginmarkmið nýrra samninga er að fá nægjanlegt fjármagn til landbúnaðar til eflingar innlendrar landbúnaðarframleiðslu í samræmi við landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Samhliða því þarf að fara vel yfir tollverndina og efla eftirlit með innflutningi svo innlend framleiðsla keppi á jafnréttisgrunni við innflutta framleiðslu. Jafnframt þarf að efla tryggingarvernd í landbúnaði því í núverandi tryggingarumhverfi er ekki hægt að kaupa tryggingar við ýmsum þeim tjónum sem bændur geta orðið fyrir.

Einnig þarf að fara vel yfir fjármögnunarleiðir, fjárfestingarstyrki og nýliðun því forsenda þess að áfram verði stundaður öflugur landbúnaður á Íslandi er að nýtt fólk komi inn í greinina og að þeir sem fyrir eru geti bætt vinnuaðstöðu og fjárfest í tækinýjungum til að létta vinnu á réttlátum kjörum.“

Ísland sé mögulega orðið of höfuðborgarmiðað samfélag

- Sú ætlun ríkisstjórnarinnar að bera aðildarviðræður við Evrópusambandið undir þjóðina setur þessa samninga í nýtt samhengi. Breytir það einhverju í þínum huga?

„Í sjálfu sér ekki – hugmyndir ríkisstjórnarinnar um stuðning við landbúnað byggja að einhverju leyti á gömlum upplýsingum um stuðningsform við landbúnað í Evrópu. Það litla sem ég hef kynnt mér landbúnaðarstefnu ESB síðasta árið segir mér að Evrópusambandið er að hverfa meira frá því stuðningsformi yfir í það stuðningsform sem við þekkjum hér á landi sem eru framleiðslutengdir styrkir sem byggja á afurðaskýrsluhaldi og skráningum. Þar erum við mjög framarlega í heiminum og sá félagslegi grunnur sem lagður var að þátttöku í afurðaskýrsluhaldi á árum áður var mikil framtíðarhugsun því hún hefur staðist tímans tönn. Það er miklu frekar að Ísland geti kennt Evrópusambandinu eitthvað um skilvirkt stuðningsform og góða nýtingu skattfjár.

Sauðfjárbúskapur býr yfir miklum tækifærum ef við fáum að starfa innan skýrrar stefnu – þar skiptir máli að atvinnuvegaráðherra beri gæfa til að hugsa til framtíðar með okkur bændum og byggja samtalið upp á þeim nótum. Það sem mestu máli skiptir er að stjórnvöld á hverjum tíma fyrir sig, óháð aðstæðum, hafi skýra stefnu til lengri tíma sem horfir sérstaklega til landsbyggðarinnar. Ég hef það á tilfinningunni að Ísland sé mögulega orðið of höfuðborgarmiðað samfélag.

Það verður ekki hægt að ætlast til þess að sauðfjárrækt og landbúnaður standi einn undir allri byggð í dreifbýli landsins. Ég veit úr störfum mínum í sveitarstjórn að Evrópusambandið styður vel við búsetu í dreifbýli með ýmsum leiðum – það getum við líka gert á Íslandi óháð áformum um aðildarviðræður. Getum við ekki líka tekið samtalið í þá átt að efla landsbyggðina enn frekar og þá þurfa fleiri ráðuneyti einnig að koma að samningaborðinu og við erum að tala um stuðning til matvælaframleiðslu annars vegar og leiðir eða markmið til að efla búsetu í dreifbýli hins vegar.“

Hægt að skapa raunverulegan kraft í greininni

- Formaður Bændasamtakanna sagði í viðtali hér í blaðinu fyrir stuttu að bændur ættu að sammælast um það að auka þekkingu sína á ESB. Hann virtist nokkuð opinn fyrir umræðunni um Evrópusambandsaðild þótt hann hafi ekki verið hlynntur henni sjálfur. Hver er þín afstaða?

„Líkt og formaður Bændasamtakanna er ég opinn fyrir umræðunni en er ekki hlynntur henni sjálfur. Ég sé ýmislegt jákvætt í stefnu ESB en þegar á hólminn er komið finnst mér við vera orðin of höfuðborgarmiðað samfélag. Ég óttast því að að málefni landsbyggðar, ef myndi reyna á alvöru viðræður, yrðu síðastar á dagskrá. Umræðan er hins vegar af hinu góða og það er alltaf betra að taka þátt í umræðunni heldur en að vera bara á móti af því bara án þess að kynna sér hlutina.

Að endingu vil ég segja að framtíð sauðfjárræktar á ekki að snúast um eilífa varnarbaráttu – hún á að snúast um sókn. Með réttu samtali og skýrri framtíðarsýn er hægt að skapa raunverulegan kraft í greininni og í leiðinni leggja grunn að sterkari byggð í sveitum landsins.“

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...