Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Veðurspeki
Á faglegum nótum 29. nóvember 2017

Veðurspeki

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í ritinu Veðrið sem Veðurstofa Íslands gaf út á árunum 1956–1978 er að finna eitt og annað um gamla veðurspeki sem Jón Eyþórsson tók saman.

Ef sjórinn gefur af sér undirhljóð nær hann er brimlaus í stilliveðri, merkir það regn og storm sem tíðast á norðan. Þá menn sjá sjóinn ókyrrast í góðu veðri og er ólgumikill svo hver aldan ríður upp á annarri, boðar það storm og rosa. Ef sjórinn sést mórauður að lit með moski og ögnum, boðar það storm.

Um fuglana
Þegar mávur og svartbakar setjast saman í miklun hópum á fjörusker, boðar það storm og óveður. Nær hrafnar saman í hópa safnast leikandi sér í lofti með litlu og ljótu krunki, þá bera þeir vitni um að gott veður komi. Þá svanir fyrst fljúga af landi til sjávar kemur oftast langgæfur stormur og harður vetur.
Nær haninn galar oft og óvanalega áður en hans réttur vani er til, merkir það snjó. Þegar fuglar og mý safnast saman í stórum hópum í lofti um sólarlag lítið eitt frá jörðu, merkir það varmt veður að morgni komandi.

Um kvikindi
Þá fiskar og smáseiði stökkva upp úr sjó og vatni, boðar það regn. Nær hundar grafa holur í jörð, boðar það langa úrkomu af snjó og regni. Þá menn sjá sauði stangast með flæstum nösum í loft upp, boðar það regn og snjó.

Um tunglið
Sé sá upplýsti tunglsins partur tunglsins klár og skír og bjartur, sýnir skírt veður og gott, einkum til þess hálfvaxið er tungl. Ef sunnanvindur er, þá menn sjá þriggja nátta gamalt tungl, þá kemur regn á þeim fjórða degi. Ungt tungl, þriggja eða fjögurra nátta, skal í heiðríku lofti skoða einni stundu eða nokkru síðar eftir sólsettur. Sé sá upplýsti partur rauður með hvössum hornum, þýðir vind og frost um vetur, einkum á öðrum kvarternum. Safnist mikill, þykkur hringur í kringum tungl líkast sem regnboginn á nóttu og hafi hlið á sér, þýðir það veðráttuskipti til snjóar og regns.

Um sólina
Ef undan sólu gengur einn úlfur, er vér Gýl nefnum, og gangi út af honum langur hali eða rauður geisli, merkið það ætíð storm. Nær sólin í sinni uppgöngu er aldeilis hrein og klár, og séu engin ský eður loftsins dampur kringum hana, þá verður sá dagur og nótt með blástur.

Um eldinn
Þá maður sér á vetur að eldur er mjög rauður og sárheitur, merkir það kulda. Viðarkol og glæður mjög eldrauðar sýna skært og gott veður. Rauðleitur eldur í lofti er mjög skaðlegur en æsist mest í regni og vatni og brennir það hann snertir. Nær maður sér í votviðri að ljósið logar spart þá er loftið hneigt til úrkomulegs veðurs.

Um vindinn
Vindur sá sem kemur með degi plagar harðari eða verra en sá sem kemur með nóttu. Norðanvindurinn er heilsusamari en aðrir vindar. Mikill stormur þurr, lyktar oft með regni. Stormur vaxandi um miðdegi, merkir þráviðri nokkra daga. 

Skylt efni: Veður | Stekkur

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f