Rjúpa (l. lagopus muta) eða fjallrjúpa, er eini hænsfuglinn sem lifir villtur á Íslandi. Strangt aðhald er með rjúpnaveiðum.
Rjúpa (l. lagopus muta) eða fjallrjúpa, er eini hænsfuglinn sem lifir villtur á Íslandi. Strangt aðhald er með rjúpnaveiðum.
Mynd / Pixabay
Fréttir 18. desember 2025

Víðast hvar nóg af rjúpu og gæftir góðar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Rjúpnaveiðitímabilinu lýkur 22. desember á Austurlandi og stendur lengst þar. Veiðar voru heimilar frá 24. október sl. og lauk á mismunandi tímum eftir svæðum.

Veiðitímabilið hófst 24. október á sex svæðum, með svæðisbundnu veiðidagafyrirkomulagi. Engar opinberar tölur liggja fyrir um veiðina á tímabilinu, en stjórnun veiðanna byggir á nýlegri verndarstefnu. Sölubann er á rjúpu og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra.

Áki Ármann Jónsson, formaður SKOTVÍS, segir að almennt séð hafi verið nóg af rjúpu í haust. „Hún hagaði sér kannski öðruvísi en áður, elti minna snjólínuna og menn voru að lenda í veiði á láglendi á leiðinni í bílinn frekar en á hæstu fjallseggjum,“ segir hann og veltir fyrir sér hvort það hafi áhrif að fálkastofninn sé í lægð og rjúpan þá ekki eins mikið í snjólínunni að fela sig.

„Það var líka frekar misviðrasamt á þann veg að það snjóaði og tók síðan upp á víxl. Hins vegar var kannski minna um hvassviðri og leiðindaveður. Rjúpan var þannig stygg og dreifð þannig að veiðin var frekar jöfn hjá flestum. Í svona árferði má gera ráð fyrir að veiðin sé einhvers staðar í kring um 50.000 fugla. Líklega minnst á Suðurlandi af þessum sex veiðisvæðum þar sem stofninn er minnstur,“ segir Áki jafnframt.

Nýliðun veiðimanna sé hins vegar ekki mikil, um helmingi minni en fyrir 25-30 árum síðan. „Það gæti þýtt minni sókn sem síðan myndi þá endurspeglast í minni veiði. Allar kannanir sem SKOTVÍS hefur gert stemma við opinberar tölur um meðalveiði sl. ára. Það eru um 8-12 rjúpur á mann, sem sagt hófleg veiði sem ógnar ekki rjúpnastofninum sem heild,“ segir hann enn fremur.

Stofninn misjafn eftir landshlutum

Á vef Náttúruverndarstofnunar kemur fram að síðasta áratug hafi rjúpnaveiði sveiflast í kringum 40 þúsund rjúpur á ári, með lágpunkti upp á 28 þúsund og hápunkti upp á 60 þúsund fugla.

Fyrirkomulag rjúpnaveiði í ár byggði á þeim grunni sem lagt var upp með í samvinnu hagaðila við gerð stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpnastofninn sem staðfest var í fyrra. Lagt var upp með að það hefði jákvæð áhrif á bæði rjúpnastofninn og alla hagaðila.

Niðurstöður rjúpnatalningar Náttúrufræðistofnunar sl. vor sýndu nokkrar breytingar á fjölda rjúpna samanborið við árið 2024 en leitin var sögð ólík eftir landshlutum. Á Vestfjörðum og Norðvesturlandi sýndu talningar svipaðan fjölda og síðustu ár, og á Austurlandi var fækkun frá því í fyrra. Á Suðurlandi var aukning og stofninn þar við meðaltal síðustu ára. Á Vesturlandi og Norðausturlandi var talsverð aukning frá því árið 2024, og á vissum sniðum, s.s. á Mýrunum og í Bakkafirði, var fjöldi rjúpna sá hæsti sem sést hefur frá því talningar hófust.

Miðað við stofnvísitölur úr talningum síðustu 20 ára sýna talningar rjúpnastofninn vera undir meðaltali á Austurlandi, í kringum meðaltal á Norðvesturlandi og Suðurlandi, og yfir meðaltali á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðausturlandi. Talið er líklegt að hár þéttleiki rjúpna á vissum svæðum tengist fækkun fálka.

Tuttugu og fimmfaldur munur

Á einstökum rjúpnatalningarsvæðum hefur munur á hámarksog lágmarksárum verið allt upp í 25-faldur skv. upplýsingum Náttúrufræðistofnunar. Í bestu rjúpnaárum telur hauststofn rjúpunnar yfir milljón einstaklinga en innan við tvö hundruð þúsund fugla í þeim lökustu.

Einnig hefur verið munur á rjúpnafjölda á milli tímabila. Á fyrri hluta 20. aldar var meira af rjúpu en verið hefur síðustu áratugi og þá taldi rjúpnastofninn 3-5 milljónir fugla í hámarksárum. Vegna langtímafækkunar í stofninum hefur rjúpan verið skilgreind sem tegund í yfirvofandi hættu á válista fugla.

Skylt efni: rjúpnaveiðar | rjúpa

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...