Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Blómlegt anddyri Garðyrkjuskólans.
Blómlegt anddyri Garðyrkjuskólans.
Mynd / Guðríður Helgadóttir
Fréttir 7. maí 2021

Verknámsstörf á Reykjum

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Garðyrkjunámið á Reykjum felst í bæði bóklegum og verklegum tímum, til að auka færni nemenda. Í síðustu viku var ein af þremur verknámslotum vorannar. Þá er lögð sérstök áhersla á verklega þáttinn þar sem nemendur fást við ólík viðfangsefni sem tengjast öllum námsbrautum.

Bæði staðnemar og fjarnemar hittast í verknáms­lotunum og þá er alltaf mikið líf og fjör. Kennarar skipuleggja verkefni sem nemendur sinna, farið er í heimsóknir til garðyrkjubænda sem taka alltaf vel á móti nemendahópum. Önnur fyrirtæki sem tengjast garðyrkjufögum á einn eða annan hátt eru líka heimsótt. Vettvangsferðir af því tagi eru mikilvægur þáttur skólastarfsins því þær auka þekkingu nemenda á daglegum störfum í ólíkum greinum garðyrkjunnar.

Verknámsaðstaðan notuð til hins ítrasta

Þessa annasömu daga höfðu nemendur á Blómaskreytinga­brautinni tekið anddyri skólans í gegn. Þar var hægt að sjá heima­verkefni nemenda og sameiginlega vinnu. Efniviðurinn var framleiðsla íslenskra blóma­bænda, íslenskur villigróður og blóm og greinar úr gróðurhúsum á Reykjum, meðal annars úr hinu merkilega Bananahúsi. Blóma­skreytinganemar hafa náð ótrúlegri færni nú á miðjum námstímanum. Aðrir nemendur unnu sín verkefni. Skrúðgarðyrkjunemar unnu hörðum höndum í verknámshúsinu að æfingum við mælingar og undirbúning fyrir hleðslur og hellulagnir. Lögðu þeir til dæmis fyrstu hellulögnina í nýendurbyggðum gróðurskála sem er nokkurs konar Miðgarður skólahússins og hefur verið notaður við alls konar samkomur í gegnum tíðina, þar er efst í huga afmælishátíð skólans Sumardaginn fyrsta, sem ekki verður unnt að halda með sama myndarbrag nú í vor og venjan er. Við skólann er starfrækt öflugt nemendafélag sem mun örugglega minna vel á sig um það leyti.

Ylrækt og braut um lífræna ræktun

Ylræktarnemar höfðu í nógu að snúast, þeir sinntu umhirðu matjurta og lögðu út sniglagildrur, hirtu illgresi, vökvuðu og sáðu miklu magni af matjurtafræi í beð sem þeir höfðu útbúið og munu uppskera í næsta mánuði. Nemar á lífrænu brautinni huguðu að jarðgerðaraðferðum. Þeir hafa sett upp nokkrar mismunandi leiðir til að jarðgera úrgang úr gróðurhúsum og mötuneyti ásamt trjákurli og hálmi. Koltvísýringur er notaður í ylrækt sem loftkenndur áburður og komust nemendur að því með nákvæmum mælingum að með því að stunda jarðgerðina inni í gróðurhúsinu jókst styrkur hans þar verulega, án nokkurs kostnaðarauka en plöntunum til gagns.

Útivera og gestafyrirlestrar

Nemendur garð- og skógar­plöntubrautar fóru í skoðunarferðir um land Reykja, mældu hæðar­vöxt elstu grenitrjánna sem voru gróður­sett á Reykjum um 1950, reyndu sig við greiningu trjá- og runnategunda og tóku þátt í skemmtilegu ágræðslunámskeiði í gróðrarstöð skólans. Nem­endur í skógtækni fóru í rannsóknar­ferðir í valda trjáreiti á Reykjatorfunni og í sunnlenska skóga, t.d. í Haukadalsskóg og Hellisskóg. Gestkvæmt var á Reykjum þessa daga. Starfs­fólk gróðrarstöðvarinnar snerist í kringum nemendur og aðstoð­aði og leiðbeindi eftir þörfum. Gesta­kennarar heimsóttu nemendur og fræddu þá um sín sérsvið. Margir sóttu skólann heim til að kynna sér hjarta íslenskrar garðyrkju og velta vöngum yfir framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum.

Endurmenntunarnámskeið fyrir almenning og garðyrkjubændur

Endurmenntunardeild LbhÍ skipuleggur námskeið fyrir almenning síðla vetrar og á vorin og þá eru helgarnar á Reykjum vel nýttar. Dæmi um garðyrkjutengd námskeið eru jarðgerð og umhirða safnhauga, trjá- og runnaklippingar, berja­ræktun, ræktun grænmetis í óupphituðum garðgróðurhúsum, pottaplönturæktun og fjölbreytt fræðsla í blómaskreytingum.
Skólinn iðaði af lífi þessa viku og í öllum hornum voru nemendur að störfum. Samvera er mikilvægur hluti af lotuvikunum þar sem nemendur stinga saman nefjum, að svo miklu leyti sem grímu­notkun gefur kost á. Dýr­indis síðdegiskökuveisla að hætti Gurrýjar var haldin einn daginn þar sem sóttvarna var þó gætt til hins ítrasta og fleiri samverustundir tengdu nemendur og starfsfólk saman.



Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...