Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Breytingar
Af vettvangi Bændasamtakana 11. apríl 2024

Breytingar

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Það hefur dregið til tíðinda á ýmsum vígstöðvum í samfélagi okkar síðustu mánuðina. Eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar hefur landbúnaðurinn fengið nýjan matvælaráðherra, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, sem við bjóðum hjartanlega velkomna til sinna ábyrgðarmiklu starfa.

Trausti
Hjálmarsson

Stjórnarsáttmálinn er óbreyttur og vonandi sömuleiðis sá langþráði góði skilningur sem stjórnvöld hafa sýnt málefnum landbúnaðarins að undanförnu Á sama tíma er aðdragandi forsetakosninga í algleymingi og þjóðin á leið að kjörborðinu til þess að kjósa sér nýjan „bónda á Bessastaði“ eins og stundum er komist að orði enda þótt landbúnaður hafi löngu verið lagður af á þeim bænum. Til viðbótar hafa jarðhræringar og eldsumbrot við Grindavík minnt okkur á að búseta í okkar ástkæra landi elds og ísa getur verið viðsjárverð og nauðsynlegt að umgangast móður jörð bæði af virðingu og varfærni.

Kastljós fjölmiðla og umræður í fermingarveislum vorsins snúast eðlilega um þessi stóru mál. Önnur komast minna að þrátt fyrir fréttnæmar breytingar sem skipt geta þjóðarhag miklu máli. Þar hef ég sérstaklega í huga þau tíðindi að stjórnvöld hafi loksins breytt búvörulögum til augljósra hagsbóta fyrir bændur, vinnslugeirann og neytendur. Og ég hef líka í huga þær breytingar sem nýlega voru gerðar í forystusveit Bændasamtaka Íslands. Ný stjórn er staðráðin í að láta hendur standa fram úr ermum ásamt samhentum og metnaðarfullum hópi starfsfólks síns. Vonandi er að hvort tveggja framangreint verði íslenskum landbúnaði lyftistöng á næstu misserum og árum.

Þeir eru fáir – ef nokkrir – sem ekki gera sér grein fyrir mikilvægi þess að sveitir landsins og náttúrulegar auðlindir okkar séu nýttar til matvælaframleiðslu. Og það er heldur enginn sem lætur sér detta það í hug að slíkt sé mögulegt án þess að stuðningur samfélagsins sé a.m.k. með svipuðum hætti og gerist hjá öðrum þjóðum bæði nær og fjær. Enginn landbúnaður fær þrifist án meðgjafar. Fyrirkomulag hennar er vissulega ólíkt á milli landa en þegar grannt er skoðað er tilkostnaðurinn svipaður í öllum heimshornum. Ísland er engin undantekning frá reglunni.

Grundvallarmarkmið allrar framleiðslu hljóta ávallt að snúast um það tvennt að hámarka gæði en lágmarka kostnað og til viðbótar eru sem betur fer gerðar miklar kröfur um vistvæn vinnubrögð. Á flestum póstum framleiðsluferlanna hefur íslenskur landbúnaður um langt skeið verið í allra fremstu röð. En ekki öllum. Það hefur t.d. lengi verið kjötframleiðslu í landinu fjötur um fót að afurðastöðvum hefur verið meinað að eiga með sér samstarf, skipta með sér verkum og sérhæfa sig – svo ekki sé minnst á mögulegar sameiningar til frekari hagræðingar. Fyrir vikið hefur miklum fjármunum verið kastað á glæ í marga áratugi. Þeim verðmætum hefði að sjálfsögðu verið betur varið til þess að hækka verð fyrir frumframleiðslu bænda, lækka verð til neytenda eða bæta óviðunandi afkomu vinnslustigsins. Góðu fréttirnar eru auðvitað að hægt er að gera þetta allt í senn. Bændur vilja ekkert frekar en að fá annars vegar sanngjörn og samkeppnishæf laun fyrir vinnu sína og hins vegar að nýta auðlindir okkar gjöfulu íslensku náttúru til framleiðslu hágæðavöru sem hægt er að bjóða neytendum á góðu verði.

Breytingarnar á búvörulögunum eru langþráð og löngu tímabært skref í þessa átt. Sjálfur er ég ekki í nokkrum vafa um að þær muni nýtast bændum og almenningi eins og til er ætlast. Á sama tíma virði ég sjónarmið þeirra sem endurspegla tortryggni og efasemdir um gagnsemi breytinganna. Vonandi er að þau skoðanaskipti sem fram undan eru verði málefnaleg og uppbyggjandi.

Í þeim munu Bændasamtök Íslands vafalítið halda áfram að leggja orð í belg og halda á lofti mikilvægi þess að landbúnaður okkar Íslendinga búi við svipað rekstrarumhverfi og gildir í viðmiðunarlöndum okkar. Ný stjórn samtakanna er staðráðin í því að eiga eins mikið og heiðarlegt samtal við þjóðina og mögulegt er. Við eigum mikil tækifæri til sóknar á ýmsum vígstöðvum landbúnaðarframleiðslunnar. Ég er ekki í vafa um að í krafti samstarfs og samstöðu getum við ekki einungis varðveitt þetta dýrmæta fjöregg okkar heldur tryggt því verðugan sess á fremsta bekk í verðmætasköpun þjóðarbúsins. 

Tími íslenskrar náttúru er núna
Lesendarýni 16. janúar 2026

Tími íslenskrar náttúru er núna

Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyri...

Íslenskari en ...
Lesendarýni 6. janúar 2026

Íslenskari en ...

Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2025

Við áramót

Árið 2025 var prýðisgott ár til lands og sjávar. Þess naut sannarlega við í blóð...

Vetrarbeit og válynd veður
Lesendarýni 22. desember 2025

Vetrarbeit og válynd veður

Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á ö...

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Lesendarýni 22. desember 2025

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar

Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölb...

Fæðuöryggi sem innviður norðurslóðasamfélaga
Lesendarýni 22. desember 2025

Fæðuöryggi sem innviður norðurslóðasamfélaga

Áhersla á fæðuöryggi , viðnámsþrótt og öryggi grunninnviða samfélagsins hefur á ...

Frá 75 ára afmæli norsku búvörusamninganna
Lesendarýni 9. desember 2025

Frá 75 ára afmæli norsku búvörusamninganna

Þann 17. nóvember var 75 ára afmæli Hovedavtalen for jordbruket haldið hátíðlega...

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...