Útivistar- og loftslagsskógrækt í landi Lundar
Framkvæmdaleyfi til skógræktar á jörðinni Lundi 3 í Borgarbyggð er nú til umsagnar í Skipulagsgátt.
Skógræktarfélag Reykjavíkur, landeigandi jarðarinnar Lundar 3, óskar eftir framkvæmdaleyfi til skógræktar á jörðinni. Segir í kynningu málsins í Skipulagsgátt að um sé að ræða útivistar- og loftslagsskógrækt á um 184 ha svæði og gert ráð fyrir að plantað verði í um 140 ha. Lögð er áhersla á að setja niður birki, stafafuru, sitkagreni, ösp og elri/öl sem skipt verður niður eftir jarðvegi á hverjum stað fyrir sig. Megináhersla er sögð vera að skógurinn skapi skjól og auki útivistargildi svæðisins ásamt því að binda kolefni. Í umsókn kemur m.a. fram að innan svæðis sé mýrlendi um 23 ha að stærð sem ekki verði raskað.
Gera má ráð fyrir að gróðursetning taki um fimm ár og verði lokið árið 2030 eða 2031. Skógræktarsvæðið liggur að Lundarreykjadalsvegi. Ekki verður gróðursett nær veginum en 15 metra. Skógurinn verður opinn almenningi. Málið verður í umsagnarferli til 22. júní nk.
