Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Lirfur hermannaflugunnar nærðust á úrgangi úr fiskframleiðslu en úr lirfunum var svo unnið eldisfóður.
Lirfur hermannaflugunnar nærðust á úrgangi úr fiskframleiðslu en úr lirfunum var svo unnið eldisfóður.
Fréttir 13. júní 2017

Framleiðsla skordýra reyndist ekki arðbær

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
„Vandamálið sem við stóðum frammi fyrir var að á Íslandi er, þrátt fyrir allt, ekki nóg af vannýttu hráefni til þess að það stæði undir því að vera grunnur fóðurframleiðslu með hermannaflugum,“ segir Gylfi Ólafsson, annar stofnenda Vía, nýsköpunarfyrirtækis í skordýraeldi, sem hætti starfsemi í nóvember í fyrra. Gylfi hélt erindi á ráðstefnunni Úrgangur í dag – auðlind á morgun þar sem hann fjallaði um sögu Vía.
 
Gylfi og Sigríður Gísladóttir stofnuðu Víur árið 2014 með það að markmiði að stunda rannsóknir og tilraunaræktun á lirfum svörtu hermannaflugunnar. Aðalhugmyndin var að nota vannýtt hráefni til framleiðslu á fóðurefni í fiskeldi.
 
„Hugmyndina má rekja til útgáfu skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um skordýraát og fóðurframleiðslu, framtíð þess og möguleika árið 2013. Við skoðuðum þetta nánar og sáum að skordýr voru ekki ræktuð á Íslandi í þessum tilgangi. Því fórum við að velta því fyrir okkur hvort það væri ekki fullt af vannýttu hráefni sem hægt væri að nýta sem fóður fyrir þessi skordýr, og nota þær svo til að fóðra dýr og jafnvel menn. Enn fremur hefur fiskeldi vaxið mjög hratt á Vestfjörðum og fiskimjölsverð hækkar. Þar sem laxar þurfa að fá dýraprótein vildum við skoða möguleika á að geta framleitt prótein úr dýrum sem eru staðsett lágt í fæðukeðjunni, til þess að framleiðsla fóðurs væri sem ódýrust, bæði út frá fjármagni sem og lífhagkerfinu,“ segir Gylfi.
 
Lítið um hráefni
 
Víur rak starfsstöð í Bolungarvík og störfuðu þar mest þrír starfsmenn. Þar voru ræktaðar svartar hermannaflugur, hraðvaxta hitabeltisskordýr sem nærðust á úrgangi úr fiskframleiðslu en úr lirfunum var svo unnið eldisfóður.
 
Hins vegar komst framleiðsla fyrirtækisins ekki á legg en Gylfi telur einkum tvær ástæður liggja þar að baki. „Í fyrsta lagi framleiðir Ísland ekkert sérstaklega mikið af landbúnaðarafurðum miðað við aðrar þjóðir. Í öðru lagi erum við orðin mjög góð að nota það sem áður var vannýtt og setja það ofarlega í virðiskeðjuna. En hugmyndin okkar sneri að því að taka vannýtt hráefni og setja neðarlega í keðjuna, þ.e.a.s. að nota hana í fóður.“ 
 
Hann segir enn fremur að þrátt fyrir að kvartað sé undan háu fóðurverði, þá sé verðið afar lágt til framleiðenda. „Þess vegna er erfitt að ætla að búa til fyrirtæki sem framleiðir fóður og hagnast á því. Viðskiptamódelið okkar reyndist því ekki nógu sterkt,“ segir Gylfi.
 
Gylfi Ólafsson
 
 
Skordýr flokkuð sem húsdýr
 
Lög og reglur hafa eðlilega mikil áhrif á hvernig fyrirtæki geta unnið en í tilfelli Vía reyndist reglugerðarumhverfi afar heftandi. Gylfi segir að lagaumhverfi Evrópusambandsins um skordýraeldi sé skiljanlega óþroskað enda engin hefð fyrir framleiðslu skordýra til fæðu eða í fóður. 
 
Skordýr séu því enn sem komið er flokkuð með öðrum húsdýrum í reglugerðum og því fylgir takmarkanir á fóðri fyrir dýrin. „Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að skordýr geti nærst af skít og hægt sé að nota slík skordýr til ýmissa góðra nota á fyllilega öruggan hátt er óleyfilegt að gefa húsdýrum skít.“ Þannig ætti að taka skordýr sérstaklega út fyrir sviga í flokkun eldisdýra en samtök skordýraræktenda í Evrópu vinna nú að því að ná fram breytingum á reglugerðum, að sögn Gylfa.
 
Framgangur í Evrópu
 
Þótt Víur hafi lagt upp laupana segir Gylfi vera mikla grósku í þróun skordýraræktunar í Evrópu og spáir því að ekki líði á löngu þar til að komi fram vörur sem gera slíkt eldi auðveldara. 
 
„Ég er sannfærður um að á næstu 5–10 árum verði til arðbær fyrirtæki í Evrópu sem framleiða skordýr í fóðurframleiðslu eða til manneldis. Þannig munu tæknilausnir verða til sem munu hjálpa einstökum bændum til að nota aukaafurðir frá sér, láta skordýr éta þær og nota svo til fóðurframleiðslu á einn eða annan hátt. Ég hef til að mynda séð áhugavert úrræði sem miðar að því að búa til umhverfi þar sem lirfur gætu étið afganga. Síðan yrðu hænum sleppt lausum í rýmið og þær gætu étið lirfurnar beint.“
 
En enn sem komið er sé ekki vettvangur á Íslandi fyrir skordýraeldi. „Við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta var ekki nógu góð lausn á Íslandi árið 2017. Kannski eftir 10–20 ár, en það finnst mér í raun ósennilegt vegna þess lúxusvandamáls að það er skortur á vannýttu hráefni til að nota sem fóður fyrir lirfurnar,“ segir Gylfi Ólafsson. 
Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...