Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
White Lotus og hlaðvörp um landbúnað
Líf og starf 9. maí 2025

White Lotus og hlaðvörp um landbúnað

Höfundur: Þröstur Helgason

Við lifum uppgangstíma sjónvarpsþáttaraðarinnar. Af fjölmörgum frábærum sjónvarpsþáttaröðum sem framleiddar hafa verið á undanförnum árum er óhætt að halda því fram að White Lotus sé á meðal þeirra forvitnilegustu. Þriðja þáttaröðin hefur nú verið aðgengileg um nokkurt skeið í sjónvarpi Símans og hefur að mestu fengið frábærar viðtökur en þó hafa sumir ekki kveikt á snilldinni, þar á meðal menningarrýnar Guardians og Sunnudagsblaðs Moggans. Ekki skal tekin bein afstaða til þeirra skrifa en lesendur óhikað hvattir til að láta þættina ekki fram hjá sér fara. Þeir eru betri en flest annað sjónvarpsefni sem boðið er upp á um þessar mundir.

Þriðja þáttaröðin er kannski eilítið hægari en tvær þær fyrri. Áhorfendur fylgjast með aðdraganda atburðar sem á sér stað á gríðarfallegu hóteli í Taílandi þar sem nokkrir lífsþreyttir Vesturlandabúar eru komnir til að hvíla sig og leita innri friðar í ró og næði. Í fyrsta þættinum sjáum við þennan atburð frá takmörkuðu sjónarhorni einnar persónunnar og heyrum skothvelli. Í þáttunum sem fylgja kynnumst við persónum þáttanna sem nánast allar virðast vera beinlínis á barmi taugaáfalls eða að minnsta kosti óvissar um framtíð sína, stöðu og tilgang í lífinu. Þær standa margar frammi fyrir erfiðum ákvörðunum eða áskorunum. Og sumar þeirra gætu jafnvel verið vísar til að grípa til vopna til að leysa þann vanda sem þær eru staddar í. Aðalviðfangsefni þáttanna er þó ekki að leysa gátuna um það hver fremur glæpinn, sem vissulega afhjúpast í lokaþættinum, heldur að fylgjast með litríku persónugalleríinu glíma við tilvistarspurningar af ólíkum stærðum og gerðum.

Michael White, sem er handritshöfundur og leikstjóri þessarar þáttaraðar eins og hinna tveggja, nær hér að lyfta sér á annað plan.

* * *

Í Alþjóðlegum samtökum landbúnaðarblaðamanna (International Federation of Agricultural Journalists, IFAJ) eru um 5.000 meðlimir. Eitt af helstu baráttumálum samtakanna er að fréttir af landbúnaði fái meiri athygli í meginstraumsmiðlum heimsins. Allir blaðamenn sem sinna þessu málefnasviði kannast nefnilega við það að erfitt er að koma fréttum um landbúnað að í fréttamiðlum. Þær eru ekki í forgangi, jafnvel þó að matvælaframleiðsla snerti líf hvers einasta einstaklings í þessum heimi á hverjum einasta degi og í flestum tilvikum oft á dag. Af þessum ástæðum þrífast sérblöð um landbúnað víða, þó að fáheyrt sé að þau njóti jafnsterkrar markaðsstöðu og Bændablaðið gerir hér á landi.

Önnur hlið á þessu er fjöldi áhugaverðra hlaðvarpa um landbúnað. Þau er mörg að finna á erlendum málum en fá á íslensku, líklega bara eitt sem nefnist því skemmtilega nafni Út á túni. Umsjón hafa Jón Elvar Gunnarsson og Sigrún Júnía Magnúsdóttir sem bæði eru bændur austur á landi. Í þáttunum er spjallað við bændur og aðra sem starfa við eða í tengslum við matvælaframleiðslu. Þetta eru því viðtalsþættir en stundum spjallar umsjónarfólkið frjálslega um ýmislegt er snertir bændur, landbúnað, mat og annað. Það á við nýjasta þáttinn en í þættinum þar á undan var rætt við Margréti Gísladóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í landbúnaði. Þættirnir koma út um það bil á mánaðarfresti.

Af erlendum hlaðvörpum mætti nefna þrjú sem eru sérlega vönduð og áhugaverð.

BBC sendir vikulega frá sér hlaðvarpið Farming Today þar sem fjallað er vítt og breitt um landbúnað á aðgengilegan hátt. Umfjöllunarefnin eru iðulega fréttatengd og því hægt að mæla með þættinum fyrir fólk sem vill fylgjast með því helsta sem er að gerast í breskum og alþjóðlegum landbúnaði. Mikil áhersla er á hvers konar nýjungar, umhverfismál, loftslagsmál, lífrænan landbúnað og áfram mætti telja.

Áhugaverð umfjöllun um auðgandi landbúnað er í hlaðvarpinu Deep Seed en í því er farið á dýptina í umræðu um ýmis aðkallandi mál sem varða auðgandi landbúnað og umhverfismál. Þættirnir eru á ensku.

Fyrir dönskumælandi má benda á Landbrugspodcasten þar sem fjallað er um landbúnað út frá fjölbreyttum sjónarhornum.

Allt eru þetta frábærir þættir sem auðvelda áhugafólki um landbúnað að fylgjast með.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f