Veiðigjaldafrumvarpið
Hvað sem öllum meirihlutum líður, blöskrar mörgum fyrirhuguð hækkun á veiðigjöldum; en frumvarp þess efnis er nú til umræðu í þinginu. Tvöföldun veiðigjalda! Er það ekki nokkuð vel í lagt? Væri 50% hækkun ekki nóg eða jafnvel 25% hækkun? Það er nú einu sinni svo, þegar verðlag og álögur eru í hæstu hæðum, þá er oft stutt í niðursveiflu. Slíkt gerist til að mynda reglulega í ferðaþjónustu á Íslandi, sökum þess að greinin verðleggur sig of hátt.
Neikvæð áhrif ofurhækkunar
Fyrirhuguð ofurhækkun gjalda á einn af þrem stærstu atvinnuvegum landsins mun örugglega hafa víðtæk neikvæð efnahagsleg áhrif á allt hið íslenska samfélag. Öll skynsamleg rök hníga í þá átt. Seint mun þessi hækkun skila sér í viðhaldi, þróun og nýsköpun í greininni og til þeirra fyrirtækja, er þjónusta veiðar og vinnslu í þessa veru. Seint mun hún skila sér í nýjum fullkomnari skipum, sem brenna minna og hreinna eldsneyti en þau gömlu, eða í nýjum orkugrönnum vélum tækjum og tólum, sem auka sjálfvirkni í veiðum og vinnslu. Og markaðsstarfið – það kostar líka tíma og peninga að halda mörkuðum og finna nýja – keppa við ríkisstyrktan sjávarútveg nágranna okkar líkt og um niðurgreiddan landbúnað væri að ræða.
Seint mun ofurhækkun veiðigjalda auka atvinnuöryggi og bæta kjör sjómanna og fiskverkafólks; en fiskvinnsla býður upp á einhver hæstlaunuðu störf í þjóðfélaginu fyrir konur með litla sem enga starfsmenntum. Þess njóta meðal annarra margar konur af erlendu bergi brotnar. Því miður er ekki sömu söguna að segja um ýmsar aðrar atvinnugreinar eins og ferðaþjónustu, veitingarekstur og þrif. Þar er víða pottur brotinn. Á hinn bóginn hefur starfsumhverfi í fiskvinnslu tekið stakkaskiptum til hins betra og verbúðir víðast hvar orðnar til fyrirmyndar.
Ofurhækkun veiðigjalda mun seint auka ráðstöfunartekjur sveitarfélaga í sjávarbyggðum, sem eins og önnur slík sinna margháttuðum, flóknum og kostnaðarsömum verkefnum fyrir íbúa sína. Kunnugt er að ríkisvaldið hefur tilhneigingu til þess að ýta frá sér verkefnum yfir á þau án þess að nægilegt fé fylgi með. Það hlýtur að koma minna í þeirra hlut frá sjávarútveginum, ef veiðigjaldafrumvarpið með sínum ofurhækkunum verður að lögum.
Innviðaskuldin
Stjórnmálamenn láta oft gamminn geisa um svokallaða innviðaskuld. Skuld við ,,kerfin“ okkar, sem við reiðum okkur ekki síst á ef eitthvað bjátar á.
Hins vegar eru kerfin víða farin að slitna. Biðtímar eftir lífsnauðsynlegum aðgerðum á sjúkrahúsum eru langir. Víða eru holur í malbikinu og svo mætti lengi telja. Hins vegar bætum við allra síst götin og fyllum í holurnar í kerfunum okkar með því einu að hækka veiðigjöldin upp úr öllu valdi og veikja þar með sjávarútveginn. Nærri lætur, að nú fari um 40% af hagnaðinum í greininni í þróunarstarf innan hennar.
Upp á síðkastið hefur líka gengið vel hjá öðrum fyrirtækjum en þeim sem stunda veiðar og vinnslu; og er fátt annað en gott um það að segja. Nægir að nefna verslun, fjármálastarfsemi, tryggingar, byggingariðnað, fasteignaumsýslu, útleigu á húsnæði og stóriðju. Hins vegar verður að segjast eins og er, að mörg fyrirtæki, sem þjónusta almenning í landinu, verðleggja fyrirgreiðslu sína og vörur býsna hátt miðað við það sem gerist í nálægum löndum. Má nefna aðila, er leigja út íbúðarhúsnæði í því sambandi?
Innviðagjald
Aðalatriði þessa máls er þó að leggja til að allir þessir aðilar og fleiri ásamt fjársterkum einstaklingum borgi sérstakt innviðagjald í því skyni að rétta við hallann á samfélagsgerðinni. Yrði innviðagjaldið sambærilegt við sanngjarnt veiðigjald á sjávarútveginn. Einnig væri tímabært að taka aftur upp bankaskatt, ef og þegar fleiri fjármálastofnanir verða einkavæddar. Jafnframt er stórfurðulegt að mengunargjöld skuli ekki lögð á stóriðju. Þau ættu að fara lækkandi ofan í visst lágmark eftir því sem mengunin minnkaði frá stóriðjuverunum. Þá kæmi hvati til góðra verka.
,,Gerum þetta saman“
Nú er litið á miðin umhverfis landið sem þjóðareign. Þar með er sjávarútvegurinn orðinn leiguliði hjá þjóðinni, enda borgar hann nú þegar veiðigjald til ríkisins. Meginþorri bænda voru öldum saman leiguliðar hjá höfðingjum, kirkju og kóngi. Landsdrottnar þessir fengu jarðarverðið borgað í leigum á tíu ára tímabili. Það voru harðir kostir fyrir bændur, enda var þá lítið um framfarir í landinu. Sjávarútvegurinn getur unað hag sínum vel sem leiguliði hjá þjóðinni, ef gjöldin, sem hann borgar til samfélagsins, eru sanngjörn. Samt getur hann ekki einn í sama mæli og áður staðið undir öllu velferðarsamfélaginu. Til þess er þjóðin orðin of fjölmenn og atvinnulífið fjölbreyttara en áður. Hins vegar getur sjávarútvegurinn áfram lagt umtalsverðan skerf til samfélagsins ásamt öðrum atvinnuvegum og einstaklingum. Lausnarorðið frábæra er gerum þetta saman, þótt það rættist því miður ekki hjá síðustu ríkisstjórn.
Sauðármýri 22.6. 2025.
