Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
„Ég hef það bara nokkuð gott“
Af vettvangi Bændasamtakana 28. ágúst 2025

„Ég hef það bara nokkuð gott“

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Á dögunum sótti ég fund Norrænu bændasamtakanna í Noregi, en samstarfið við frændur okkar á hinum Norðurlöndunum er bæði áhugavert og gagnlegt íslenskum bændum. Það er áhugavert að sjá að fæðuöryggi er ekki eitthvað sem við hjá Bændasamtökum Íslands erum ein að velta fyrir okkur, heldur er þetta eitthvað sem brennur á bændum um Norðurlöndin öll.

En það var ekki síður áhugavert að fara um norskar sveitir, hitta þar bændur og ræða við þá um starfsskilyrði þeirra og aðstæður. Fyrir mann sem starfar við landbúnað í íslenskri sveit sló það mann strax að sjá að í Noregi hafa bændur greinilega haft svigrúm til fjárfestingar sem íslenskir bændur hafa ekki notið undanfarin ár. Nýjar vélar og vel hirtan húsakost var að sjá á hverjum bæ, enda styður norska ríkið við fjárfestingu í landbúnaði á ýmsan hátt.

Norðmönnum virðist einnig hafa auðnast nokkuð sem ekki hefur tekist hér, en það er að halda landbúnaðarlandi í rækt. Ekki er að sjá að þar hafi heilu sveitirnar farið í eyði og séu nú engum til gagns og fáum til gamans öðrum en sumarhúsaeigendum eða erlendum laxveiðiáhugamönnum.

Í raun má samt segja að staða norsks landbúnaðar kristallist í svari sem einn ungur bóndi gaf við spurningu sem hann fékk um það hvernig afkoman væri hjá honum. „Ég hef það bara nokkuð gott,“ sagði hann, sem á náttúrlega að vera svarið hjá íslenskum bændum við sömu spurningu. En því miður er afkoma íslenskra bænda almennt töluvert frá því að vera „nokkuð góð“.

Í hverju skyldi munurinn á Íslandi og Noregi liggja hvað þetta varðar? Bæði löndin eru í hópi auðugustu ríkja heims þegar miðað er við tekjur og landsframleiðslu á mann. Vissulega búa Norðmenn að olíuforða sem Íslendingar hafa ekki, en á móti kemur að orkuauðlindir okkar hafa gert okkur algerlega sjálfbær um raforku og húshitun. Það munar um minna.

Ég held að svarið sé ekki flókið, heldur liggi í því að í Noregi hefur verið mörkuð skýr stefna um stuðning við uppbyggingu og nýsköpun í landbúnaði og að við þessa stefnu hafi verið staðið til lengri tíma. Þar eru stjórnvöld ekki aðeins meðvituð um samfélagslegt og efnahagslegt mikilvægi landbúnaðar og innlendrar matvælaframleiðslu. Þau hafa líka verið tilbúin að búa þarlendum bændum starfsskilyrði sem tryggja þeim mannsæmandi afkomu við framleiðslu á hollum, heilnæmum og umhverfisvænum landbúnaðarafurðum.

Landbúnaður á norðurslóðum lýtur öðrum lögmálum en landbúnaður í Kaliforníu eða Frakklandi, en reynsla frændþjóða okkar sýnir að með stefnufestu og hugmyndaauðgi er hægt að finna leiðir til að auka framleiðni í landbúnaði, halda landi í rækt og viðhalda byggð í sveitum landsins. En það sem mestu máli skiptir er að þetta sýnir að það er hægt að tryggja bændum sanngjörn laun fyrir þeirra vinnu og þeirra framlag.

Markmiðið á að vera að íslenskir bændur hafi það „bara nokkuð gott“ líka.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...