Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Landbúnaður – úr vörn í sókn
Lesendarýni 19. desember 2023

Landbúnaður – úr vörn í sókn

Höfundur: Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.

Ríkisstjórnin samþykkti föstudaginn áttunda desember tillögur matvælaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og undirritaðs um aðgerðir til stuðnings þeim bændum sem eiga í fjárhagserfiðleikum vegna efnahagsástandsins.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Þetta eru mikilvægar aðgerðir sem leggur meðal annars áherslu á nýliðun og kynslóðaskipti með aðstoð við yngri bændur. Þessar aðgerðir og frumvarp að lögum sem heimilar aukið samstarf og samruna afurðastöðva í kjöti koma til með að bæta aðstæður í einni af grundvallaratvinnugrein okkar á Íslandi. Það er þó ekki nóg. Horfa verður til framtíðar og rífa greinina upp úr þeim hjólförum sem hún hefur setið í, hjólförum sem eru mótuð af afskiptaleysi og hugsunarleysi á ákveðnum sviðum í íslensku samfélagi.

Ég fullyrði að fáar atvinnugreinar hafa þurft að berjast við jafnmikinn skort á skilningi og landbúnaður hefur gert hér á landi. Ef við lítum út fyrir landsteinana, hvort heldur er til annarra Norðurlanda eða ríkja Evrópusambandsins, þá virðist ríkja almennari skilningur á mikilvægi þess að styðja þurfi við landbúnað, duglega, til að styðja við blómlegt atvinnulíf og byggðir. Að ekki sé talað um mikilvægi fæðuöryggis sem hér á eyjunni Íslandi er augljóslega gríðarlegt hagsmunamál allra landsmanna.

Fæðu- og matvælaöryggi

Ég tel að við getum lært mikið af Noregi sem er að mörgu leyti á svipuðum stað og við hvað varðar alþjóðlegar skuldbindingar, dreifða byggð og norðlæga breiddargráðu. Hægt er að skipta umgjörð landbúnaðarins upp í fjögur svið. Fyrst má telja fæðu- og matvælaöryggi og er aukin matvælaframleiðsla augljóst hagsmunamál þegar kemur að þeim þáttum. Við hér á Íslandi búum að því að til dæmis notkun sýklalyfja er hverfandi og á svipuðum stað og Noregur en löndin tvö eru einstök í alþjóðlegu samhengi. Heimurinn getur lært af íslenskum landbúnaði hvað þetta varðar og einnig almenna dýravernd þar sem verksmiðjubúskapur í landbúnaði er afar sjaldgæfur.

Landbúnaður um land allt

Mikilvægt er að tryggja gott ræktunarland. Nú stendur yfir vinna við að skilgreina ræktunarland, nokkuð sem er mikilvægt til að standa vörð um vaxtarmöguleika landbúnaðar. Við þurfum einnig að styðja og hvetja til landbúnaðarframleiðslu og búskapar.

Í þessu þarf pólitísk stefna að taka mið af tækifærum mismunandi byggðarlaga og þeirri mismunun sem verður til vegna landfræðilegra þátta og fjarlægða.

Aukin verðmætasköpun

Búskapur er ekki eyland. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk leggi allt sitt að veði til þess að stofna bú meðan ekki er búið nægilega vel að greininni. Ekki er langt síðan fyrrverandi landbúnaðarráðherra talaði um sauðfjárrækt sem lífsstíl. Þau ummæli dæma sig auðvitað sjálf. Það er þó ljóst að ef ekki verður horft til framtíðar og lagður grunnur að betri samkeppnishæfni þá verður sauðfjárbúskapur dýr lífsstíll, þar sem fólk leggur allt að veði fyrir ánægjuna af því að rækta sauðfé og viðhalda aldalangri menningu íslenskra bænda. Ég óttast að þeim fari fækkandi sem eru reiðubúnir að fórna tekjum sínum og lífsgæðum fyrir það að geta verið bóndi. Það má ekki gleymast að það að vera bóndi er atvinna, alveg eins og heildsali eða bankastarfsmaður. Sömu gildi ríkja í sveitum varðandi það að fólk vill skapa áhyggjulausa framtíð og lífsgæði fyrir börnin sín. Þess vegna er mikilvægt að virðiskeðjan sé samkeppnishæf og búin öflugar einingar. Einnig þarf að hlúa vel að þekkingu og hæfni í landbúnaði.

Sjálfbær landbúnaður

Bændur hafa frá landnámi verið vörslumenn landsins. Það hefur verið þeirra hagur að búa vel að bústofni sínum og landi. Í þeim áskorunum sem uppi eru í loftslagsmálum er mikilvægt að landbúnaðurinn sé hluti af lausninni en ekki sé reynt að gera hann að hluta af vandamálinu. Við höfum ákveðna möguleika til að styðja við landbúnað og bændur í þeirri vinnu sem þarf að ráðast í til að berjast gegn loftslagsbreytingum og einnig til að verjast áhrifum þeirra.

Uppfærsla á tollum

Flestar þjóðir líta á það sem skyldu sína að styðja við landbúnað í löndum sínum með tollum á innfluttar landbúnaðarvörur. Hér á landi þurfum við að uppfæra þær tölur sem eru til viðmiðunar í tollskrám. Þá er einnig möguleiki að nýta þær heimildir sem til dæmis Noregur gerir og leggja á sérstakt verðjöfnunargjald á innfluttar landbúnaðarvörur til að vernda íslenska framleiðslu – og bæta kjör bænda á Íslandi.

Kæri lesandi. Jólahátíðin er að ganga í garð. Þá munu vandaðar íslenskar landbúnaðarafurðir vera bornar á borð til að fagna fæðingu frelsarans. Matur er mikilvægur hluti af hátíðinni. Þá er mikilvægt að við munum hvaðan gott kemur.

Gleðilega hátíð.

Tími íslenskrar náttúru er núna
Lesendarýni 16. janúar 2026

Tími íslenskrar náttúru er núna

Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyri...

Íslenskari en ...
Lesendarýni 6. janúar 2026

Íslenskari en ...

Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2025

Við áramót

Árið 2025 var prýðisgott ár til lands og sjávar. Þess naut sannarlega við í blóð...

Vetrarbeit og válynd veður
Lesendarýni 22. desember 2025

Vetrarbeit og válynd veður

Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á ö...

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Lesendarýni 22. desember 2025

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar

Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölb...

Fæðuöryggi sem innviður norðurslóðasamfélaga
Lesendarýni 22. desember 2025

Fæðuöryggi sem innviður norðurslóðasamfélaga

Áhersla á fæðuöryggi , viðnámsþrótt og öryggi grunninnviða samfélagsins hefur á ...

Frá 75 ára afmæli norsku búvörusamninganna
Lesendarýni 9. desember 2025

Frá 75 ára afmæli norsku búvörusamninganna

Þann 17. nóvember var 75 ára afmæli Hovedavtalen for jordbruket haldið hátíðlega...

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...