Útiræktað grænmeti dafnaði vel í sumar
Uppskera útiræktaðs grænmetis gæti orðið með besta móti og miklu betri en í fyrra ef fer sem horfir.
„Það er allt gott að frétta af uppskeruhorfum í útiræktuninni,“ segir Helgi Jóhannesson, garðyrkjuráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Vegna hins hlýja vors og passlega mikillar vætu í sumar hafi öllu farið vel fram og horfur séu á góðri uppskeru í sumar og haust. Næturfrost gæti þó stoppað vöxtinn í kartöflunum en mjög góð uppskera er að fást í þeim það sem af er. Tíðindi bárust einmitt af næturfrosti á Þingvallasvæðinu og Sandskeiði í vikunni og ekki á vísan að róa með frostleysi alls staðar á ræktunarsvæðum eftir þetta. „Menn eru að taka upp fram í október, en megnið auðvitað í byrjun september, svo það getur allt gerst. En fram til þessa er útlitið gott,“ segir Helgi enn fremur.
Tölur um uppskeru í mismunandi tegundum útiræktaðs grænmetis koma svo í hús í vetrarbyrjun, eftir að skráningum garðyrkjubænda á uppskeru beint af akri lýkur.
Uppskeran í fyrra var víða léleg vegna kulda, í heildina um 2.500 tonnum minni en árið áður, sem var þó einnig heldur lélegt ræktunarár. Þar af var gulrótauppskeran um helmingi minni, en athygli vakti þó að spergilkál hélt velli.
