Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Dómstiginn til umræðu á fagfundi sauðfjárræktarinnar
Á faglegum nótum 6. apríl 2023

Dómstiginn til umræðu á fagfundi sauðfjárræktarinnar

Höfundur: Eyþór Einarsson, ráðunautur RML.

Fagfundur sauðfjárræktarinnar, sem fagráð í sauðfjárrækt stendur fyrir, verður haldinn á Hvanneyri fimmtudaginn 13. apríl.

Eitt af því sem þar verður tekið til umræðu er dómstiginn í sauðfjárrækt.

Auknar kröfur um vöðvaþykkt

Við sauðfjárdóma er stuðst við bakvöðvamælingar sem framkvæmdar eru með ómsjá. Í dómstiganum fyrir lambhrúta er viðmiðunarkvarði sem tilgreinir kröfur um bakvöðvaþykkt fyrir einkunnir fyrir bak (sjá mynd 1).

Mynd 1. Viðmiðanir fyrir bakeinkunn lambhrúta eins og dómstiginn er í dag, miðað við 45 kg lamb.

Þessi kvarði hefur ekki verið uppfærður í allnokkur ár. Hins vegar hafa verið nokkuð stöðugar framfarir í vöðvaþykkt. Það sést ef skoðuð eru meðaltöl mælinga síðustu ára og eins kom það skýrt fram á sínum tíma í BS verkefni Jóns Hjalta Eiríkssonar við LBHI. Á mynd 2 sést samanburður á dreifingu bakeinkunnar hrútlamba árið 2007 (dómagögn í Fjárvís ekki aðgengileg lengra aftur) og ársins 2022. Samanburðurinn byggir eingöngu á hrútum sem voru á þungabilinu 43 til 47 kg. Líkt og sjá má hefur orðið nokkur samþjöppun einkunna á efri enda skalans.

Mynd 2. Samanburður á dreifingu bakeinkunnar hrúta sem voru stigaðir haustið 2007 og 2022. Í samanburðinum eru eingöngu hrútar sem vigta 43 til 47 kg.

Til að mynda hlutu 150 lambhrútar einkunnina 10 fyrir bak síðasta haust. Nú er eitt af markmiðum búfjárdóma að raða gripum upp eftir gæðum og gera greinarmun á þeim breytileika sem finnst í stofninum. Þar sem meðalhrúturinn í dag hefur orðið talsvert þykkari bakvöðva en þegar skalinn var síðast uppfærður er nú lagt til að herða mörkin og auka kröfur fyrir hverja einkunn um 2 mm. Mun þetta væntanlega leiða til þess að dómar munu liggja aðeins neðar að jafnaði næsta haust en dreifingin verður vonandi meiri og yfirburðastaða þeirra bestu skýrari.

Rýmka kröfur varðandi fitu

Fitan er eiginleiki sem hefur ákveðið kjörgildi, hún þarf að vera hæfileg. Miklar framfarir hafa náðst í þessum eiginleika en um 1990 var farið að vinna markvisst í því í gegnum ræktunarstarfið að draga úr of mikilli fitusöfnun. Mikilvæg hjálpartæki voru ómsjárnar, tilkoma EUROP kjötmatskerfisins og síðan markvisst og vel heppnað val á hrútum inn á sæðingastöðvarnar. Í dag hefur verið dregið úr þessum áherslum.

Meginhluti framleiðslunnar fer nú í fituflokka 2 og 3 sem eru ræktunarmarkmiðsflokkarnir.

Hugsanlega þarf að fínstilla þessi markmið enn betur. Vægi fitunnnar í heildareinkunn kynbótamats var nýlega breytt og vegur nú aðeins 5%. Varðandi dómstigann, þá var upphaflega engin krafa um lágmarksfitu þegar bakeinkunn hrúta var ákvörðuð. Fyrir nokkrum árum var ákveðið að gera þá kröfu til hæstu einkunna að þar væri fitan á bilin 1,5 til 3 mm. Lagt er til að þessi viðmið verði nú uppfærð í 2,0 til 4,0 mm fyrir hæstu einkunnir. Þarna er miðað við að lömb með hæstu einkunnir séu að flokkast í fituflokka 2 og 3 samkvæmt EUROP mati en heltin af lömbum sem hafa verið mæld og eru með bakvöðvafitu á þessu bili flokkast í þá flokka.

Ullardómar verði óháðir lit kindarinnar

Dómstiginn fyrir ull lamba hefur í gegnum tíðina tekið mikið tillit til þess hvernig kindin er á litinn. Aðeins hreinhvítar kindur hafa getað fengið hæstu einkunn fyrir ull. Lengi vel fengu tvílitar kindur aldrei hærra en 7,0 en hreinir dökkir litir gátu farið í 7,5. Fyrir u.þ.b. 10 árum voru gerðar talsverðar tilslakanir á þessu en þó er dómstiginn enn þannig uppbyggður að í honum eru eldveggir gagnvart litum og hreinhvítu kindurnar hafa forgjöf fram yfir alla aðra liti. Ástæðan fyrir þessari tilhögun er að ræktunarstefnan hefur ætíð verið að leggja höfuðáherslu á hvíta úrvals ull. Hins vegar hefur alltaf verið og er enn mikilvægt markmið að viðhalda þeim fjölbreytileika sem stofninn okkar býr yfir varðandi litafjölbreytni.

Nú leggjum við til að ullardómurinn byggi eingöngu á ullargæðum óháð því hver grunnlitur kindarinnar er. Þannig gæti t.d. hvít kind, þó hún sé ekki hreinhvít, flekkótt kind eða golsótt stigast hærra fyrir ull en áður
svo lengi sem gæðaþættirnir leyfa það. En við mat á gæðum hefur m.a. verið horft til ullarmagns, fínleika ullarinnar, mýktar, hversu vel hún er hrokkin og hreinleika litarins.

Þótt dómstiginn muni þar með ekki taka tillit til þess lengur á hvaða liti eigi að leggja mesta áherslu á í framleiðslunni þá munu þau skilaboð væntanlega koma áfram frá ullarkaupendum og eins má tilgreina það í ræktunarmarkmiðunum áfram. Þessi breyting á notkun skalans mun vonandi geta skilað því að teygni í ullardómum aukist, dómarnir gefi betri upplýsingar um eðlisgæði ullar og þessi gögn verði hugsanlega nýtanleg í framtíðinni til að byggja á þeim kynbótamat fyrir þennan eiginleika. En öll gögn um ullargæði til að vinna með í ræktunarstarfinu eru mjög takmörkuð.

Bændur sem hafa skoðanir á þessum atriðum eða öðrum sem lúta að dómstiganum eða ræktunarmarkmiðunum eru hvattir til að taka þátt í fagfundi sauðfjárræktarinnar.

Skylt efni: sauðfjárrækt

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...