Ekki gripið í tómt
Jarðtengd norðurljós eftir Þórarin Eldjárn inniheldur tvær bækur, Frumbók og Náttbók. Hin fyrrnefnda geymir ljóð og hin síðarnefnda smáprósa eða örsögur af fólki sem stendur frammi fyrir ýmsum vanda og tekur stundum vafasamar ákvarðanir og svo birtast karakterar sem vísað er til með fornöfnunum hann eða hún sem finna sig í hversdagslegum aðstæðum og undrast. Ein af þeim sögum heitir einmitt „Náttbók“ og segir frá manni sem reyndi að halda dagbók til að fanga hversdagslífið en fannst öll sín iðja ómerkileg og vart frásagnarverð. Hann bregður á það ráð að halda náttbók sem verður til þess að líf hans snýst á haus með óvæntum afleiðingum. Stöku sinnum glittir svo í ljóðskáldið sjálft – eða staðgengil þess – þótt það leggi ýmislegt á sig til þess að komast undan árvökulum augum lesandans. Undanbrögð skáldsins ná kannski hvað lengst í „Misst af vagninum“ þar sem lesandanum er beinlínis sagt að hann hafi gripið í tómt þar sem hann er að lesa söguna.
Frumbók er svo annað heiti yfir eins konar dagbók eða kladda, þótt þetta sé einnig orð notað um handfært bókhald og frumhandrit í textafræði. Dagbókarfærslur Þórarins fást vissulega við hversdagslega hluti og jafnvel ómerkilega iðju eins og að bera heim „varning / í Melabúðarpoka / á leið úr Bónus“ sem skáld þurfa að gera líkt og annað fólk. Bókin hefst á tíðindum af komu vorsins sem hefur auðvitað, eins og oft, „misst af nokkrum vögnum / en ekki lestinni“ og berst bara rétt áður en það haustar. Þannig ber endurtekningin með sér tímalaus sannindi á borð við þessi um að tíminn sjálfur geti læknað öll sár: „Sárakrem tímans / hve sáralítil verkan / vísast lyfleysa“. Og hvar verður tíminn óljósara hugtak en í eilífðarvélinni sem heldur sínu striki í lausagangi: „Tifar áfram ódrepandi / þrátt fyrir tímadráp / og dægurmorð“. Og auðvitað er hversdagsmaðurinn eins konar „Eilífðarvélstjóri“.
Þórarinn spinnur sinn sannleiksvef úr orðum sem í meðförum okkar hinna virðast oftar en ekki ljúgfróð um lífið og tilveruna. Þannig er álitsgjafinn „í miklu áliti / en ekki beint gjöfull“ og „reynist vera / einn af þeim / sem flækir sífellt málin / með því að undirstrika / hvað þau séu flókin. // Pillar loks fram sitt álit / með frímerkjatöng / lið fyrir lið / og raðar varlega á borðið / þrátt fyrir dragsúg“.
Það grípur enginn í tómt þegar Jarðtengd norðurljós eru opnuð. Og þau ykkar sem viljið meira má benda á útkomu Dreymt bert sem er safn prósaljóða og örsagna eftir Þórarin og 100 kvæði sem kom út í fyrra.
