Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Jakobína við skrifborðið í Garði þar sem hún skrifaði flestar sínar sögur.
Jakobína við skrifborðið í Garði þar sem hún skrifaði flestar sínar sögur.
Mynd / jakobinasigurdardottir.wordpress.com
Menning 6. febrúar 2024

Andúð á hernaði og stríði

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Jakobínu Sigurðardóttur.

Jakobína (1918– 1994) fæddist og ólst upp í Hælavík á Hornströndum. Hún flutti sautján ára gömul að heiman, árið 1935, til Reykjavíkur og hugðist afla sér menntunar en lítið varð úr þeim áformum því fá tækifæri voru fyrir efnalitlar konur á þeim tíma. Einnig vann húnum tíma sem kaupakona í Árnessýslu. Árið 1949 flutti hún norður í Mývatnssveit og hóf búskap í Garði II ásamt manni sínum, Þorgrími Starra Björgvinssyni, til dánardags. Varð þeim fjögurra barna auðið og bæði settu þau sterkan svip á þjóðlífið á sinni tíð.

Eftir Jakobínu liggja fjórar skáldsögur, þrjú smásagnasöfn, ævintýri, kvæðabók og endurminningabók. Hún var tvisvar tilnefnd fyrir Íslands hönd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og hlaut ýmsar viður- kenningar aðrar. Bækur Jakobínu hafa verið þýddar og gefnar út á dönsku, sænsku og rússnesku.

Ljóð Jakobínu fela mörg í sér sterkan boðskap um frið og andúð á hernaði og stríði. Þetta eru ýmist snörp pólitísk ádeiluljóð eða undurfögur náttúruljóð og ættjörðin og mennskan ætíð nálægt: Drag helskóna af fótum þér, / leys hönd þína af vopninu, / að við megum lifa / að við megum blómstra / í þúsund liðu.

Ljóðabókin Kvæði kom fyrst út árið 1960 og var endurbætt og aukin 1983. Frægasta kvæði Jakobínu á alþjóðavísu er líklega Vökuró, sem hér fer á eftir, en Björk Guðmundsdóttir söng ljóðið við lag Jórunnar Viðar á plötunni Medúlla árið 2004.

Ásta Kristín Benediktsdóttir íslenskufræðingur bjó út fróðlegan vef um líf og starf Jakobínu og ber hann nafn hennar: jakobinasigurdardottir.wordpress.com.

Vökuró

Bærinn minn,
bærinn minn og þinn
sefur sæll í kyrrð.
Fellur mjöll
hljótt í húmi á jörð.
Grasið mitt
grasið mitt og þitt
geymir mold til vors.

Hjúfrar lind
leynt við brekkurót,
vakir eins og við.
Lifi trú
kyrrlát kaldavermsl
augum djúps
út í himinfirð
stara stillt um nótt.

Langt í burt
vakir veröld stór,
grimmum töfrum tryllt,
eirðarlaus,
óttast nótt og dag.
Augu þín,
óttalaus og hrein,
brosa við mér björt.

Vonin mín,
blessað brosið þitt,
vekur ljóð úr værð.
Hvílist jörð
hljóð í örmum snæs.
Liljuhvít
lokar augum blám
litla stúlkan mín.

Kvæði, Heimskringla, 1960, bls. 63-4.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...