Varað við tínslu kræklings
Matvælastofnun hefur sent út viðvörun vegna mögulegra eiturþörunga sem geta mengað krækling á vinsælum tínslustöðum.
Þörungarnir hafa verið viðvarandi í sjó í Hvalfirði yfir sumartímann. Er það vegna þess hve sólríkt hefur verið í maí og júní. Því hefur almenningi verið ráðið frá því að tína krækling í Hvalfirði og á öðrum vinsælum stöðum til kræklingatínslu. Frá þessu er greint á vef Matvælastofnunar (MAST).
Neytendur þurfa ekki að varast krækling sem er ræktaður hérlendis og fæst í verslunum og á veitingastöðum. Ræktendur eru undir eftirliti MAST og heilbrigðiseftirlits og þurfa reglulega að taka sýni af skelkjöti og sjó til að fylgjast með magni eitraðra þörunga í kjötinu og hafinu þar sem ræktunin á sér stað.
Vöxtur og eiturmyndun í þörungum er ekki fyrirsjáanleg og getur hættan sprottið upp á gróðurtímabili þörunga sem er frá því í mars og fram á vetur. Skelfiskurinn verður ekki fyrir áhrifum sjálfur, en safnar í sig eitrinu. Samkvæmt MAST er ekki tryggt að fylgja þumalputtareglunni um að óhætt sé að neyta kræklings sem er tíndur í mánuðum sem hafa R í nafninu sínu, því eitrið getur haldist í skelfisknum að loknu gróðurtímabili þörunganna.
