Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Vorboðinn í sjónum
Mynd / VH
Á faglegum nótum 17. maí 2021

Vorboðinn í sjónum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Heimkynni hrognkelsis eru beggja vegna í Norður-Atlants­hafi og þar veiðist það norðan frá Barentshafi og Hvítahafi suður til Portúgals. Það veiðist einnig við Grænland og við austurströnd Norður-Ameríku frá Hudson-flóa í Kanada suður til Hatteras-höfða í Bandaríkjunum.

Við Ísland er hrognkelsi allt í kringum landið og er víða algengt. Hrognkelsi er fiskurinn á hundrað krónu peningnum. Hrognkelsi er göngufiskur sem heldur sig mið- og uppsjávar úti á reginhafi hluta úr árinu en kemur upp á grunnmið til að hrygna síðari hluta vetrar og fyrri hluta vors.

Haus hrognkelsisins er lítill og kjafturinn smár og með litlum en beittum tönnum. Augun eru í meðallagi stór. Bolurinn er stuttur og kviðurinn hálfflatur. Bakuggar eru tveir og myndar fremri bakuggi háan kamb. Aftari bakuggi og raufaruggi eru andspænis hvor öðrum og líkir að stærð og útliti. Eyruggar eru stórir og kviðuggarnir eru ummyndaðir í sogskál. Sporðblaðka er stór. Roðið er þykkt og er kallað hvelja og þakið smáum beinkörtum. Grásleppan er dökkgrá að ofan, ljósari á hliðum og hvít eða ljósgræn að neðan. Rauðmaginn er dökkgrár að ofan, grágrænn að neðan, en um hrygningartímann verður hann rauður eða rauðgulur að neðan.

Fæða fullorðinna hrognkelsa er einkum ljósáta, uppsjávarmarflær, smáhveljur og fleira, en seiðin sem alast upp í þarabeltinu éta ýmis smádýr t.d. botnkrabbaflær, marflær og þanglýs. Mörg dýr éta hrognkelsi og má nefna hákarl og sel en auk þess eru hrognkelsi ein aðalfæða búrhvala hér við land. Í seinni tíð hefur skötuselur herjað á rauðmaga á vorin og vilja sumir líkja skötusel á hrygningarslóð hrognkelsis við mink í æðavarpi þar sem hann étur rauðmagann á meðan hann gætir hrognanna.

Hrognkelsi hrygna á vorin og fram á sumar. Rauðmaginn kemur fyrr á hrygningarstöðvarnar en grásleppan og hrygningin fer fram á grjót- eða klapparbotni í þarabeltinu. Hrygnan festir hrognin, sem eru 80 til 150 þúsund, við botninn í stórum klösum og hængurinn frjóvgar þau um leið. Í nokkrar vikur eftir hrygningu, á meðan hrognin þroskast, gætir hængurinn þeirra og sér um að þeim berist nægjanlegt súrefni auk þess sem hann reynir að verja þau fyrir óvinum.

Latneska heitið, Cyclopteruc lumpus, líkir hrognkelsinu við kýklópa sem voru risar með eitt auga í enninu samkvæmt grískri goðafræði og vísar einnig til kambsins á baki þess. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir þannig um tilurð hrognkelsis: Einu sinni gekk Kristur með sjó fram og var Sankti Pétur með honum. Kristur hrækti í sjóinn og af því varð rauðmaginn. Þá hrækti líka Sankti Pétur í sjóinn og af því varð grásleppan. Þessi saga gefur glöggt til kynna hvort kynið var í meira áliti og gildir það enn.

Eftir vetrarsult var algengt að fólk hefði ekki bragðað nýmeti í langan tíma og hrognkelsagöngum að vori því víða fagnað. Á Ströndum er sagt að lifnað hafi yfir fólki eftir að fyrstu hrognkelsin veiddust á vorin og að hárið hafi fengi á sig sérstakan blæ og jafnvel aukist við neyslu þeirra og hrognkelsin stundum kölluð vorboðinn í sjónum.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...