Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Vegferð skóga var löngu ljós
Á faglegum nótum 28. mars 2025

Vegferð skóga var löngu ljós

Höfundur: Hjörtur B. Jónsson, formaður búgreinadeildar skógarbænda

Lesa má um stofnfund Landssamtaka skógareigenda (LSE) í 13. tölublaði 3. árgangs (1997) Bændablaðsins. Edda Björnsdóttir, skógarbóndi á Miðhúsum, var kjörinn formaður.

Snemma er vitnað í nýsamþykkt lög samtakanna þar sem segir að meginmarkmið sé að sameina alla skógarbændur landsins og bæta aðstöðu skógræktar sem atvinnugreinar í sem víðustum skilningi. Enn fremur að eiga samskipti við hliðstæð samtök erlendis og hvetja til rannsókna og fræðslu skógarbændum til hagsbóta.

Í tvö ár hafði þriggja manna undirbúningsnefnd unnið að stofnun LSE. Þau komu frá félögum skógarbænda á Fljótsdalshéraði, Eyjafirði og á Suðurlandi. Í greininni er vitnað í orð Gunnars Sverrissonar, formanns Félags skógarbænda á Suðurlandi, sem var einn þriggja í undirbúningsnefndinni, að í upphafi hafi nefndin sett sér tvær meginforsendur til að vinna út frá.

Sú fyrri var að samtökin yrðu búgreinafélag undir Bændasamtökum Íslands. Sú seinni var að allir félagar hefðu jafnan rétt á fundum samtakanna. Þótt bændur stæðu hér að stofnun samtakanna væru þau ekki einungis ætluð fyrir þá eina heldur eru þau hugsuð fyrir alla skógræktendur.

Saman undir krónum trjánna

Þegar þessi 27 ára gömlu orð eru lesin má sjá að vegferð skógarbænda var löngu ljós. Þetta er allt að raungerast. Stundum hefur vegferðin bæði virst torsótt og hæg, en við hvað erum við að miða?

Skógar vaxa sem aldrei fyrr. Ávinningur ræktunar frumkvöðlanna hefur aldeilis sannað sig. Í þjóðskógunum og hjá félögum skógræktarfélaganna er stórglæsileg tré að finna. Þessi tré er nú verið að höggva og nýta og er aðsókn í íslenskan við sífellt að aukast. Markaður smásögunarmylla er að renna upp. Í skógum bænda vex einnig gott timbur. Raunar má reikna með að það timbur sé alls ekki af síðri gæðum eða burðum en þau hjá frumkvöðlunum. Rannsóknir sérfræðinga á tegunda- og kvæmavali, reynsla við ræktun, reynsla við gróðursetningu, reynsla af eftirliti, mat á landkostum, markaðsgreining viðarafurða og fræðsla fagfólks og kennara til skógræktenda, hefur gert það að verkum að skógrækt hérlendis er í mikilli sveiflu.

Sé horft á skógrækt í loftslagslegu tilliti þá þarf ekki að fjölyrða um ágæti hennar við kolefnisbindingu en oft gleymist í umræðunni að risastór markaður er fyrir vörur sem eiga uppruna sinn í trjám, sem ella hefðu verið unnar úr jarðefnaeldsneyti. Þetta hafa nágrannaþjóðir okkar uppgötvað og þetta erum við að læra af þeim. Úr timbri er búið til eldsneyti, klæði, einangrun í hús, fiskifóður og svo mætti lengi telja.

Dýrðin í Hálsaskógi

Samstaðan innan samtaka verður bara sterkari eftir því sem fleiri taka þátt. Bæði eflumst við inn á við sem út á við. Saman erum við sterkari við að gæta hagsmuna okkar. Ef við lærum af félögum okkar erlendis þá lærum við líka af mistökum þeirra.

Í „denn“ þótti það lítið tiltökumál fyrir stóran grisjunarverktaka að kaupa timbrið af skógarbónda, sem stóð utan hagsmunafélags, fyrir lítið. Þeir sáu fljótt að skógarauðlindina átti að nýta í allra þágu en ekki fárra.

Fjölskylduskógrækt er hugtak sem hefur í aldanna rás vaxið meðal Skandinavíubúa því ávinningur samvinnu er svo mikill og jákvæður. Það besta við slíka samvinnu er kannski ekki síst það að með samtali náum við að efla bæði okkur sjálf og ekki síður verktakann með okkur. Það á enginn að vera leiður í skóginum. Það þekkja jú allir dýrðina í Hálsaskógi.

Ávinningi stækkandi skógarauðlindar, eins og útivistar, skjóls fyrir menn og málleysingja, líffjölbreytileika og svo mætti lengi telja, verður ekki fyllilega gerð skil í stuttu lesmáli.

Bændablaðið, sem prentað hefur verið á alkunna skógarafurð í 30 ár, á heiður skilið fyrir álíka margar greinargóðar greinar og þær sem skógarnir okkar hafa upp á að bjóða. Megi bændur og alþjóð lengi lifa með Bændablaðið sér við hönd.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...