Belgjurtir – yrki
Á faglegum nótum 21. maí 2024

Belgjurtir – yrki

Höfundur: Elena Westerhoff og Þórey Gylfadóttir, ráðunautar í jarðrækt

Belgjurtir er fjölbreytt ætt plantna sem ýmist eru ræktaðar fyrir fræin eða blaðmassann.

Þær sem ræktaðar eru vegna blaðmassans hafa þó ólíka byggingu sem hefur áhrif á nýtingu þeirra og hversu vel þær henta til beitar eða sláttar auk þess sem rótarkerfi þeirra er ýmist kröftug stólparót, eins og á rauðsmára, eða grynnra og veikara rótarkerfi, eins og á hvítsmára sem auk þess er með jarðlæga skriðula stöngla (smærur).

Belgjurtir eru mikið ræktaðar erlendis enda geta þær, í samlífi við bakteríur, bundið köfnunarefni (N2) úr andrúmslofti sem er mjög mikilvægt ferli, ekki síst í landbúnaði. Þær eru prótein- og steindaríkari en grös og hafa jarðvegsbætandi áhrif umfram grös. Belgjurtir gera heldur meiri kröfur til ræktunarskilyrða en grös og hafa t.d. hærra kjörsýrustig og láta síður bjóða sér lélega jarðvinnslu. Nauðsynlegt er að smita fræ með niturbindandi bakteríum fyrir sáningu og nú síðustu ár er farið að bjóða til sölu fræ sem er forsmitað, fyrir þá sem það vilja. Einnig er í boði að kaupa fyrir fram tilbúnar blöndur, t.d. smára og grasa.

Mynd 1. Fjöldi hektara (ha) sem smára var sáð í síðustu fimm árin samkvæmt skráningum í Jörð. Logasmári og persasmári eru einærar tegundir.

Áhugi á belgjurtaræktun hér á landi hefur í gegnum tíðina sveiflast með áburðarverði en því til viðbótar má nú greina aukinn áhuga sem tengja má við loftslagsmál. Byggt á gögnum úr forritinu Jörð, með fyrirvara um nákvæmni skráninga þar, sést á mynd 1 að notkun á rauðsmára er orðin meiri en hvítsmára og einnig sést að aðeins er verið að sá öðrum tegundum svo sem refasmára (alfaalfa/lucerne) og einæru tegundunum, loga- og persasmára. Rannsóknir og reynsla sýnir að refasmári lifir almennt illa hér á landi en þetta er sú fjölæra fóðurbelgjurt sem mest er ræktuð í heiminum. Einærar belgjurtir hafa ekki verið mikið notaðar hér á landi en þó má sjá að margföldun er á notkun á ertum síðustu árin, sjá mynd 2. Notkun á einærri lúpínu, flækjum og hestabaunum er hins vegar óveruleg en ertur geta gefið mikla og góða uppskeru sem heilsæði t.d. með byggi eða höfrum. Almennt er hægt að segja að þessar tegundir séu á mörkum þess að lifa vel hér á landi en mikilvægt er að huga að yrkjaprófunum og nota þau yrki sem hafa reynst betur en önnur byggt á þeim tilraunum sem hafa verið gerðar. Vert er að skoða upplýsingar í ritinu Nytjaplöntur á Íslandi sem Landbúnaðarháskóli Íslands hefur gefið út til skamms tíma auk þess sem hægt er að finna samantekt á sáðvöru og umsögnum um yrki á heimasíðu RML, undir „Ráðgjöf“ og velja þar „Sáðvara“ undir „Jarðrækt“.

Mynd 2. Notkun á einærum belgjurtum síðustu 5 árin í fjölda hektara (ha) samkvæmt skráningum í Jörð.

Rauð- og hvítsmári

Þær belgjurtir sem mest eruð notaðar hér á landi eru rauð- og hvítsmári enda eru þær góðar fóðurjurtir og hægt er að spara notkun á N áburði með ræktun þeirra. Nauðsynlegt er að sá þeim í blöndu með grasi hér á landi vegna lifunar en ólíkar grastegundir geta haft mismunandi áhrif þegar kemur að samkeppni við smárann. Samsetning blandna grasa og smára skiptir máli, bæði tegundir en ekki síður hlutföll hverrar tegundar og hér þarf að horfa til þess hvernig á að nýta land og uppskeru. Á myndum 3 og 4 sjást hlutföll yrkja af annars vegar rauðsmára (mynd 3) og hins vegar hvítsmára (mynd 4) sem notuð voru í sáningar á árunum 2019–2023.

Mynd 3. Notkun á yrkjum af rauðsmára á árunum 2019–2023 samkvæmt skráningum í Jörð, sem hlutfall (%) af heildarnotkun á rauðsmára sérhvert ár. Yrki sem eru stjörnumerkt (*) eru með umsögn í ritinu Nytjaplöntur á Íslandi.

Sem betur fer hefur notkun á yrkjum af rauðsmára sem ekki eru á Nytjaplöntulistanum farið fækkandi en því miður er ekki hægt að segja það sama varðandi hvítsmárann. Hvítsmára-yrkið Hebe hefur verið prófað í yrkjatilraunum en hefur ekki náð því að komast á lista yfir yrki sem mælt er með. Vonandi mun hlutfall yrkja sem ekki eru á Nytjaplöntulistanum minnka í framtíðinni eins og hefur gerst hjá rauðsmáranum.

Mynd 4. Notkun á yrkjum af hvítsmára á árunum 2019–2023 samkvæmt skráningum í Jörð, sem hlutfall (%) af heildarnotkun á hvítsmára sérhvert ár. Yrki sem eru stjörnumerkt (*) eru með umsögn í ritinu Nytjaplöntur á Íslandi.

Hverju ertu að sá? Hverju sæddirðu með?

Aldrei verður það sagt of oft að mjög mikilvægt er að nota yrki sem hafa reynst vel hér á landi. Afskaplega sorglegt er að heyra af því þegar ræktun mistekst, með allri þeirri fyrirhöfn og kostnaði sem endurræktun fylgir, vegna þess að sáð var yrki/yrkjum sem eru alls ekki aðlöguð að okkar aðstæðum. Ef yrki er aðlagað aðstæðum í Mið- Evrópu eru afskaplega litlar líkur á því að það lifi hér á landi og nýtist sem fóðurjurt.

Að gera tilraunir með eitthvað nýtt á smáum skala er allt í lagi vilji menn það, en nauðsynlegt er að öllum sé ljóst ef tvísýnt er um árangur, umfram það sem gengur og gerist í ræktun hér á landi. Þrátt fyrir loftslagsbreytingar þá erum við enn þá á eyju á norðurhjara og verðum að taka mið af því. Vetrarþol er eiginleiki sem ekki er hægt að horfa fram hjá þegar yrki eru valin og svellþol skiptir líka máli en hægt er að leiða líkum að því að með auknum sveiflum í veðurfari, hvort sem er hita eða úrkomu, að þá séu þessir þættir ekki síður mikilvægir. Mikilvægt er að bændur viti hverju þeir eru að sá og að það sé í samræmi við væntingar út frá áætlaðri notkun. Ef eitthvað er óljóst er hægt að leita sér upplýsinga og/eða óháðrar ráðgjafar. Bændur eiga ekki að sætta sig við neitt annað en úrvals fræ sem ljóst er að lifi og geti skilað góðri uppskeru.

Hvað má fræið kosta?

Plöntur sem aðlagaðar eru norðlægum aðstæðum eru t.d. með smærri blöð en þær sem lifa sunnar á hnettinum og eins er yfirleitt erfiðara og dýrara að framleiða fræ að plöntum og yrkjum sem henta hér á landi samanborið við Mið-Evrópu.

Það er því eðlilegt að fræ sem hefur þá eiginleika sem það þarf til að lifa hér og dafna sé dýrara þar sem dýrara er að framleiða það. Hvað kostar jarðvinnslan, kölkunin, hreinsun á skurðum, sáningin og áburðurinn? Og hvað kostar fræið?

Það að spara í kaupum á fræi getur seint borgað sig. Fræin sem fara í jörðina eru ekki síður mikilvæg en fræin sem legið er yfir vali á þegar kemur að sæðingum gripa.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...