Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Ingvi Stefánsson, formaður deildar svínabænda hjá Bændasamtökum Íslands, sem í fyrra tók í notkun nýtt svínabú á Sölvastöðum, stutt frá svínabúi sínu á Teigi í Eyjafirði, telur stöðu svínaræktar í landinu viðkvæma og krefjandi þótt hún sé að mörgu leyti jákvæð.
Ingvi Stefánsson, formaður deildar svínabænda hjá Bændasamtökum Íslands, sem í fyrra tók í notkun nýtt svínabú á Sölvastöðum, stutt frá svínabúi sínu á Teigi í Eyjafirði, telur stöðu svínaræktar í landinu viðkvæma og krefjandi þótt hún sé að mörgu leyti jákvæð.
Mynd / Bbl
Viðtal 14. október 2025

„Tollverndin er alfa og ómega fyrir okkur“

Höfundur: Þröstur Helgason

Svínarækt á Íslandi stendur á tímamótum. Eftirspurn eftir svínakjöti hefur stöðugt verið að aukast, en framleiðslan hefur nánast staðið í stað í áratugi. Á sama tíma glíma svínabændur við hátt vaxtastig, brotakennda tollvernd og skort á stefnu í landbúnaðarmálum.

Ingvi Stefánsson, formaður deildar svínabænda hjá Bændasamtökum Íslands, sem í fyrra tók í notkun nýtt svínabú á Sölvastöðum stutt frá svínabúi sínu á Teigi í Eyjafirði, telur stöðu svínaræktar í landinu viðkvæma og krefjandi þótt hún sé að mörgu leyti jákvæð. Eftirspurn hafi til dæmis aukist þó að svínabændur hafi ekki náð að svara henni með eigin framleiðslu.

„Búvörusamningarnir eru í raun ekki pappírsins virði ef tollverndin verður ekki styrkt,“ segir Ingvi Stefánsson.
„Við erum að framleiða sama magn og fyrir 25 árum“

„Neytendur vilja íslenskt svínakjöt, það er traust til innlendrar framleiðslu, og markaðurinn hefur stækkað mikið,“ segir Ingvi. „En við höfum ekki fylgt eftir þeirri þróun. Í dag erum við að framleiða nánast sama magn og fyrir 20–25 árum, þó að eftirspurnin hafi aukist um 30– 40 prósent á sama tíma. Það þýðir að það sem upp á vantar er fengið með innflutningi sem er nú um 25 prósent af svínakjötsmarkaðnum hér innanlands.“

Hvers vegna hefur framleiðslan ekki aukist, þegar eftirspurnin er svona mikil?

„Það eru fyrst og fremst efnahagslegar forsendur sem halda aftur af fólki. Vaxtastigið er mjög hátt, fjárfestingakostnaðurinn mikill, og það er engin trygging fyrir því að tollverndin sem við byggjum á standi til lengri tíma. Það hefur dregið kjarkinn úr mörgum bændum. Þá er einnig mjög erfitt að fá lánsfé í uppbyggingu eins og umhverfið er í dag, það þekki ég af eigin raun.“

Tollvernd sem fjaraði út

Hvernig snúa tollverndarmál að þér og öðrum svínabændum?

„Tollverndin er alfa og ómega fyrir okkur eins og flest allan landbúnað,“ segir Ingvi. „Hún er það sem heldur innlendri framleiðslu á lífi, sérstaklega í svínarækt þar sem við erum í beinni samkeppni við evrópska markaði. En hún hefur verið að fjara út smám saman. Magntollar hafa staðið óbreyttir í krónum talið frá árinu 1995 – það er 30 ár! Á þessum tíma hefur verðbólga og gengisþróun gert það að verkum að tollarnir bíta varla neitt í dag.

Við höfum verið að kalla eftir skýrari línum í tollverndina árum saman en lítið sem ekkert hefur gerst. Búvörusamningarnir eru í raun ekki pappírsins virði ef tollverndin verður ekki styrkt. Íslenskur landbúnaður, sem Evrópusambandið skilgreinir allan sem heimskautalandbúnað, verður aldrei samkeppnisfær nema hann njóti einhvers konar verndar. Við stöndum mjög vel hvað gæði kjötsins varðar enda heilnæmi framleiðslunnar meira en gerist í þeim löndum sem við erum að keppa um hillupláss við. En það er erfitt að keppa við verð innfluttu framleiðslunnar. Þannig verður alltaf ódýrara að flytja allt inn og vona að matarkistur Evrópu standi okkur alltaf opnar. Það er svo spurning hversu gáfulegt það er eins og heimsmálin eru að þróast um þessar mundir.“

„Landbúnaðurinn í heild sinni þarf að ná vopnum sínum. Ég held að það blasi við.“

En hvað eruð þið að fara fram á?

„Tollarnir voru lækkaðir hér handvirkt um 40 prósent árið 2007. Tollkvótarnir fyrir innflutt kjöt voru svo stórauknir árið 2015. Samkeppnin erlendis frá jókst mjög mikið við þetta. Krónutala magntolla hefur svo verið sú sama frá árinu 1995 eins og áður gat. Brýnast er líklega að stoppa í þetta gat og uppreikna þessar tölur.

Þetta voru á sínum tíma svokallaðir ofurtollar sem vernduðu innlenda framleiðslu, en nú er svo komið að menn geta flutt inn ákveðna vöðvahluta, borgað fullan toll – og samt selt á lægra verði en við getum framleitt fyrir hér. Það er galið. Það sýnir einfaldlega að kerfið hefur ekki þróast með tímanum.“

Á þetta hefur verið bent lengi, ekki satt?

„Við höfum bent á þetta árum saman, bæði sem félag og í gegnum Bændasamtökin. Það hefur lítið gerst. Stjórnvöld tala um mikilvægi fæðuöryggis, en þegar kemur að framkvæmdinni þá gleymist þessi grunnforsenda – að vernda innlenda framleiðslu. Án hennar er allt annað orðin tóm.“

„Við höfum verið utan við kerfið“

Hvernig horfir stuðningskerfi landbúnaðarins við ykkur svínabændum?

„Við höfum verið nánast utan við kerfið,“ svarar Ingvi. „Það var búinn til sérstakur pottur fyrir svínarækt fyrir átta eða níu árum sem nýttist til úreldingar og nokkurra fjárfestinga, en hann var smár miðað við raunþörfina. Það er ekkert langtímaöryggi í því.

Við höfum lagt til að annaðhvort verði stofnaður raunverulegur fjárfestingarsjóður eða að svínabændum verði boðin hagstæð lán til að byggja upp búin. Núna er staðan þannig að menn eru að fjárfesta með 10–12 prósent óverðtryggðum vöxtum – það er ekki raunhæft.“

Hvernig sjáið þið búvörusamningana fyrir ykkur?

„Að mínu mati á að vera heildarsamningur fyrir íslenskan landbúnað þar sem allar búgreinar fá tækifæri til að nýta stuðning eftir þörfum,“ segir Ingvi. „Óháð búgrein þá á það sama að gilda: ef verkefnið styður sjálfbærni, nýtingu áburðar eða vöruþróun, þá á það að falla undir kerfið. Þetta snýst um jafnræði og skynsemi.

Það þarf sem sagt að móta heildarsýn á íslenskan landbúnað og svo búvörusamninga sem taka mið af hagsmunum allra bænda í landinu. Sauðfjár- og mjólkurframleiðslan hefur hingað til verið í forgrunni samninganna ásamt grænmetinu á undanförnum árum. Aðrar búgreinar hafa setið á hakanum. Þessu þarf að breyta. Við ættum ekki að þurfa að vera að tala um þetta núna árið 2025.“

Uppsöfnuð fjárfestingarþörf

En þýðir þetta að það þurfi að stækka kökuna? Auka fjármagnið inn í búvörusamningana?

„Það er uppsöfnuð fjárfestingarþörf í nánast öllum búgreinum ef ekki hreinlega öllum,“ segir Ingvi. „Landbúnaðurinn í heild sinni þarf að ná vopnun sínum. Ég held að það blasi við.

Við höfum kallað eftir meira fjármagni mörg síðustu ár en það hefur ekki skilað neinu. Að mínu mati myndi aukin tollvernd skila miklu. Ef hún bítur þá mun hagur bænda vænkast. Neytendur gætu hins vegar þurft að greiða eitthvað meira fyrir vöruna. Það þorir auðvitað enginn að segja það en sennilega er það veruleiki sem við þurfum að horfast í augu við að matvara mun verða dýrari eftir því sem árin líða. Áherslan á ódýran mat er ekki sjálfbær stefna. Hér vildi ég sjá stjórnvöld koma að borðinu með því að lækka virðisaukaskatt á matvæli, sem var jú árið 2015 hækkaður úr 7% upp í 11%.“

Fæðuöryggi í forgrunni

Á síðustu árum hefur fæðuöryggi orðið mikið umræðuefni, sérstaklega í ljósi heimsástandsins. Hvernig tengist það svínaræktinni?

„Það tengist beint,“ svarar Ingvi. „Við erum háð innflutningi á fóðri og eldsneyti. Ef eitthvað gerist í alþjóðaviðskiptum, þá sér maður strax hvað við erum berskjölduð. Þess vegna þarf Ísland að tryggja lágmarks fæðuöryggi. Það þýðir að við verðum að geta staðið undir okkar eigin landbúnaðarframleiðslu – hvort sem það er naut, svín eða kjúklingur.

Í Evrópu hefur áherslan færst frá loftslagsmálum yfir í fæðuöryggi eftir stríðið í Úkraínu. Þjóðir vilja geta séð sjálfar um sig. Það er nákvæmlega sama hugsun sem við þurfum hér.“

Hvaða áhrif myndi innganga í Evrópusambandið hafa á íslenska svínarækt?

„Ég hugsa að hún myndi leggjast af, mögulega yrði þó eftir einhver framleiðsla innanlands til að sinna ferskvörumarkaðinum.

Við svínabændur vitum auðvitað af þessari umræðu um aðild að Evrópusambandinu en við getum ekki horft mikið í hana þegar við erum að taka ákvarðanir um þróun og rekstur búanna okkar. Ef við gerðum það myndum við líklega ekki gera neitt.“

„Að mínu mati á að vera heildarsamningur fyrir íslenskan landbúnað þar sem allar búgreinar fá tækifæri til að nýta stuðning eftir þörfum,“ segir Ingvi.

Kornrækt, fóður og sjálfbærni

Fóðurkostnaður er stór þáttur í rekstri svínabúa. Er hægt að byggja upp innlenda fóðurframleiðslu í auknum mæli?

„Já, það er stórmál. Fóðurkaup eru okkar langstærsti útgjaldaliður og við þurfum að byggja upp meiri innlenda kornrækt til lengri tíma, til að draga úr innflutningi og styrkja sjálfbærni. En það tekur tíma – þetta eru áratugaverkefni. Samt sé ég mikla möguleika, sérstaklega ef við fáum samstarf milli bænda og ríkis um þróun ræktunar og geymsluaðstöðu. Þótt það sé langsótt að fara í mikla kornrækt hér í Eyjafirðinum, þótt ekki væri nema vegna skorts á undirlendi, þá hefði ég áhuga á að kaupa korn af íslenskum bændum. Svínabændur gætu orðið stórkaupendur að íslensku korni ef sú framleiðsla eykst.“

„Við eigum að einbeita okkur að heimamarkaðnum“

Hver er framtíðarsýn þín fyrir íslenska svínarækt?

„Við eigum að einbeita okkur að heimamarkaðnum,“ segir Ingvi og heldur áfram. „Það er þar sem styrkurinn okkar liggur – í gæðum, hreinleika og trausti neytenda. Við eigum ekki að keppa á heimsmarkaði – og það á líka við um lambakjötið – heldur tryggja að íslensk heimili hafi aðgang að innlendu, öruggu og vönduðu kjöti.

Ég er í raun bjartsýnn. Það er góður hugur í mönnum, og við höfum sterkan hóp bænda sem vilja byggja framtíð greinarinnar. En við þurfum fyrirsjáanleika, sanngjarna tollvernd og eðlilegar fjárfestingaforsendur. Þá mun íslensk svínarækt blómstra.“

„Við erum að reyna að auka gagnsæi, sýna framleiðsluna opinskátt og við leggjum mikla áherslu á að fólk viti hvernig við vinnum. Ég held að það skili sér í trausti neytenda.“

„Við höfum ekkert að fela“

Dýravelferð í svínarækt hefur oft verið til í umræðu og bændur hafa verið gagnrýndir. Ingvi segir að bændur séu opnir fyrir þessari umræðu og hafi brugðist við henni með ýmsum hætti. Velferð dýranna sé fyrir öllu.

„Við höfum tekið miklum framförum á síðustu árum. Ný bú hafa verið byggð eftir ströngustu stöðlum og þessi þróun mun halda áfram. Á næstu árum verðum við komin á nánast sama stað og Norðmenn, sem eru með einhver bestu velferðarlög í Evrópu. Ég segi það alveg hreint út: Við höfum ekkert að fela.“

Samt heyrist gagnrýni á til dæmis halaklippingar og jafnvel tannklippingar.

„Já, og það er eðlilegt að fólk hafi skoðanir á því. Við höfum ekki klippt tennur í áratugi, að minnsta kosti ekki á þessari öld. Það hefur hins vegar tíðkast að slípa tennur og sumir bændur gera það enn Það er hins vegar mun minna inngrip heldur en að klippa tennur og er gert til að varna því að grísirnir særi spenana á gyltunum. En halaklippingar eru þekktar og tíðkast enn hér sem víða annars staðar í svínaræktarheiminum. Með þeim er verið að koma í veg fyrir halabit sem getur verið gríðarlegt velferðarvandamál, valdið sýkingum og sjúkdómum. Á bak við halaklippingar er því faglegt mat byggt á dýralæknisfræðilegum forsendum. Við erum samt að skoða lausnir, með kynbótum, auknu rými og breyttum umhverfisaðstæðum. Þetta er þróun, og við tökum þátt í þeirri vegferð.“

Í þessu sambandi rifjar Ingvi upp að svínaræktin fékk á sig mjög mikla gagnrýni fyrir rúmum 10 árum síðan þar sem hún var þá að gelda galtargrísi.

„Í framhaldi af þeirri umræðu voru geldingar alfarið aflagðar hér á landi árið 2016. Á þessum árum hefur innflutningur á svínakjöti frá Evrópu stóraukist. Ég leyfi mér að fullyrða að svínakjöt sem flutt er inn til landsins komi alltaf af svínabúum þar sem bændur gelda enn þá sjálfir galtargrísina. Af hverju á sér ekki stað nein umræða um það? Nú hefur innflutningur á svína-, kjúklinga- og nautakjöti stóraukist á undanförnum árum. Af hverju er engin umræða hérlendis um hvernig aðbúnaði og dýravelferð er háttað í þessum innflutningslöndum?“

Hefur umræðan um dýravelferð haft áhrif á neyslu eða ímynd greinarinnar?

„Kannski tímabundið, en almenningur sér líka að við höfum tekið gagnrýni alvarlega og brugðist við. Við erum að reyna að auka gagnsæi, sýna framleiðsluna opinskátt og við leggjum mikla áherslu á að fólk viti hvernig við vinnum. Ég held að það skili sér í trausti neytenda.“

Skylt efni: Svínarækt

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...