Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Halldór Þorgeirsson.
Halldór Þorgeirsson.
Mynd / só
Viðtal 1. júlí 2025

„Það vantar framkvæmdagetu í loftslagsmálin“

Höfundur: Sturla Óskarsson

Loftslagsráð samþykkti nýverið álit um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum undir yfirskriftinni Tímamót í loftslagsaðgerðum. Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, segir að það þurfi að fjárfesta í kolefnishlutlausri framtíð.

Blaðamaður Bændablaðsins settist niður með Halldóri og átti við hann spjall um þetta álit, stöðuna í dag og helstu áskoranir næstu ára.

Veik eftirfylgni aðgerða og ómarkviss ráðstöfun fjármála

„Fyrir þingkosningar í nóvember þá kölluðum við eftir því að það þyrftu að verða þáttaskil í framkvæmd loftslagsaðgerða. Veikleikarnir tengjast fyrst og fremst veikri verkstjórn. Veikri eftirfylgni aðgerða, ómarkvissri ráðstöfun fjármála, skorti á upplýsingamiðlun og skorti á samráði við almenning,“ segir Halldór og bætir við að nú séu ákveðin tímamót. „Parísarsamningurinn sem heldur utan um samstarf ríkja heims um að ná tökum á þessum vanda gengur á fimm ára klukku ef svo mætti segja, á fimm ára fresti þá endurnýja aðildarríkin sitt landsframlag og við erum á slíkum tímamótum núna. Íslandi ber, sem aðildarríki, að gera grein fyrir sínu framlagi til þessa markmiðs.“ Loftslagsráð vill einnig beina athygli að áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi. „Afleiðingar veðurfarsbreytinga koma æ betur fram á Íslandi og eru mjög alvarlegar, bæði afleiðingar sem eru beint hér heima, eins og aukin úrkomuákefð og ofanflóð og síðan óbein áhrif vegna áhrifa á hnattrænar virðiskeðjur,“ segir Halldór.

Velsæld til framtíðar

En hver verður helsta áskorunin fyrir Ísland á næstu árum? „Áskorunin er fyrst og fremst sú að við höldum lífsgæðum og velsæld á Íslandi til framtíðar. Virk og skynsöm loftslagsstefna er lykilatriði í því. Bæði að draga úr skaða með því að beita bestri fáanlegri þekkingu og reynslu og að fjárfesta í því sem þarf að fjárfesta í. Til dæmis til að koma í veg fyrir að úrkomuákefð valdi skaða þá þarf að fjárfesta í frárennslisinnviðum. Ekki síður þarf að aðlagast þessum nýja veruleika, lágkolefnishagkerfinu, en nýsköpun og þróun eru lykilatriði þar. Við höfum gert margt gott en erum enn mjög háð jarðefnaeldsneyti í samgöngum og jafnvel því miður í orkuframleiðslu. Þannig að áskoranirnar eru ekki síður þær að gera eins og aðrar þjóðir; að virkilega fjárfesta í þessari framtíð, sem er kolefnishlutlaus framtíð. Það þurfum við að gera betur. Og hraðar.“

Þrjár aðgerðir strax

Aðspurður hvaða þrjár loftslagsaðgerðir hann myndi vilja að ráðist yrði í strax nefnir Halldór fyrst að það sé mikilvægt að efla stjórnsýslu í loftslagsmálum. „Gera hana skilvirkari og að samþætta betur ríkisfjármál og loftslagsmarkmið. Til dæmis varðandi endurfjármögnun á vegakerfinu, það þarf að tryggja að slíkar ákvarðanir vinni ekki gegn loftslagsmarkmiðum eins og þær hafa gert,“ segir Halldór og nefnir sem dæmi að það hafi orðið mikill samdráttur í nýskráningu hreinna rafbíla. Hann bendir þó á að í drögum núverandi loftslagsráðherra að heildarlöggjöf um loftslagsmál séu mörg framfaraskref. „Ekki síst skýrari ábyrgð ráðherra gagnvart þinginu, betri tenging á niðurstöðum Loftslagsráðs inn í umfjöllun þingsins um stöðuna og í fyrsta skipti ákvæði um að unnið verði að heildstæðri loftslagsstefnu, að það sé skýrt hvað Ísland ætli sér í loftslagsmálum.“

„Númer tvö í mínum huga er að ná utan um losun frá votlendi, framræstu votlendi. Það var feikilegt framfaraskref þegar hluti þess var ræstur fram, það náðist mikill árangur í túnrækt og það er óumdeilt að það þarf að halda slíkum kerfum við. En þetta fór úr böndunum á sínum tíma. Það var ræst fram miklu meira en þurfti til túnræktar. Þannig að það er mjög mikið af landi sem hefur verið ræst fram en er í einhverri biðstöðu. Því miður, þrátt fyrir góðar tilraunir Votlendissjóðs, þá er mjög lítið af landi í virkri endurheimt enn sem komið er. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þetta eru ekki bara náttúruvísindi og verkfræði. Þetta er félagslegt og það skiptir mjög miklu máli að það sé tekið heildstætt á þessu.“ Halldór bætir við að það þurfi að ríkja fullur fyrirsjáanleiki þegar yfirráðahafar lands, hvort sem það eru ábúendur á ríkisjörðum eða ábúendur sem eiga sínar jarðir, taka ákvarðanir um endurheimt. „Það eru ekki til betri umsjónarmenn lands en þeir sem búa á jörðunum, vegna þess að endurheimt er eitthvað sem kallar á þekkingu á aðstæðum og viðveru. En það er greinilegt að allavega bændur, sem eru í virkri framleiðslu, hafa ekki treyst sér að koma inn í þetta nema í mjög litlum mæli og það þarf að finna leiðir til þess að það sé hægt. Ástæðan fyrir því að endurheimt votlendis er svona mikilvægt og brýnt mál er að takist hún vel þá skilar hún strax árangri. Vegna þess að það má ekki rugla þessu saman við bindingu kolefnis í skógrækt til dæmis, sem tekur langan tíma. Þetta er eins og að skrúfa fyrir krana ef að vel tekst til því að losunin breytist mjög hratt. En það þarf svo að halda henni við þannig að þetta er langtímamál, það þarf að vinna með þeim sem skilja og þekkja landið og þykir vænt um það.“

Halldóri þykir mikilvægt að farið sé í loftslagsaðgerðir með réttlátum hætti. „Þriðja forgangsmálið, sem ég held að sé algjört lykilatriði, er að ná betur utan um réttlætisþáttinn í þessu. Að í öllum aðgerðum þá þarf að horfa á hvernig það kemur niður á mismunandi tekjuhópa, hvaða áhrif það hefur á fólk eftir búsetu og öðru slíku. Því að við fáum fólkið aldrei með okkur ef ekki er horft á réttlætisvíddina í þessu. Þetta er ekki síst mikilvægt gagnvart landbúnaðinum og ég fagna þeim krafti sem er að koma í samtalið um loftslagsvænan landbúnað, þetta er sérstaklega mikilvægt. Sérstaklega mikilvægt gagnvart bændum vegna þess að þeir eru að taka miklu afdrifaríkari ákvarðanir heldur en aðrar atvinnugreinar, þú býrð á þessari jörð og þú hoppar ekki bara í eitthvert annað starf.“

Stjórnarráðuneyti eru ekki framkvæmdastofnanir

Til þess að innleiða betur langtímahugsun varðandi loftslagsmál segir Halldór að ríkið og atvinnulífið þurfi að vinna betur saman. Úr atvinnulífinu komi „margar mjög góðar hugmyndir en svo stoppar það á framkvæmdinni. Það þarf að taka hana út úr stjórnarráðinu. Stjórnarráðuneyti eru ekki framkvæmdastofnanir, þær eiga ekki að vera það. Það vantar framkvæmdagetu í loftslagsmálin.“

Mikilvægt sé að fleiri aðilar komi að málum til þess að eftirfylgni verði betri og verkefni skili árangri. „Þegar kemur að framkvæmd þá má það ekki allt hvíla á ríkinu, það þarf að fara miklu meira í sameiginlega framkvæmd með atvinnulífinu, með sveitarfélögum og það er mikill vilji hjá atvinnulífinu að koma með virkari hætti inn í framkvæmd, en til þess að svo megi vera þá þarf að ganga frá formlegum samningum. Þannig að það sé alveg ljóst hvert eignarhaldið er, hver ber áhættuna og væntanlegan ávinning.“

Kostnaður vegna vanefnda getur verið hár

Í álitinu benti Loftslagsráð einnig á að kostnaður vegna vanefnda gæti orðið hár. Halldór segir erfitt að vinna slíka útreikninga en „þetta er mjög fljótt að koma í milljarða“. Betri nýting á fjármunum væri að ráðast í aðgerðir. Mikilvægt sé að heildarstefna Íslands sé gerð „með sókn, hugrekki og fyrirhyggju og hefjist handa ekki seinna en í gær“, segir Halldór en tekur fram að Ísland sé ekki eina landið sem eigi í erfiðleikum með þennan málaflokk. „Við erum að breyta hagkerfinu með markvissum hætti til þess að draga úr miklu verri stöðu sem loftslagsvá myndi kalla yfir. Ég held að það sé mjög erfitt að segja hvar við stöndum, við erum náttúrlega komin lengra í orkuskiptum heldur en flestar aðrar þjóðir, en við erum mjög aftarlega þegar kemur að því til dæmis að losna undan viðjum jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Þar er mikið sóknartækifæri sem við höfum ekki nýtt okkur.“

Framtíðarsýn og kraftur

Halldór segir að svona stórar breytingar kalli á að fara úr sýn yfir í framkvæmd. „Það var ekkert óumdeilt á sínum tíma að fara í hitaveituvæðinguna en það náðist samstaða og nú spyr enginn af hverju við gerðum það. Og við höfum því miður, í orkuskiptum í samgöngum, tapað miklum tíma, það er ekki bara spurning um ívilnanir það er líka spurning um uppbyggingu innviða. Það hefur því miður komið sú tilfinning, sem ég held að sé alfarið röng, að rafbílar séu bara fyrir þéttbýli. Það er fjarri því vegna þess að það er íbúum dreifbýlisins sem við erum að íþyngja mest með því að vera enn háð jarðefnaeldsneyti. Þess vegna fagna ég því í dag hversu mikið af bændum eru farnir að vera með rafbíla heima.“

„Við þurfum að halda áfram og við þurfum að vera með miklu markvissari stuðning við uppbyggingu á hleðsluinnviðum, það er töluvert sem er verið að styðja í gegnum Orkusjóð en það þarf að vera meira. Þarna komum við aftur að þessu, það þarf að vera þessi sýn og eftirfylgni. En síðan er stóra verkefnið þegar kemur að rafvæðingu samgangna, það eru þungaflutningar.“ Halldór telur að við þurfum að læra aftur á sjóflutninga. „Því miður þá fóru allir flutningar, þungaflutningar, á vegakerfið án þess að vegakerfið væri undir það búið.“ Að lokum segir Halldór að vegna þess hve vel tókst til með orkuskipti á síðustu öld sé þó ástæða til bjartsýni. „Það þarf að finna aftur þennan kraft sem við höfðum áður til þess að búa í haginn fyrir framtíðina.“

Skylt efni: loftslagsmál

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...