Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Anna Björk ólst upp á Fossnesi í Gnúpverjahreppi, en virkjunarframkvæmdir munu hafa mikil áhrif á fallegt útsýni frá bænum (sjá mynd neðar).
Anna Björk ólst upp á Fossnesi í Gnúpverjahreppi, en virkjunarframkvæmdir munu hafa mikil áhrif á fallegt útsýni frá bænum (sjá mynd neðar).
Fréttaskýring 9. júní 2017

Fyrirhuguð Hvammsvirkjun setur stórt strik í reikninginn

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Ungt fólk með sterk tengsl við Skeiða- og Gnúpverjahrepp vill nýta auðlindir Þjórsár til uppbyggingar fyrir samfélagið í sveitinni í stað þess að virkja ána og senda orkuna til uppbyggingar kísilvera á Reykjanesi. Þau telja mikla möguleika í atvinnuuppbyggingu á svæðinu og vinna nú að því að framkvæma nokkrar hugmyndir sveitunga.
 
Gjálp er ársgamalt félag sem beitir sér fyrir atvinnuuppbyggingu við Þjórsá. Kveikjan að félaginu voru orð úr úrskurði Skipulagsstofnunar um endurskoðun á umhverfismati fyrir Hvammsvirkjun. Í úrskurðinum segir: 
 
„Umfang og vægi ferðaþjónustu hefur gjörbreyst á stuttum tíma, í því felast tækifæri til atvinnu- og verðmætasköpunar.“ 
 
„Það voru þessi tækifæri sem við vildum skoða og láta verða að veruleika. Það er fullt af tækifærum á þessu svæði til atvinnuuppbyggingar og hægt að nýta auðlindir Þjórsár í annað en að virkja og flytja orkuna af svæðinu til að nota t.d. í kísilveri á Reykjanesi eins og áætlanir eru um,“ segir Anna Björk Hjaltadóttir, formaður Gjálpar.
 
Truflar framtíðaráætlanir
 
Anna Björk ólst upp á Fossnesi í Gnúpverjahreppi en starfar sem viðskiptafræðingur í Reykjavík. Hún vill þó gjarnan flytja heim í sveitina en fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir við bæjarhlaðið aftri þeim áformum.
 
Útsýnið frá Fossanesi mun breytast töluvert ef af virkjunarframkvæmdum verður, eins og sjá má á þessari mynd.
 
„Minn draumur er að reka mitt eigið hugbúnaðarfyrirtæki sem skapar atvinnu fyrir tækni- og hugbúnaðarmenntað fólk á svæðinu. Innviðirnir eru til staðar, en ljósleiðari liggur inn á hvern einasta bæ. Annar möguleiki fyrir mig væri að taka við ferðaþjónustunni sem mamma er með í Fossnesi.“
 
Fyrirhuguð Hvammsvirkjun setji stórt strik í reikninginn
 
„Virkjunin á að koma beint fyrir framan bæinn, sem takmarkar framtíðarmöguleika á uppbyggingu ferðaþjónustu og nýtingu jarðarinnar til frekari uppbyggingar sumarhúsa vegna áhrifa virkjunarinnar á útsýni frá bænum. Að sama skapi er ég ekki spennt fyrir því að byggja hús þarna fyrir sjálfa mig ef það á svo að skemma útsýnið. Þessi virkjun truflar því mínar framtíðaráætlanir og á meðan hún er á borðinu held ég að mér höndum, eins og fleiri sem eru í svipuðum sporum,“ segir Anna Björk.
 
Skrifstofuklasi sem suðupottur
 
Gjálp hélt hugmyndasmiðju í nóvember síðastliðnum þar sem íbúar og annað fólk tengt sveitinni veltu upp hugmyndum að atvinnutækifærum í eftirfarandi málaflokkum; ferðaþjónustu, tækni, hugbúnaði, heilsu, menningu og nýsköpun í landbúnaði. Um 40 manns sátu fundinn sem uppskáru yfir 100 tillögur. Kosið var um bestu tillögurnar, sem félagið hyggst nú vinna betur að í samstarfi við sveitarstjórn og atvinnumálanefnd sveitarfélagsins. 
 
Um 40 manns sátu hugmyndasmiðju og uppskar fundurinn yfir 100 tillögur.
 
„Efst á blaði var hugmynd að skrifstofuklasa þar sem einyrkjar og fyrirtæki gætu leigt skrifstofuaðstöðu. Í slíku húsnæði getur fólk í fjarvinnu í mismunandi greinum farið af heimilinu á vinnustað í stað þess að vinna heima. Þarna skapast aðstæður þar sem margar atvinnugreinar koma saman og mynda suðupott sem ýtir undir uppsprettu hugmynda, verkefna og jafnvel fyrirtækja. Svona skrifstofuklasi gefur líka vel menntuðu og tekjuhærra fólki tækifæri til að flytja í sveitina sem auðgar samfélagið og og hækkar útsvarstekjur sveitarfélagsins,“ segir Anna Björk. 
 
Hún bætir við að slíkt húsnæði myndi einnig nýtast fyrir bændamarkað þar sem matur og handverk úr héraði yrði selt og myndi það ýta undir frekari verðmætasköpun í landbúnaði. Þar væri líka hægt að reka veitingastað sem nýtist bæði heima- og ferðamönnum. Hugmyndir tengdar slíku húsnæði nutu mikils fylgis í hugmyndasmiðjunni og voru þær meðal fimm bestu tillagnanna. Hugmyndin er nú þegar farin að gerjast innan sveitarfélagsins.
 
„Verið er að vinna að atvinnumálastefnu fyrir sveitarfélagið og þar eru hugmyndir sem eru í samhljómi við tillögu okkar,“ segir Anna Björk.
 
Af öðrum hugmyndum sem fengu kjörgengi á hugarflugsfundinum var tillaga að uppbyggingu Þjórsárdalslaugar, tillaga að snjallforriti sem lýsir staðarháttum, innihéldi fróðleik og sögu um svæðið og gæti haft áhrif á umferð ferðafólks, sem og nokkuð skemmtilega hugmynd að aparólu frá Hagafjalli inn í Þjórsárdal.  
 
Landsvirkjun kaupir sér velvild með brúarsmíð
 
Þá er brú yfir Þjórsá félagsmönnum Gjálpar hugleikin og eru þau ekki hrifin af nálgun Landvirkjunar að fyrirhugaðri brúarsmíð sem Anna telur óásættanlega.
 
„Okkur gremst að það sé verið að setja samasemmerki milli nýrrar brúar yfir Þjórsá og virkjunar, eins og brúin komi eingöngu ef virkjunin verði að veruleika,“ segir Anna Björk. Brú yfir Þjórsá yrði mikil samgöngubót fyrir sveitarfélögin og myndi skapa aukin tækifæri til atvinnuuppbyggingar með auknum samgöngum milli Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárvallarsýslu.
 
Gjálp vill breyta því viðhorfi að líta á brúna sem órjúfanlega heild af virkjuninni enda er brúin ekki hluti af virkjuninni. Gjálp telur í raun að Landsvirkjun sé að nota brúarsmíðina í hrossakaupum við sveitarstjórnir og til að kaupa sér velvild íbúa á svæðinu. 
 
Landsvirkjun hefur opnað vefsíðuna hvammur.landsvirkjun.is með upplýsingum um fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar. Hér má sjá eitt dæmi um hvernig ákveðið svæði mun líta út fyrir (t.v.) og eftir (t.h.) framkvæmdir. Horft er til suðvesturs frá Þjórsárdalsvegi, austan við Þverá.
 
„Það kom í ljós á fundi sem við áttum með Landsvirkjun að þeir þurfa í raun og veru ekki á brúnni að halda fyrir Hvammsvirkjun. En þeir eru búnir að semja við sveitarfélögin um að brúin komi með virkjuninni. Brúin er því borgun fyrir virkjunina til sveitarfélaganna sem hefur um leið valdið því að sveitarstjórnirnar á svæðinu hafa ekki „tekið slaginn“ við stjórnvöld um að fá brúna eina og sér heldur bara hallað sér aftur og beðið eftir að virkjunin komi með brúna,“ segir Anna Björk. 
 
Með þessu sé búið að skapa hugrenningatengsl meðal íbúa á svæðinu um að virkjunin sé jákvæð því með henni fáist brú, að sögn Önnu Bjarkar. Þessi hugrenningatengsl endurspeglist í könnun sem Landsvirkjun gerði í sveitinni, sem var hluti af endurskoðun umhverfismats fyrir Hvammsvirkjun. Þar var verið að kanna afstöðu meðal íbúa- og sumarhúsaeigenda til fyrirhugaðrar virkjunar. 
 
„Í könnuninni var alltaf verið að troða brúnni inn í allar spurningar. Þannig sýna niðurstöður jákvæða afstöðu gagnvart virkjun þegar þátttakendur hafa í raun verið að svara jákvætt vegna brúarinnar. Niðurstaðan endurspeglar aðallega að fólk vill fá brú en Landsvirkjun vill túlka að jákvæðnin sé til virkjunarinnar. Niðurstaða könnunarinnar er því ómarktæk því rangt er að halda því fram að þessi jákvæðni sé út af virkjuninni einni og sér,“ segir Anna Björk.
 
Ómetanlegt gildi fyrir sveitarfélög
 
Í stjórn Gjálpar sitja, ásamt Önnu Björk; Edda Pálsdóttir frá Hamarsheiði, Pálína Axelsdóttir Njarðvík frá Eystra Geldingaholti, Guðlaugur Kristmundsson frá Haga og Ingibjörg Sæunn Jónsdóttir frá Skeiðháholti. Þó flest þeirra búi í borginni sinna þau mörg landbúnaðarstörfum á æskuslóðunum.
 
Því er það svo að þegar sauðburði lýkur mun stjórnin setja verkefni félagsins á oddinn. Áfram verður haldið, í samvinnu við atvinnumálanefnd sveitarfélagsins, að raungera skrifstofuklasann og hafist verður handa við að vinna að öðrum tillögum hugmyndasmiðjunnar. „Þá hefur umhverfisnefnd sveitarfélagsins óskað eftir að við vinnum með þeim að friðlýsingu á Gjánni í Þjórsárdal.“
 
Anna Björk Hjaltadóttir, formaður Gjálpar, félags um atvinnuuppbyggingu við Þjórsá.
 
Anna Björk segist halda að gildi félagsskapar eins og Gjálpar fyrir sveitarfélög og sveitunga sé afar verðmætt.
 
 „Eins og ég sé þetta þá tel ég það vera mjög verðmætt og jafnvel ómetanlegt fyrir sveitarfélög og sveitunga að hafa svona félag af ungu fólki sem vinnur grasrótarstarf í sjálfboðaliðavinnu með þá hugsjón að efla og auðga sveitina með fjölbreyttu atvinnulífi. Þannig búum við til aðstæður þar sem ungt fólk getur séð framtíð sína innan sveitarinnar, haft tækifæri til að flytja „aftur heim“, búið nærri fjölskyldu  og vinum og með því gert sveitina að fjölbreyttara og sterkara samfélagi.“ 
 
 
Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...