Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Fjall er merkileg eign“
Menning 20. febrúar 2024

„Fjall er merkileg eign“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Þorsteini frá Hamri.

Þorsteinn frá Hamri.

Þorsteinn (Jónsson) frá Hamri var fæddur 15. mars 1938 að Hamri í Þverárhlíð í Borgarfirði. Hann lauk gagnfræðaprófi og landsprófi frá Reykholtsskóla 1954 og stundaði síðan nám í Kennaraskóla Íslands 1955 til 1957. Þorsteinn vann sem aðstoðarbókavörður á Bókasafni Kópavogs frá 1961 til ársins 1967, en frá þeim tíma hafði hann ritstörf að aðalstarfi. Þorsteinn vann jafnframt að gerð útvarpsþátta, prófarkalestri og þýðingum.

Fyrsta ljóðabók Þorsteins, Í svörtum kufli, kom út árið 1958. Þorsteinn var afkastamikið ljóðskáld en ritaði einnig skáldsögur og þætti. Fyrsta skáldsaga hans, Himinbjargarsaga eða Skógardraumur, ævintýri kom út 1969. Hann var einnig ötull þýðandi og þýddi m.a. fjölmargar barnabækur. Hann lést árið 2018.

Þorsteinn hlaut fjölda viðurkenninga fyrir ritstörf sín, meðal þeirra má nefna Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi, riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir ritstörf árið 1996, heiðurslaun Alþingis árið 2001 og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2009. Þorsteinn var gerður að heiðursfélaga Rithöfundasambandsins árið 2006.

... Þó hefur margur maðurinn eignazt sína friðarvin hér lengra upp um óbyggðina. Bændur hafa löngum minnzt hljóðlátra stunda við heiðavötnin, og þess eru dæmi að menn hafi legið þar við dorg við köld kjör einir, horfið þangað síðan á efri árum og trúlega dáið í heiðina að lyktum. Hvítsíðungar áttu fyrrum seljaland gott á Kjarradal, og þótt mörgu hafi verið logið um seljasælu voru þar sumargrið, stundarhlé á hinni venjubundnu vinnuþrælkun heima fyrir. ...

Möttull konungur eða Caterpillar, úr kaflanum Staðir norðan Strúts; Brunnur. 1974. Ritsafn, Iðunn, 1998.

Fjall

Fjall sem þú ert að skoða og fást við hefur margar hliðar og fleti; þú gengur umhverfis það, klífur það og kannar hvert drag, hvern dýjakrók, hverja skriðu, einkum með tilliti til greiðfærra leiða. Þó er fremur ólíklegt að þú bindir mesta tryggð við þá staði þar sem uppgangan er auðveldust og ferðalangar leita helzt útsýnis. Því fjall er merkileg eign: þegar alls er gætt sérðu fjall einungis frá þeirri ógleymanlegu hlið sem þér var gefið það.

Fiðrið úr sæng Daladrottningar, 1977. Ritsafn, Iðunn, 1998.

Mörg eru ljóðin

Mörg eru ljóðin glaðbeitt og græn
ofsareið og eldrauð
blá eins og heiðríkjan
brún eins og lyng haustsins
og koma inn til manna auðmjúk
eða krefjandi.

Vera má að önnur ljóð segi öllu færra;
sum koma sjóvot
og sumum fer eins og
beitarhúsmanni
sem barizt hefur alla nóttina við
staðardrauginn:

það líður yfir þau í ljósinu.

Fiðrið úr sæng Daladrottningar, 1977. Ritsafn, Iðunn, 1998.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...