Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Niðurstöður sauðfjárskýrsluhaldsins árið 2019
Mynd / Bbl
Á faglegum nótum 20. apríl 2020

Niðurstöður sauðfjárskýrsluhaldsins árið 2019

Höfundur: Eyþór Einarsson ábyrgðarmaður í sauðfjárrækt - ee@rml.is

Í þessum pistli verður farið yfir helstu niðurstöður úr afurða­skýrsluhaldi sauðfjár­ræktar­innar fyrir framleiðsluárið 2019.

Í heildina er útkoman góð og niður­stöður keimlíkar því sem árið 2018 skilaði. Fleiri bú ná mjög góðum árangri og fjölgar búum á topplistunum. 

Afurðir eftir hverja kind

Uppgjör fyrir framleiðsluárið 2019 byggir á 329.619 ám, tveggja vetra og eldri og eru skýrsluhaldarar um 1.680 talsins.  Þetta er fækkun um 19.685 fullorðnar ær miðað við uppgjörið fyrir árið 2018.  Fjöldinn nú er því svipaður og hann var fyrir 10 árum síðan en árið 2009 voru skýrslufærðar ær 323.169.  Flestar ær eru á skýrslum í Skagafirði (30.012), Austur-Húnavatnssýslu (29.702) og Norður-Múlasýslu (27.062).

Meðalafurðir eftir hverja á voru 27,8 kg sem er nánast sama niðurstaða og fyrir árið 2018 en þá skilaði hver ær 27,7 kg.  Undanfarin 10 ár hafa afurðir verið fremur góðar og heildarniðurstaðan aðeins einu sinni farið undir 27 kg.  Ef horft er á 10 ára tímabil þar á undan (2000 til 2009) þá voru kg eftir hverja á aðeins einu sinni yfir 27 kg.  Mestu afurðir sem náðst hafa voru árið 2016 þegar kg eftir hverja fullorðna á voru 28,2 kg.  Þá var árferði einstaklega hagfellt og fallþungi dilka meiri en nokkru sinni.

Niðurstöður eftir svæðum

Afurðir eru gerðar upp í 130 fjárræktarfélögum.  Stærsta félagið er fjárræktarfélag Sveinsstaðahrepps í Austur-Húnavatnssýslu en í því öfluga félagi eru 42 skýrsluhaldarar og fullorðnar ær 12.206.  Næststærsta félagið er sf. Tindur í Strandasýslu með 7.738 ær og 30 félaga. 

Ef niðurstöður eru skoðaðar eftir sýslum þá eru það Vestur-Húnvetningar sem ná mestum afurðum eftir sínar ær.  Þar skilaði meðalbúið 30,6 kg eftir hverja á.  Á þessu svæði eru mörg bú sem ná miklum vænleika samhliða afar góðri frjósemi. Næst kemur Strandasýsla með 30,02 kg eftir hverja á.  Keppnin hefur gjarnan staðið milli þessara tveggja héraða um mestar afurðir og Strandamenn oftar en ekki staðið efstir yfir landið en gefa nú toppsætið eftir til nágranna sinna.  Almennt jukust afurðir milli ára á Suður- og Vesturlandi en döluðu á Norður- og Austurlandi og eru það væntanlega sveiflur í árferði sem þar ráða mestu um.   Á mynd 1 er yfirlit yfir afurðir eftir sýslum og samanburður milli ára.

Gýgjarhólskot áfram á toppnum

Þegar skoðaðar eru niðurstöður fyrir þau bú sem hafa 100 ær eða fleiri á skýrslum, þá eru það 1.027 bú sem falla í þann hóp.  Efstu búin á lista yfir kg kjöts eftir hverja á sýna hvað hægt er að ná gríðarlegum afurðum eftir ærnar þar sem frjósemi er góð, mikil vaxtargeta fyrir hendi hjá lömbunum og aðstæður með þeim hætti að sú vaxtargeta er nýtt.  Þetta árið eru það 4 bú sem ná meira en 40 kg eftir hverja á.  Efst stendur Gýgjarhólskot í Biskupstungum með 44,2 kg. Þetta bú var einnig efst yfir landið á síðasta ári með nánast sömu útkomu.  Efri-Fitjar í Fitjárdal kemur síðan næst með 41,9 kg eftir ána. Efri-Fitjar voru einnig í öðru sæti á listanum í fyrra en afurðirnar hafa þó aukist milli ára.  Þá koma Kiðafell í Kjós og Bergsstaðir í Miðfirði, bæði með yfir 40 kg eftir ánna.  Í töflu 1 gefur að líta lista yfir þau bú sem ná 36 kg eða meira eftir hverja á.

Frjósemi og lömb til nytja

Afurðir eftir hverja á byggja á fjölda lamba til nytja og fallþunga lambanna.  Þetta er því ekki algildur mælikvarði á útkomu saufjárbúa þar sem mismunandi fram­leiðslukerfi henta fyrir mis­munandi bú.  Sumir sjá hag sinn í því að koma með lömbin snemma til slátr­unar en aðrir leggja áherslu á að bata lömbin lengur og nýta vaxtargetu þeirra að fullu. Í þessu sambandi er mikil­vægt að allir leggi áherslu á að fram­leiða góða vöru en lömbin mega hvorki vera of hold­lítil né of feit.

Eitt mikilvægasta atriði m.t.t. afkomu sauðfjárbúa, er að ná sem flestum lömbum til nytja.  Frumskilyrði er að ærnar séu frjósamar en síðan eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á lifun lambanna.  Meðalfrjósemi árið 2019 var 1,83 lömb eftir ánna.  Frjósemin hefur heldur potast upp á síðustu árum þó landsmeðaltalið hreyfist hægt.  Meðaltalið frá árinu 2000 hefur sveiflast frá 1,80 til 1,84 lömb.  Þess ber þó að halda til haga að mörg bú hafa náð þarna frábærum árangri og eru með frjósemi í kringum 2 lömb eftir ánna en það er jú ræktunartakmarkið.  Hinsvegar eru búin miklu fleiri sem eiga mikil sóknarfæri í því að bæta frjósemina og hér þyrfti að nást aukinn árangur á næstu árum.  Nokkur munur er á milli landsvæða í frjósemi, líkt og sést á 2. mynd.  Frjósemi er að jafnaði best í Suður-Þingeyjarsýslu.  Þar fæddist 1,91 lamb eftir fullorðna á vorið 2019.  Þá er frjósemin mjög góð í Vestur-Húnavatnssýlsu, Eyjafirði og Norður-Þingeyjarsýslu.  Í Ísafjarðarsýslum, Austur-Skaftafellssýslu, Mýrar­sýslu og Rangár­vallasýslu er hinsvegar víða tækifæri í að bæta frjósemina og fjölga lömbum til nytja.

Til nytja eru að jafn­aði 1,65 lamb eftir ána og stendur sú tala í stað á milli ára. Á 2. mynd má sjá að nytja­hlutfallið er mjög breyti­legt milli svæða og ekki í fullu samhengi við frjósemina sökum þess að afföll eru ekki hlutfalls­lega þau sömu í öllum héruðum.   Í töflu 2 er listi yfir bú sem ná þeim frábæra árangri að eiga 1,90 eða fleiri lömb til nytja eftir ærnar sínar.  Þarna trónir Efri-Fitja búið á toppnum með 2,08 lömb til nytja.

Veturgömlu ærnar

Veturgamlar ær eru 64.242 á skýrslum árið 2019.  Meðal frjósemi þeirra er 0,92 lömb.  Geldar ær voru 8.783 og síðan eru 8.806 sem ekki er haldið.  Það eru því 13,7 % gemlinganna sem hleypt var til sem ekki hafa haldið.  Frjósemin er svipuð á milli ára (var 0,93 árið 2018) en ánægulegt að sjá að hlutfall þeirra sem ekki héldu lækkar (var 15,4% árið 2018). Hér er kannski mest um vert að horfa á frjósemistöluna, því lömb sem vanin eru undir eldri ær eru ekki talin til nytja hjá veturgömlu ánum.  Mestri frjósemi skiluðu veturgömlu ærnar á Bergsstöðum í Miðfirði, 1,67 lambi eftir ánna.  Næst kemur Úthlíð í Skaftártungu með 1,66 lamb.  Á Kiðafelli í Kjós voru afgerandi mestar afurðir eftir veturgömlu ærnar eða 29,2 kg.

Niðurstöður fyrir flokkun sláturlamba

Í skýrslum fjárræktar­félaganna fyrir framleiðsluárið 2019 eru upplýsingar um 491.690 sláturlömb á 1.650 búum.  Meðalfallþunginn var  16,6 kg, einkunn fyrir holdfyllingu 9,11 og einkunn fyrir fitu 6,29. Þetta reynist nánast sami fallþungi og árið 2018, holdfyllingin er aðeins betri (var 9,05) og fitueinkunnin er örlítið lægri (var 6,37).  Mikið hefur áunnist á síðustu áratugum í því að bæta gerð lambanna.  Framfarirnar voru eðlilega hraðastar til að byrja með þegar sóknarfærið var mikið, en stökkin upp á við verða minni eftir því sem menn ná lengra.  Um fjórðungur skýrsluhaldara hefur náð því marki sem sett hefur verið fram fyrir fjárstofninn í ræktunarmarkmiðum. Þar er miðað við að ná öllum lömbum í R eða hærri holdfyllingaflokk og þar af 60% í U og E. Það bú sem nær 40% lamba í R og 60% í U fær 9,8 í gerðareinkunn. Ef horft er til búa með upplýsingar um 100 sláturlömb eða fleiri, þá eru það 22,7% sem ná þessari einkunn.

Fitan er eiginleiki sem er bestur á ákveðnu bili. Til þessa hefur markmiðið verið að sem stærstur hluti framleiðslunar fari í fituflokka 2 og 3. Bú sem fær helming framleiðslunar í hvorn flokk fengi fitueinkunn upp á 6,5 sem er ögn hærra en landsmeðaltalið. Mynd 3 sýnir flokkun sláturlamba eftir sýslum og er raðað upp eftir holdfyllingareinkunn. Þyngstu lömbin voru í Strandasýslu og Eyjafirði, 17,6 kg að meðaltali. Best gerðu lömbin voru á Ströndum (holdfyllingareinkunn 9,72) en Eyjafjörður og S-Þingeyjarsýsla koma þar skammt á eftir.  Þingeysku lömbin eru þó léttari sem gefur til kynna að þar sé góð eðlisgerð í fénu í þeim skilningi að þungi lambanna þarf ekki að vera mikill til að góð holdfylling náist.

Bú með besta holdfyllingu lamba

Miðað við 100 sláturlömb eða fleiri eru það 40 bú sem ná þeim frábæra árangri að holdfyllingar­einkunn slátur­lambanna sé 11 eða hærri og eru þessi bú listuð upp í töflu 3.  Þetta er talsverð fjölgun búa á milli ára í þessum ágæta félagsskap en árið 2018 náði 31 bú þessum ár­angri.  Hæst gerðar­mat var hjá Kjart­ani Sveinssyni í Bræðratungu í Biskupstungum með eink­unnina 12,03.  Næst í röðinni koma lömbin hans Ólafs Sindrasonar á Grófargili í Skaga­firði en gerðar­einkunn þeirra var 12,02. Þriðji í röðinni er svo Dag­bjartur Bogi Ingimundarson, Brekku í Öxarfirði en sláturlambahópur hans hlaut 11,97 í gerðareinkunn.  

Vaxtarhraði og aldur

Vaxtarhraði er verðmætur eiginleiki.  Líkt og flestir aðrir eiginleikar sem við vinnum með í ræktunarstarfinu er þetta samspil erfða og umhverfis.  Meðferðin og landgæðin spila hér vissulega stórt hlutverk, en í gegnum kynbætur reynum við að auka vaxtarhraðann með því að velja fyrir aukinni mjókurlagni hjá ánum og öflugum lambafeðrum.  Meðal vaxtarhraði sláturlamba samkvæmt skýrsluhaldsniðurstöðum árið 2019  er 121 g/dag í reiknuðum fallþunga og meðalaldur lambanna er 138 dagar. Í töflu 4 er búum raðað upp eftir vaxtarhraða lambanna og birtast hér þau bú sem ná 150 g/dag eða þar yfir.  Sláturlömbin hjá Guðrúnu Marinósdóttur á Búrfelli í Svarfaðardal uxu hvað hraðast sé miðað við bú með 100 sláturlömb eða fleiri, en þau þyngdust um 165 g/dag. Þar á eftir koma þrjú bú með vaxtarhraða slátraðra lamba upp á 163 g/dag en það eru Gautsdalur í Reykhólasveit og Syðri-Brennihóll og Kristnes í Eyjafirði.

Að lokum

Hér hefur verið tæpt á helstu niðurstöðum úr skýrsluhaldinu og birtir listar yfir bú sem skara fram úr fyrir ákveðna eiginleika. Ónefnd eru hér minni búin sem mörg hver skila glæsilegum niðurstöðum en vísað er í lista á veraldarvefnum þar sem þeim er gerð skil. Slíkir listar skapa viðmið og eru vonandi hvatning til bænda að gera betur. Talsverður breytileiki finnst í þessum gögnum og margir sem eiga mikil sóknarfæri í því að ná meiri og betri afurðum eftir ærnar. Mesta kúnstin er að ná öllum eiginleikum góðum. Bú sem standast ákveðnar lágmarkskröfur í nokkrum skilgreindum eiginleikum hafa á síðustu árum verið sett inn á lista yfir „úrvalsbú“. Þann lista og ítarlegri niðurstöður fyrir sauðfjárskýrsluhaldið síðustu árin má sjá inn á www.rml.is.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...