Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Sævar Bjarnhéðinsson í Arnarholti ekur í hlað eftir áburðardreifingu á afréttum á vegum Landgræðslufélags Biskupstungna. Myndir /Sigríður Jónsdóttir.
Sævar Bjarnhéðinsson í Arnarholti ekur í hlað eftir áburðardreifingu á afréttum á vegum Landgræðslufélags Biskupstungna. Myndir /Sigríður Jónsdóttir.
Lesendarýni 3. júlí 2015

Ólíkt hafast menn að

Höfundur: Sigríður Jónsdóttir Arnarholti.

Í ár hefur vorað heldur seint og snjór verið mikill í fjöllum. Í byrjun júní var farið að benda okkur sauðfjárbændum á að gróður tæki seint við sér af þessum sökum. Eflaust var ekki vanþörf á að gera okkur þetta ljóst þar sem við erum ekki sérlega glögg og eigum ekki gott með að fylgjast með tíðarfari eða gróðurframvindu.

Þrátt fyrir þessa vondu tíð hefur nú hlýnað og í dag, 2. júlí, fóru allmargir bændur héðan úr Biskupstungum með vélar sínar og tæki inn á afrétt til að dreifa áburði á vegum Landgræðslufélags Biskupstungna. Að þessu sinni var dreift með fimm áburðardreifurum og gekk dreifingin vel.

Vonast er til að á mánudaginn 6. júlí verði gróðurfar metið til að taka ákvarðanir um hvenær óhætt er að fara með fé á afréttinn. Það er nefnilega þannig að við, sauðfjárbændur í Biskupstungum, höfum kappkostað að fylgja þeim reglum sem við höfum sett okkur um nýtingu afréttarins. Við erum líka að græða hann upp eftir bestu getu. Og við erum sannarlega stolt af árangrinum.

Sveitarstjórn Biskupstungnahrepps, nú Bláskógabyggðar, hefur alla tíð staðið að afréttarmálunum með miklum sóma og verið áfram um uppbyggingu og ræktun þar innfrá, enda eru afréttir á forræði sveitarfélaga.

Kjalvegur liggur um Biskupstungnaafrétt og er fjölfarinn. Fyrir rúmum aldarfjórðungi setti sveitarfélagið ríðandi ferðamönnum reglur um umgengni á þessari leið, m.a. að fóðra ferðahesta á heyi í áningarstöðum í stað þess að beita þeim á viðkvæman gróður og einnig voru skorður settar við umferð hrossahópa um ákveðin svæði.

Þessar reglur hafa haldið mis vel svo að sumarið 2013 þótti ástæða til að árétta reglur þessar og var það gert með bréfi til ferðamanna og ferðaþjónustuaðila sem ferðast um Biskupstungnaafrétt. Þetta bréf hangir meðal annars í forstofu þjónustuhússins í Árbúðum þar sem kyrfilega er tekið fram að EKKI MÁ RÍÐA EFTIR SVARTÁRTORFUM. Árbúðir eru áningarstaður við nefndar Svartártorfur og torfur þessar hafa verið varðar með gríðarmikilli uppgræðslu á vegum Landgræðslufélags Biskupstungna.

Í dag, örugglega viku áður en okkur verður heimilað að flytja eina einustu kind á þennan afrétt, fór 130 hrossa hópur á vegum Íshesta yfir þessar torfur, sem öllum má vera ljóst að ekki er leyfilegt. Þessi hópur var á suðurleið. Í norðurferðinni nokkrum dögum FYRR, var hópurinn EKKI NEMA 100 hross. Þá var þeim líka hleypt yfir Torfurnar. Og þetta er alltaf svona. Það er alveg sama hvaða reglur eru settar til að vernda þetta land, það virðist enginn þurfa að fara eftir þeim nema sauðfjárbændur.

Uppgræðslurnar á Svartártorfum eru langt í frá eina gróðurlendið sem hestaferðirnar leika svona grátt. Það þykir sjálfsagt að víkja útaf brautunum og ríða uppgræðslurnar við áningarstaðina, svo sem í Svartárbotnum og innan við Árbúðir. Grasbletturinn við braggann í Sultarkrika er traðkaður í hverri hestaferð. Þar er lagt á hrossin, þar standa þau kyrr því í sumum ferðum eru tvær rúllur látnar duga í 100-130 hross í hverjum náttstað.  Í Skálunum, sem eru gróðurlendi sunnan í Bláfellshálsi, eru leiðtogar hestaferðanna búnir að dúndra hrossaflotunum niður alla bolla og skera þá í sundur með djúpri reiðgötu. Þarna fossar vatn í rigningum öll haust. Hvað í ósköpunum er hægt að gera við svona framferði?

Síðast liðinn vetur kom út Tillaga til kynningar landsskipulagsstefnu 2015-2026 á vegum Skipulagsstofnunar. Þar var m.a. fjallað um skipulag á miðhálendi Íslands.

Í þessu riti um skipulagsstefnu birtist glögglega sá skilningur að aðeins BEIT geti valdið gróður- og jarðvegsskemmdum. Öll umferð manna, gangandi, ríðandi, akandi eða af völdum mannvirkjagerðar, virðist ekki geta haft áhrif á gróður eða jarðveg. Og það er einmitt þessi tegund af skilningi sem blasir við okkur sauðfjárbændum oft á ári. Gróðurleysið er alfarið á okkar ábyrgð, okkur að kenna og það er okkar mál að færa það til betri vegar. Engra annarra.

Ég er ekki að fara fram á að ríðandi fólk sæti sömu ofsóknum og sauðkindin hefur þurft að þola, ég fer aðeins fram á sanngirni og réttlæti. Málflutningur þeirra sem telja sig hafa vit á gróðurfari er oftast ansi einhliða og til þess fallinn að styggja síður þá sem betur mega. Stundum sýnist mér jafnvel að fólki sé nákvæmlega sama um þessi strá, svo lengi sem einhver nær að koma böndum á hið lítilsiglda líf rollubóndans.

Þessi pistill er annar í röðinni, á eftir greininni - Hefjum tösku hátt á loft.

Sigríður Jónsdóttir
Arnarholti.

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...