Vetrarnepjan mánuði fyrr á ferðinni
Jarðræktin er í miklum blóma í Eyjafirði þessar vikurnar. Vetrarnepjan setur fallegan svip á bæinn Ytra Gil með sínum gulu blómum. Bóndinn á Klauf, Hermann Ingi Gunnarsson, lauk á dögunum við að bera áburð á akurinn og áætlar að hann sé mánuði á undan því sem vænta megi í hefðbundnu árferði.
„Einstök veðurblíða hefur verið og veturinn var mildur,“ segir Hermann. „Þetta kemur rosalega vel undan vetri. Venjulega hefur nepjan verið að blómstra svona upp úr 17. júní. Vegna þess hversu snemma þetta er á ferðinni þá var ég auðvitað allt of seinn að bera á, en ég fékk áburðinn ekki fyrr en um 5. maí og bar hann á fljótlega, en þá var akurinn að byrja að blómstra.
Þetta lítur svakalega vel út og í raun öll ræktun. Við náðum að sá öllu korni í apríl. Það er allt komið upp og vel af stað – en það hefur rignt vel í morgun, eiginlega alveg eins og eftir pöntun í kjölfarið á þessum heitu og sólríku dögum.“
Með svipað fóðurgildi og repja
Vetrarnepja er einær hávaxin káltegund sem er náskyld næpunni, samkvæmt riti Landbúnaðarháskólans (LbhÍ), „Fóðurjurtir í íslensku ræktunarlandi“. Nepja er fóðurjurt sem svipar til repju en er ekki eins hávaxin. Hún hefur verið reynd hér á landi sem grænfóður og olíufrætekjur. Nokkrir bændur hafa prófað að rækta hana til beitar fyrir kýr og kindur. Vetrarnepjan mun vera heppilegri til beitar en sumarnepjan, en misjafnar sögur fara af reynslu bænda af henni. Í riti LbhÍ segir enn fremur um nepjuna að hún sé harðgerð, hafi svipað fóðurgildi og repja en sé ekki eins uppskerumikil. Þá sé hún líkt og aðrar káltegundir viðkvæm fyrir þurrki og kálflugu.
Hermann segir að sumarið sé of stutt í Eyjafirði fyrir voryrki og því henti vetrarnepjan þar vel. „Ég hef safnað fræjunum sem ég pressa svo og gef kúnum hratið í staðinn fyrir aðkeypt soja. Nepjan er svo feit að kýrnar þola hana ekki sem hreint fóður, eins og svín gera. Við eigum pressu sem við ætlum að setja upp í nýju kornþurrkstöðinni hér sem var prufukeyrð síðasta haust.
Í sumar ætlum við að setja upp 500 tonna útisíló við stöðina og klára lokafrágang á lóð og húsi. Í fyrra var eiginlega engin kornuppskera, en þó nægileg til að væri hægt að prófa stöðina. Núna væntum við þess að kornuppskera verði mjög góð – kornbændur þurfa að vera mátulega gleymnir, sérstaklega þegar slæmu árin koma. Þetta er langhlaup þar sem meðaltalið skiptir máli,“ segir Hermann.
