Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Danskir kúabændur með bæði stærstu búin og afurðamestu kýrnar
Á faglegum nótum 3. september 2025

Danskir kúabændur með bæði stærstu búin og afurðamestu kýrnar

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Dönsk mjólkurframleiðsla heldur áfram að vaxa ár frá ári og eru dönsku kúabúin nú þau langstærstu í Evrópu og eins og það væri ekki nóg þá eru þau líka þau afurðamestu þegar horft er til afurðasemi dönsku kúnna í samanburði við aðrar kýr í Evrópu. Eins og fram kemur í skýrslu NMSM samtakanna, sem eru samstarfsvettvangur Norðurlandanna um ýmis málefni sem snerta mjólkurframleiðslu, var árið 2024 hagfellt fyrir norræna mjólkurframleiðslu en alls framleiddu Norðurlöndin 12,4 milljarða lítra mjólkur.

1,8% aukning mjólkurframleiðslunnar

Árið 2024 varð aukning í heildar mjólkurframleiðslu Norðurlandanna um 216 milljónir lítra, eða um 1,8%. Það er töluverður viðsnúningur frá árinu áður þegar varð samdráttur um 0,4% frá fyrra ári. Þetta eru afar góð tíðindi enda hafa margir haft áhyggjur af því að framleiðslan myndi frekar dragast saman en aukast. Mest aukning varð í Danmörku í lítrum talið, eða um 186 milljónir lítra, sem svarar til 3,3% aukningu á milli ára. Hlutfallslega mest aukning varð þó í Noregi en þar jókst framleiðslan um 5,4% sem eru einkar ánægjulegar fréttir enda hefur norskur mjólkuriðnaður átt nokkuð undir högg að sækja undanfarin ár. Framleiðslan á Íslandi jókst örlítið á milli ára en bæði í Svíþjóð og Finnlandi varð lítils háttar samdráttur eins og sjá má við lestur meðfylgjandi töflu.

Dönsk mjólkurframleiðsla lang umsvifamest

Líkt og undanfarin ár þá er danska mjólkurframleiðslan langumsvifamest innan Norðurlandanna en dönsku kúabúin framleiddu í fyrra 5,9 milljarða kílóa, eða um 47% allrar mjólkur þessara fimm landa. Næstframleiðslumesta landið er Svíþjóð með 2,8 milljarða innveginna kílóa, eða um 23% heildarframleiðslunnar. Finnland er svo þar á eftir með um 17% framleiðslunnar og Noregur með 12%. Íslenska mjólkurframleiðslan rekur svo lestina með 1% heildarframleiðslu mjólkur á Norðurlöndunum.

15 þúsund kúabú

Á milli áranna 2023 og 2024 fækkaði kúabúunum á Norðurlöndunum um 5,3% og voru þau um síðustu áramót 15 þúsund talsins og hafði búunum þá fækkað alls um 845 á milli ára. Mest fækkun varð í Finnlandi, þar sem 296 kúabú hættu framleiðslu og nam fækkun búanna þar 7,1%. Þá fækkaði kúabúunum í Danmörku um 11,6% og í Svíþjóð um 4,2%. Mestur fjöldi búa er enn í Noregi en þar voru um áramótin síðustu 6.108 kúabú í rekstri og næstmestan fjölda kúabúa á Norðurlöndunum er að finna í Finnlandi þar sem voru 3.883 kúabú um síðustu áramót.

1,3 milljónir mjólkurkúa

Eins og áður segir fækkaði fjósum á Norðurlöndunum töluvert á milli ára og kúnum fækkaði samhliða en þó ekki í sama hlutfalli. Kúnum fækkaði einungis um 15 þúsund, eða sem nemur 1,2%. Þessi fækkun er umtalsvert minni en varð á milli áranna 2022-2023 þegar þeim fækkaði um 28 þúsund. Ætla mætti að kúnum myndi fækka meira, samhliða fækkun búa, en skýringin á því að svo er ekki felst einfaldlega í því að kúnum fjölgaði umtalsvert á þeim búum sem eftir stóðu.

Meðalinnleggið 825 þúsund kíló

Ársframleiðsla norrænu kúabúanna er auðvitað nátengd bústærðinni, en að jafnaði lagði hvert bú inn 825 þúsund kíló á síðasta ári. Undanfarin ár hefur þróunin verið öll í sömu átt þ.e. hvert bú hefur verið að leggja inn meiri og meiri mjólk á milli ára að jafnaði. Ef fram heldur sem horfir má búast við því að í kringum 2030 þá verði meðalbúið komið í 1 milljón lítra framleiðslu að jafnaði! Rétt eins og undanfarin ár bera dönsku kúabúin höfuð og herðar yfir önnur kúabú á Norðurlöndunum og raunar í allri Evrópu. Þar var hvert bú að leggja inn að jafnaði 2,9 milljónir kílóa árið 2024 sem er 1,8 milljón kílóum meira en sænsku búin sem voru þó með næstmestu framleiðsluna eða um 1.093 kíló mjólkur. Minnst var framleiðsla hvers kúabús í Noregi, en þar voru lagðir inn að jafnaði 242 þúsund kíló frá hverju búi árið 2024.

86 kýr að meðaltali

Undanfarin ár hefur meðalbústærð á Norðurlöndunum aukist jafnt og þétt og árið 2024 hélt sú þróun áfram. Um áramótin 2023-2024 var meðalbústærðin komin í 86 kýr að jafnaði sem er aukning um 4,4% frá fyrra ári. Sem fyrr eru það hin dönsku kúabú sem bera höfuð og herðar yfir önnur bú á Norðurlöndunum og raunar allra landa í Evrópu. Þar var meðalbúið komið í 268 kýr að jafnaði um síðustu áramót, sem er mikil aukning frá árinu á undan. Kúabúin á hinum Norðurlöndunum stækkuðu einnig öll að meðaltali en þó varð minnstur framgangur á Íslandi þar sem meðalbúið stækkaði einungis um 0,5 kýr. Næststærstu kúabú Norðurlanda er sem fyrr að finna í Svíþjóð, en þar voru búin um síðustu áramót meða 113 kýr að jafnaði. Þar á eftir koma hin finnsku kúabú með 59 kýr að jafnaði og þá koma hin íslensku kúabú með 55 kýr. Norsku búin eru líkt og áður langminnst að meðaltali en þar eru ekki nema um 34 kýr á hverju búi og þarf því allar kýr átta norskra kúabúa til þess eins að fylla eitt danskt fjós!

Meðalkýrin að skila 9,6 tonnum í afurðastöð

Þegar horft er til afurðasemi kúnna á milli landanna er staðan nokkuð ólík eftir því hvaða land á í hlut, enda hefur þar áhrif bæði kúakynið sem er notað við framleiðsluna og það umhverfi sem kúabúin starfa við. Oftast er það svo að þegar meðalafurðir eru metnar, er notast við skráðar skýrsluhaldsafurðir, þ.e. uppgefnar afurðir búa sem taka þátt í skýrsluhaldi. Þá er ekki tekið tillit til heimanota á mjólk eða mögulegra áfalla vegna sjúkdómameðhöndlunar svo dæmi sé tekið. Í samanburði NMSN er hins vegar notast við upplýsingar um alla innvegna mjólk til afurðastöðvanna í löndunum og svo heildarfjölda skráðra mjólkurkúa í löndunum. Þegar þetta er reiknað þannig út kemur í ljós að sem fyrr eru mestar meðalafurðir að finna í Danmörku, þar sem hver kýr er að skila að jafnaði 10.807 kg mjólkur í afurðastöð. Ætla má að í árslok þessa árs verði meðaltalið þar í landi í fyrsta skipti komið yfir 11 tonna múrinn. Í Danmörku eru það Holstein kýrnar sem draga meðaltalið vel upp, enda eru skýrsluhaldsafurðir þeirra vel yfir 12 tonnum í dag á ári. Á eftir hinum dönsku kúm koma svo þær sænsku með 9.689 kg og þá þær finnsku með 9.224 kg. Næstafurðalægstu kýrnar eru í Noregi, en að jafnaði eru lögð inn 7.115 kg þar í landi eftir hverja kú. Sem fyrr eru svo íslensku kýrnar í neðsta sæti þessa lista með 6.080 kg innlögð kg að jafnaði, eða 56% af afurðasemi danskra stallsystra þeirra. Þess má þó geta að í fyrsta skipti í Íslandssögunni fóru reiknaðar afurðir íslenskra kúa, miðað við innlagaða mjólk, yfir 6 tonn!

Mjólkurframleiðsla Norðurlandanna, ýmsar tölulegar upplýsingar. Byggt á árlegu uppgjöri NMSM samtakanna.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...