Lesendabásinn 22. janúar 2020

Tilfinningar og varnarhættir

Lúðvíg Lárusson, cand. psych. og skógarbóndi
Að gefnu tilefni vil ég leggja orð í belg varðandi umfjöllun fréttamiðla af vetrarhretinu um miðjan desember á Norðurlandi vítt og breitt þar sem aftakaveður varð og setti daglegt líf úr skorðum í miklum mæli. Það var átakanlegt að heyra og sjá og lesa um þær hamfarir sem dundu yfir landið norðanvert þar sem lítið var við ráðið til að sinna eðlilegum störfum til sveita. 
 
Þegar ég var að ljúka námi við Hafnarháskóla í mínu fagi valdi ég að skrifa lokaritgerð um virkni tilfinninga og varnarhátta í sállíkamlegum kvillum fólks. Varð það vegferð sem tók á sig ýmsar krókaleiðir sem ég síst bjóst við. Eins og heitið bendir til varð þetta ferðalag um völundarhús þróunarsögu dýra og manna. Þó þetta eigi ekki að vera endurtekning á öllu því er gott að hafa í huga að spendýr og þá við mannfólkið höfum erft þá eiginleika þróunarinnar sem orðið hefur sl. milljón ár frá skriðdýrum og fram eftir. 
 
Það sem markverðast er í þessu er að tilfinningar þróuðust væntanlega sem lausn á tímaskorti dýra í hættulegum aðstæðum milli bráðarinnar og rándýrsins þar sem ekki varð mikill tími til að hugsa um úrræði en þeim mun betra að hafa nokkrar öruggar, sjálfvirkar leiðir til að bregðast við eins og að flýja, leika sig dauðan o.s.frv.  frekar en að mæta átökunum. Þannig mynduðust 8 grunntilfinningar eða sambland af fleiri viðbrögðum sem eru ómeðvituð og koma á sekúndubroti og eru meðfæddir hæfileikar og auka líkur á að lifa af í slíku umhverfi. Hinn meginhæfileikinn sem hefur þróast mest með okkur manninum er sk. vitsmunagreind með tilkomu heilabarkarins og nýtist betur þegar tími er fyrir hendi til að komast að „bestu“ niðurstöðu og með reynslunni nýtist hún líka þar sem tími er ekki eins afgerandi við upplýsingaleitina. 
 
Einn af brautryðjendunum  í þessum rannsóknum var Bretinn Charles Darwin sem kannaði mikið viðbrögð hunda og andlitsásýnd í þeim aðstæðum. Þetta var nokkrum árum á undan brautryðjendastarfi Sigmund Freud en hefur einskorðast við dýraatferlisfræði að manninum undanskildum því miður. 
 
Hver er þá ástæðan fyrir því að nefna þetta núna? Jú, þar sem þessir hæfileikar sem nefndir voru eru meðfæddir með uppsafnaðri þróunarreynslu er gott að hafa það í huga að tilfinningar eru smitandi manna í milli og milli manna og dýra. Þetta er mjög öflug leið til að koma til­finningalegum skilaboðum til skila með eða án orða þannig að hægt er að fá umhyggju og aðhlynningu strax ef með þarf í tilfinningalega þungbærum aðstæðum og þannig fá stuðning strax og vitneskju um hvort maður standi ein (-n) eða ekki. Þetta er uppistaðan í samhygðinni með öðrum í þungbærum aðstæðum og góð leið til að tengjast betur öðrum tilfinningalega.
 
Þessi hæfileiki er meðfæddur og fer ekki í kyngreiningarálit nema að menningarkimar krefjist þess og reynt sé að bæla hann niður. Það ber að vara við að bæla jafn mikilvæga hæfileika að geta sýnt breidd sína í tilfinningalegum viðbrögðum eftir aðstæðum sem hver og einn hefur til að tjá upplifun sína í ýmsum aðstæðum þegar náinn félagi hverfur frá manni í tilverunni oft eftir langar og gagnkvæmar samverustundir með þeirri gleði og fyrirhöfn sem maður getur haft með mökum, börnum og dýrum. Þess vegna er það heilandi að geta virt tilfinningaleg viðbrögð sín í aðstæðum sem líkleg eru til að skapa betri tengsl og skilning okkar nánustu til að komast sem fyrst á sporið aftur. Það er þekkt að foreldrar læra fljótt að nýta þessa hæfileika með því að greina hljóð og grát ungbarna þegar þau tjá þarfir sínar fyrir máltöku en þá eru tilfinningaleg samskipti beggja kynja besta samskiptaformið því það greina ungbörnin strax enda meðfætt. 
 
Ekki er eðlislægur greinarmunur á körlum og konum hvað þessa hæfileika varðar en maður getur valið að hafna þessum hæfileikum en verða þá af mun ríkari tengslum fyrir vikið. Eitt ber að vara við í leiðinni en það er að nota orðið „grenjuskjóða“ hvort sem er um að ræða börn eða fullorðna því það er eingöngu nýtilegt til að meiða, særa eða fyrirlíta og ber því að varast. 
 
Lúðvíg Lárusson,
cand. psych. og skógarbóndi