Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Seigla á fundi um skóga í Evrópu
Lesendarýni 18. desember 2023

Seigla á fundi um skóga í Evrópu

Höfundur: Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Þann 9. nóvember sl. var haldinn í Berlín fundur til undirbúnings næsta ráðherrafundar um vernd skóga í Evrópu, sem haldinn verður í Bonn í októberbyrjun 2024.

Þröstur Eysteinsson.

Ísland hefur tekið þátt í því samstarfi frá upphafi árið 1990.

Á fundinum í Berlín var fjallað um það sem kallast á ensku resilience en þýða mætti sem seiglu á íslensku. Verður það eitt meginatriða á ráðherrafundinum eftir tæpt ár. Það sem á eftir fer er samantekt á minnisblaði, svokölluðu High Level Policy Brief, sem lagt var fyrir fundinn í Berlín. Gagnlegt er fyrir Íslendinga að fylgjast með þessari umræðu ekki síður en aðra Evrópubúa.

Samhengi

Öfgar í veðurfari og tíðara stórfellt rask á borð við vindfall, þurrka og skógarelda eru ógn við sjálfbærni skógræktar. Augljóst er að skógar þurfi að vera seigir til að þola aukið álag og ná sér eftir rask sem fylgir örum loftslagsbreytingum.

Heilbrigði skóga og vernd skógarvistkerfa hafa alla tíð verið grunnþættir í sjálfbærni skógræktar og gert okkur kleift að viðhalda og bæta framboð á mismunandi vistkerfisþjónustu eins og skógarafurðum, líffræðilegri fjölbreytni, kolefnisbindingu og ýmsum verndarhlutverkum skóga. Aukin tíðni rasks, sem fylgir loftslagsbreytingum, krefst ræktunar skóga sem sýna góða seiglu. FOREST EUROPE ferlið áformar að koma á fót áhættusjóði fyrir skóga (FoRISK), þ.e. samevrópskum samstarfsvettvangi um áhættustjórnun og forvarnir, með það að markmiði að styðja við sjálfbærni skógræktar og aðstoða við að auka seiglu evrópskra skóga til framtíðar.

Seigla: Hvað er það?

Hugmyndir fólks um hvað felist í seiglu skóga eru mismunandi. Algengasta skilgreiningin vísar til getu skógar til að snúa aftur til nokkurn veginn fyrra horfs í kjölfar rasks.

Hins vegar verða alltaf einhverjar breytingar vegna þróunar eða tilviljanakenndra þátta. Seigla felur þannig ekki í sér að tegundasamsetning (trjáa og annarra lífvera) í skógi í kjölfar rasks nái sömu stöðu og áður var, heldur að skógurinn nái að veita svipaða vistkerfisþjónustu og áður. Heildrænna hugtak er félags- og vistfræðileg seigla skóga.

Hún tekur tillit til þarfa fólks, margs konar nýtingu þess á skógum og framleiðslu skógarafurða á sjálfbæran hátt. Skógur getur t.d. talist sýna vistfræðilega seiglu ef hann nær sér á 100 árum eftir rask. Hann sýnir þó e.t.v. ekki ásættanlega félagslega seiglu nema hann nái sér á mun skemmri tíma.

Hvernig er hægt að auka seiglu skóga?

Þótt aðstæður í evrópskum skógum séu misjafnar og áherslur í meðferð og nýtingu þeirra sömuleiðis gilda svipuð grundvallaratriði víðast hvar. Þrjú dæmi um atriði sem aukið geta seiglu skóga fara hér á eftir.

1. Forvarnir

Vísbendingar eru um að fjölbreyttir skógar (t.d. fjölbreyttir m.t.t. aldurs trjáa, trjátegunda og/ eða formgerða) sýni meiri seiglu en einsleitir skógar. Því er það lykilstefna við endurnýjun skóga að breyta einrækt í fjölbreyttari skóga í þágu aukinnar seiglu. Forendurnýjun, þ.e. að gróðursetja í skógarbotninn áður en til endanlegs skógarhöggs kemur, auðveldar skjóta endurheimt skógarins og eykur tegundafjölbreytni og fjölbreytni í aldri, stærð og formgerð.

2. Samþætting við aðlögun að loftslagsbreytingum

Brýnt er að nýrækt og endurnýjun skóga feli í sér aðlögun að loftslagsbreytingum (e. prestoration), þannig að skógarnir saman standi af tegundum sem eru hvað best aðlagaðar breyttu loftslagi framtíðarinnar og skili þeim afurðum og vistkerfisþjónustu sem þörf er á. Tré sem eru gróðursett núna þurfa að lifa vel sem ungplöntur við núverandi aðstæður en þurfa að vaxa hvað best við aðstæður eins og þær verða eftir miðja öldina. Um er að ræða flókið viðfangsefni sem krefst mikilla rannsókna og þekkingarlegrar færni.

3. Seigla skóga, framleiðslu þeirra og samfélagsins

Aukin seigla skóga er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að efla sjálfbærni út fyrir sjálfa skógana. Áætlanir um aukna seiglu í framleiðslu skógarafurða gætu falið í sér þróun nýrrar tækni og vara til að bregðast við breyttum viðargæðum og úrvali svo dæmi sé nefnt. Aukin seigla samfélagsins kann að krefjast aukinnar fjölbreytni með því að skipta út hefðbundinni auðlindanýtingu fyrir virðisaukandi vörur og vistkerfisþjónustu.

Þessi dæmi undirstrika að sjálfbær skógrækt þarf að þróast frekar í takt við loftslagsbreytingar og aukna hættu á raski. Hægt er að nota seiglu skóga sem viðmið til að styðja við ákvarðanatöku í þeim efnum.

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f