Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ylræktun grænmetis – takmarkað vaxtarrými í brennidepli
Á faglegum nótum 16. mars 2021

Ylræktun grænmetis – takmarkað vaxtarrými í brennidepli

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Mjög mikil aukning hefur verið í framleiðslu lífrænt vottaðra garðyrkjuafurða í nágrannalöndum okkar á síðustu árum. Fylgja framleiðendur regluverki Evrópusambandsins þar um og sama gildir um Ísland en Íslendingar eru eftirbátar annarra þegar kemur að lífrænni ræktun.

Vottun þriðja aðila um að reglum sé framfylgt er nauðsynleg til að tryggja trúverðugleika lífrænu framleiðslunnar. Vottunarstofan TÚN sinnir eftirliti og úttektum í umboði Matvælastofnunar hér á landi innan ramma gildandi reglugerða. Tiltölulega fáir framleiðendur stunda ræktun á lífrænt vottuðu grænmeti í gróðurhúsum á Íslandi, mun færri hlutfallslega en td. í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Þar og víða í Evrópu hefur verið mikill uppgangur í lífrænni ylræktun til að mæta sífellt aukinni eftirspurn neytenda eftir lífrænt ræktuðum gróðurhúsaafurðum. Aðgengi að ýmsum nauðsynlegum aðföngum til lífrænnar framleiðslu er mun greiðara erlendis og kann það að skýra muninn að sumu leyti og stjórnvöld þar hafa á ýmsan hátt stutt við þá framleiðendur sem hyggjast hefja lífrænan búskap.

Eitt er víst og það er að auka þarf hlut lífrænnar ræktunar meðal íslenskra garðyrkjubænda og til þess þarf samvinnu bænda, neytenda og hins opinbera. Það þjónar engum góðum tilgangi að stilla þessum eðlisólíku en þó nátengdu ræktunaraðferðum andspænis hvor annarri í heitri umræðu heldur geta þær vel þrifist hlið við hlið, bæði í faglegri umfjöllun og á markaði.

Ylræktarbændur í sóknarhug

„Hefðbundin“ ylrækt hefur sótt verulega í sig veðrið á Íslandi á undanförnum árum en það endurspeglar aukinn áhuga neytenda á íslenskum matjurtum yfirleitt. Framsækni einkennir uppbygginguna, nýleg íslensk gróðurhús eru með þeim tæknivæddustu sem þekkjast ef borið er saman við önnur Evrópulönd og jafnvel þótt víðar væri litið. Árangur framleiðendanna er líka eftirtektarverður, þeir skara til dæmis fram úr félögum sínum í öðrum löndum í heilsársræktun blóma og grænmetis og ræktunin verður sífellt afkastameiri.

Afmarkað rótarrými og óvirkt efni í stað moldar

Alsiða er í hátæknigarðyrkju eins og þeirri sem hefur rutt sér til rúms á Íslandi að rækta grænmeti ekki í mold, heldur í afmörkuðu rótarrými með steinull, vikri eða öðru óvirku efni sem ekki hefur teljandi áhrif á áburðarmagn eða jafnvel í vatni eingöngu, ásamt tilbúnum áburði. Það auðveldar meðal annars nákvæma stýringu á áburðargjöf og vökvun. Þessu vaxtarefni fyrir ræturnar er gjarnan komið fyrir á upphækkuðum rennum í gróðurhúsunum til aukinnar hagræðingar. Vökvað er með fljótandi áburðarlausn. Meira en 90% íslensku framleiðslunnar á tómötum og gúrkum er ræktuð með þeirri aðferð og hefur skilað örum vexti og mikilli uppskeru. Salat er sömuleiðis ræktað í hringrás næringarlausnar án jarðvegs. Þessar ræktunaraðferðir eru snyrtilegar og árangursríkar en geta á engan hátt fallið undir skilgreiningar á lífrænni ræktun og um það er ekki deilt.

Samræmdar Evrópureglur um lífrænan búskap taka gildi um næstu áramót

Evrópusambandið hefur samþykkt samræmdar reglur um lífrænan búskap sem öll aðildarríkin skulu fylgja og taka gildi í janúar 2022. Upphaflega stóð til að gildistakan væri 1. janúar 2021 en henni hefur verið frestað um eitt ár vegna Covid-19. Ísland er fullgildur aðili að þessu samkomulagi gegnum aðild sína að Evrópska efnahagssamningnum, EES. Meðal annars er kveðið á um að í lífrænt vottaðri ræktun verði ekki heimilt að notast við takmarkað rótarrými í óvirku ræktunarefni, heldur skuli plönturnar vera gróðursettar á beð með lífrænum jarðvegi og næringu. Reglur sem snúa að skepnuhaldi munu einnig taka nokkrum breytingum með innleiðingu ESB-reglugerðarinnar.

Undanþágur frá reglum um takmarkað rótarrými heyra brátt sögunni til

Vottunaraðilar í þremur Evrópu­ríkjum, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi hafa engu að síður samþykkt lífræna vottun á tómata- og gúrkuræktun í litlum jarðvegssekkjum með lífrænni mold og næringu undanfarin ár. Að minnsta kosti virðast þeir hafa horft í gegnum fingur sér þegar kom að vottuninni, því í raun hefur þess háttar ræktun ekki verið leyfileg samkvæmt reglum um lífræna framleiðslu síðast liðin ár.

Íslenskir garðyrkjubændur hafa sumir hverjir hugleitt að fara þá leið til að fá lífræna vottun á sína framleiðslu. Sú ræktunaraðferð er hins vegar á útleið, því reglur ESB um lífræna framleiðslu munu ekki heimila slíka ræktun. Framleiðendur sem komu upp þess háttar aðstöðu í sínum gróðurhúsum í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi fyrir 28. júní 2017 munu geta haldið sinni lífrænu vottun að öðrum skilyrðum uppfylltum til 31. desember 2031. Undanþágan gildir aðeins fyrir þessi þrjú lönd og ekki verður heimilt að taka aðferðina upp annars staðar í Evrópu. Undanþágur sem nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa notfært sér heyra því brátt sögunni til. Áfram verður hægt að óska lífrænnar vottunar á smáplöntur sem ræktaðar eru og seldar í pottum eftir aðferðum lífrænnar ræktunar, til dæmis kryddjurtir og blóm.

Reglugerð ESB um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara, sem Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur samþykkt og tekur að öllum líkindum gildi um næstu áramót skerpir enn muninn milli lífrænnar og hefðbundinnar garðyrkju. Reglurnar gera auknar kröfur til lífrænna framleiðenda í nágrannalöndunum en hafa í raun ekki sömu áhrif á lífræna framleiðslu á Íslandi eins og hún hefur verið stunduð því hér hefur lífrænt vottað grænmeti allt verið ræktað á beðum með lífrænni mold og lífrænum næringargjöfum, eins og gert er ráð fyrir í hinum nýju reglum.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...