Vika til sælu
Sæluvika, lista- og menningarhátíð í Skagafirði, stendur til 3. maí.
Skagfirðingar eru þekktir fyrir að kunna að skemmta sér og vikan fram undan ætti að reynast þeim drjúg í þeim efnum. Raunar var ýmislegt til gamans gert fyrir upphaf Sæluviku, nefnt forsæluviðburðir.
Sæluvikan var sett 27. apríl og þá veitt samfélagsverðlaun hjónunum Maríu Guðmundsdóttur og Sigurði Hansen. Í samantekt dómnefndar segir að Sigurður hafi árið 2015 fengið fálkaorðuna fyrir framlag til kynningar og sögu arfleifðar Sturlungaaldar, auk þess sem hann hafi auðgað menningarlíf í Skagafirði með ljóðum sínum um áratugaskeið. María sé einstaklega listfeng og reki handverks- og antíkverslun. Þau hjónin hafi m.a. byggt upp glæsilega aðstöðu og sýningu í Kakalaskála.
Boðið er upp á fjölda viðburða þessa daga og má þar nefna myndlistarsýningar, bíó og leikhús, opið hús í Náttúrustofu Norðurlands vestra, sólarhyllingu, skógarböð, jóga, kakó-athöfn, sánagús og hugleiðslu, áheitahlaup, gömludansaball, vöfflukaffi, flóamarkað og kántríball.
Upphaf Sæluviku má rekja til hátíðar á Reynistað í Skagafirði þann 2. júlí árið 1874, en sama ár var Íslendingum færð stjórnarskrá og var fagnað í Skagafirði sem og annars staðar á landinu. Sæluvika stendur til 3. maí.
